03.03.1951
Efri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 814 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónason):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd., og því fylgdi þar grg., þar sem frv. var kynnt; en efni þess er að heimila ríkisstj. að taka allt að 43 millj. kr. lán, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendum gjaldeyri. Ástæður til lántökunnar eru þrenns konar. Í fyrsta lagi telst svo til, að það þurfi 25 millj. kr. til greiðslu eftirstöðva af verði togaranna nýju, og á þá að greiða upp 16 millj. kr. bráðabirgðalánið, sem tekið var í Englandi til eins árs. Í öðru lagi vantar milljónatugi í stofnlánadeild Búnaðarbankans til ræktunarframkvæmda og húsbygginga í sveitum, og er ætlunin að fá með þessu nokkurt fé til bráðabirgða á meðan leitazt er fyrir um að fá fjármagn til þessara framkvæmda, sem að haldi má koma. Þá er í þriðja lagi nauðsynlegt að fá fé til aukinna iðnlána. Fyrir Alþ. liggur frv. um iðnbanka, sem kunnugt er, en ríkisstj. telur ekki að svo komnu tímabært að samþ. það, heldur leggur hún áherzlu á, að heimiluð verði að sinni þessi lántaka til iðnaðarins, og yrði þá hægt að athuga það fram að næsta Alþingi, hvort þá þætti tímabært að stofna sérstakan iðnbanka með svipuðum hætti og ráðgert er í því frv.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. þessu sé vísað til hv. fjhn. að lokinni umræðu.