03.03.1951
Efri deild: 82. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Hvað togaralánið snertir, sem hv. þm. spyr um, þá er þetta þannig vaxið, að þeir, sem kaupa togarana, taka að sér fasta, brezka lánið, eins og kemur fram í grg., eða um 70% af kostnaðinum. 10% er gert ráð fyrir, að séu borguð út, og stendur þá eftir 20% sem skuld við ríkissjóð, og lendir gengisáhættan af því á ríkinu; en það eru um 16 millj. kr., sem eru í þeirri áhættu, og á því verður sennilega einhver vaxtamunur líka.

Það er enn þá allt á huldu um það, hvernig tekst að útvega þetta lán. Ríkissjóður skuldar vegna þessara viðskipta í Bretlandi 350 þús. pund í eins árs lánum, og verður reynt að útvega fast lán til að breyta því.

Varðandi lánið til Búnaðarbankans, þá stendur hér í frv., að bankinn skuli fá það með sömu kjörum og það verður tekið. Ég reikna með því, að bankinn verði að taka lánið í erlendri mynt og taka á sig áhættuna af því, en auðvitað verður ekki farið að lána bændum þetta fé í erlendu myntinni.

Haraldur Guðmundsson: Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. upplýsingar hans. Mér skilst af þeim að því er varðar Búnaðarbankann, að hann verði að taka áhættuna af umræddu láni, og það verði veitt með eðlilegum hætti til bænda, án nokkurrar áhættu af gengisbreytingu eða vaxtamismun. Er þannig auðséð, að á þessum tveimur lánum, til landbúnaðarins og skipanna, er ákaflega mikill munur. — Á þetta vildi ég aðeins benda hér við 1. umr. málsins.