03.03.1951
Efri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. þm. Vestm. vil ég taka það fram, að það skilyrði, sem hann talaði um, tekur aðeins til iðnlánasjóðs, en ekki Búnaðarbankans. En á þessu stendur þannig, að flm. iðnbankafrv. fluttu brtt. við þetta frv. í hv. Nd., þar sem þeir tiltóku, að framlagið skyldi greiðast til iðnbankans. En ríkisstj. var því andvíg, og varð svo samkomulag um, að þarna stæði: „til iðnaðarbanka eða til iðnlánasjóðs, enda komi jafnhátt framlag annars staðar að“. — Annars mundi lánsfé til iðnaðarins aðeins aukast um 3 millj., en það hefur alltaf verið gert ráð fyrir því, að sú upphæð yrði hærri og kæmi til meira fé frá öðrum aðilum, og eins þótt féð fari til iðnlánasjóðs í stað iðnbankans.