16.02.1951
Neðri deild: 70. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af ræðu hæstv. fjmrh. — Hv. fyrri þm. Árn. sagði, að ég væri dauður. Það er rétt, að ég hef haldið þær tvær ræður, sem mér eru heimilaðar. En mér virðist hann hafa í þessu máli dáið af sinni einu ræðu og þurfi ekki aðra til, svo að hann ætti að hafa hóf á yfirlæti sínu. En þessi eina ræða sýndi, að hann hefur ekki skilning á aðalatriði þessa máls. — Nú komu fyrst skýrar upplýsingar frá hæstv. fjmrh. og 1. þm. Árn. varðandi þetta lán. Hæstv. fjmrh. sagði: „Lánið verður allt notað til útlána eftir reglum sjóða Búnaðarbankans.“ Þá er hér um að ræða framkvæmdir fyrir ca. 50 millj. kr., og er það 1/10 af heildarfjárfestingu landsmanna, svo að hér er ekki um neina smáupphæð að ræða. En fjárhagsráð mun hafa áætlað væntanlega fjárfestingu um 500 millj. kr. Ráðherrann sagði í einni ræðu sinni: „Við ætlum að afstýra verðbólguáhrifum með því að draga úr annarri fjárfestingu sem svarar innlendum kostnaði.“ Það er rétt, að hægt er að koma í veg fyrir verðbólgu með því að draga úr öðrum framkvæmdum, enda hef ég vikið að því áður. En ég vil benda hæstv. ráðh. á, að þetta er í algerri mótsögn við það, sem ráðh. sagði í næstsíðustu ræðu sinni. En þá sagði hann: „að lántakan gerði mögulegt að hafa fjárfestinguna meiri en ella.“ Einnig sagði ráðherrann: „Hin áætlaða fjárfesting verður minnkuð í 450 millj. kr. til að skaffa rúm fyrir 50 millj. kr. nýja fjárfestingu í landbúnaðinum,“ og „fjárfestingin getur orðið meiri en ella“, þ.e.a.s. 550 millj. kr. Hvort tveggja getur ekki staðizt, og þess vegna vildi ég fá ákveðnar upplýsingar um þetta.

Ef við gerum ráð fyrir, að fjárfestingin sé áætluð 500 millj. kr. og það sé hæfileg fjárfesting án þess að efnt sé til verðbólgu, er þá meiningin, að fjárfestingin verði 550 millj. kr., — eða verður hún þrátt fyrir lánið 500 millj. kr. áfram og aðrar framkvæmdir minnkaðar ofan í 450 millj. kr.? Það er tvímælalaust rétt að minnka aðrar framkvæmdir ofan í 400 millj. kr., því að þá verður ekki um verðbólguáhrif að ræða. En þá vil ég spyrja: Hvaða framkvæmdir á að minnka? Á að draga úr byggingu íbúðarhúsa í bæjum, vegagerð, hafnargerð — eða hverju? Þessar upplýsingar ættu að liggja fyrir. Það er sýnilegt, að nauðsynlegt er að draga úr einhverjum framkvæmdum, sem ella hefði verið hafizt handa um, og mér finnst ekki óeðlilegt, að þm. úr stjórnarandstöðunni, sem ekki eiga aðgang að skýrslum um þessi efni, fái greið svör um þessi mál í umræðum hér á Alþingi.