26.02.1951
Neðri deild: 75. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Frsm. 1. minni hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Herra forseti. Ég hef látið útbýta sérstöku nál. og borið fram þrjár brtt. — Ég vil í sjálfu sér ekki setja mig á móti því, að ríkisstj. fái heimild til lántöku til fjárfestingar. Að vísu bráðliggur nú ekki á, þar sem ekki mun hafa verið leitað fyrir sér enn þá um lánsmöguleika. En ef slíka heimild á að gefa, tel ég, að það þurfi að hafa eitthvert jafnvægi á því, hvernig lánsfénu á að útdeila í lánum innanlands. Mín till. er því sú, að Búnaðarbankinn fái að láni af því, sem hér verður tekið að láni, 12 millj. kr., og allt að 7 millj. kr. til byggingar verkamannabústaða og samvinnubyggingarfélaga í kaupstöðum, því að það má ekki alveg vanrækja þá þörf, sem þar er fyrir hendi um byggingu íbúðarhúsa, og að 6 millj. kr. fari til iðnlánasjóðs, þannig að stofnlánaþörf frá iðnlánasjóði verði fullnægt nokkuð.

Eins og hér var flutt skýrsla um fyrir nokkru hefur ríkissjóður lagt fram til iðnaðarins um 2 millj. kr. á sextán árum, meðan ausið hefur verið fé í aðra atvinnuvegi. Ég tel því, að þessi heimild fyrir ríkisstj. vegna iðnaðarins sé sízt of há, ef ríkisstj. tekst að afla lána, innan lands eða utan. — Það má vel vera, að till. mínar hefðu átt að vera með öðrum hætti eða ýtarlegri en þær eru hér. — Ég hef líka viljað bæta í þetta því, að lán mætti taka með ábyrgð ríkisstj. til þess að breyta kyndingu í gömlu togurunum eða gera tilraun um breyt. á kyndingu gömlu togaranna úr kolakyndingu í olíukyndingu. Mönnum ber ekki saman um, hvað þetta mundi kosta. Mönnum ætti að vera kleift — eða maður skilur ekki í öðru en að það ætti að vera kleift — að reka svo ódýr skip sem gömlu togarana með því að breyta þeim, samanborið við það verð, sem er á nýsköpunartogurunum, eins og nú er komið. A.m.k. er svo komið í mörgum þorpum hér á landi nú um atvinnulífið, að ég vil telja skylt að gera tilraun um breyt. á gömlu togurunum og sjá, hvort hægt væri að láta þá bera sig með nokkurum hætti. Ég hef ekki í þessari till. sett í þessu tilliti fram nein skilyrði. Hæstv. ríkisstj. verður að sjá, hvaða tryggingu hún getur fengið og hvernig hún getur notað þessa heimild, meðan þetta er á tilraunastigi.

Ég hef svo ekki öllu fleira að segja um þessar till. mínar. Þó að heimildin sé þarna hækkuð nokkuð eftir till. mínum, og ætlunin að gera það vegna þess, að fara skuli víðtækar í ráðstafanir fyrir þetta lán, þá er það til þess að raska ekki alveg því jafnvægi, sem þarf að haldast um atvinnuvegi og stéttir.