05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Mér þykir gott að heyra, að hæstv. ráðh. skuli vera kominn á þá skoðun, að bygging íbúðarhúsa í sveitum og kaupstöðum sé í aðalatriðum hliðstætt, og við munum þá sættast á það, að þó það sé ekki alveg hliðstætt, ekki alveg 100%, þá sé það þó hliðstæðara en lán til iðnaðarins, lán til landbúnaðarins og lán til togarakaupa. Þá er þessi endileysuröksemd hæstv. ráðh. fallin og þarf ekki meira um hana að ræða.

Ég held, að það sé ekki svo takmarkað, sem við getum fengið af lánum, að það sé leikur einn að fá 12 millj. kr. hærra lán, ef vilji er fyrir hendi. Hæstv. ráðh. sagði, að það þyrfti að leysa byggingarmál kaupstaðanna, en það ætti bara að gerast á annan hátt. Á hvaða hátt?