16.02.1951
Neðri deild: 70. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hvað viðvíkur því, að engu sé verið að ryðja úr vegi með þessari nýju lántöku, þá virðist mér það vera augljóst, að eins og nú háttar sé ekki hægt að leggja út í nýja fjárfestingu án þess um leið að minnka einhverja aðra fjárfestingu. Mér finnst, að hæstv. ráðh. gæti lært talsvert af ágætu erindi, sem Halldór Kristjánsson flutti í útvarp fyrir skömmu Um daginn og veginn, þar sem hann sagði frá manni, sem harmaði að geta ekki bæði selt kjötið sitt og borðað það. Ráðamönnum ríkisins hefur gleymzt, að það er ekki bæði hægt að borða kjöt og selja það. Það er nú ekki hægt að leggja svo út í nýjar framkvæmdir, að ekki sé um leið rutt burtu einhverju öðru, sem hefði mátt framkvæma með þeim fjármunum, sem til framkvæmdanna er varið.