05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 824 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli hv. deildar á þeim orðum, sem hæstv. ráðh. lét falla í lok ræðu sinnar, að landbúnaðurinn ætti að ganga fyrir öllu um lánsfé. Það er það, sem ég hef verið að halda fram, að hæstv. ríkisstj. hafi gert í þessum efnum; hún væri að draga fram hlut ákveðinnar stéttar í þjóðfélaginu, án þess að sinna jafnréttlátum og eðlilegum kröfum frá öðrum stéttum þjóðfélagsins, sem að minnsta kosti er líka nauðsynlegt að fá aðstoð í þessum efnum. Ég harma það, að hæstv. ráðh., sem ekki er aðeins ráðh. bænda, heldur einnig allrar þjóðarinnar í heild, skuli ófeiminn taka sér slík orð í munn. Ég minnist þess, að þegar Alþfl. og Framsfl. unnu saman í ríkisstj., var reynt að hnika til þannig, að samræmi væri í fjárframlögum þess opinbera til kaupstaða og kauptúna annars vegar og til sveitanna hins vegar, t.d. til bygginga í kaupstöðum og kauptúnum og bygginga í sveitum. Nú er alveg frá þessu horfið, og sýnir það, að ráðh. tekur sér slík orð í munn, greinilegar en margt annað, hvaða stefnubreyting hefur á orðið hjá ráðh. og hans flokki í þessum efnum, og nú er svo komið, eins og hæstv. ráðh. staðfesti með ummælum sínum. Hann segir hér í þessari hv. d., að hann telji, að þarfir landbúnaðarins þurfi að ganga fyrir öllu öðru í þessum efnum. Ég harma slík ummæli.