05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

176. mál, lántaka handa ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég verð að segja, að ég er hissa á þessum aths. hv. 4. þm. Reykv., því að þær eru bara útúrsnúningur. Það, sem ég sagði, var það, að gera yrði upp við sig á hverjum tíma, hvað ætti að láta ganga fyrir af þeim framkvæmdum, sem til stæðu, því að möguleikar til framkvæmdanna takmörkuðust af fjármagninu. Og ég sagði, að stj. hefði komizt að þeirri niðurstöðu, að þessi litla lántaka til landbúnaðarins yrði að ganga fyrir. Þetta reyndi svo hv. þm. að túlka þannig, að með þessu sé stj. að halda uppi misrétti, það sé játað af þessum ráðh., að stj. geri upp á milli þegnanna. Þessi þm. veit vel, að undanfarin missiri er búið að setja hér gegnum Alþ. lántökur til sjávarútvegsins og stórframkvæmda í iðnaðinum, sem nema ekki 15 millj. kr., heldur mörg hundruð milljónum kr., án þess að nokkurt lán hafi verið tekið fyrir landbúnaðinn. Nú síðast er búið að taka tvö tveggja millj. kr. Marshalllán, án þess að landbúnaðurinn hafi fengið einn einasta eyri af þeim lánum, og síðan hafa komið margar aðrar lánsheimildir, án þess að landbúnaðurinn hafi komið þar til greina. Þegar hér er komið sögu, kemst svo stj. að þeirri niðurstöðu, að eitthvað verði að bæta úr þessu misrétti. Það er þess vegna ósæmilegt fyrir slíkan mann, sem fylgist vel með í þessu máli, að snúa út úr ummælum mínum og leggja þau út eins og stj. sé inni á því að vilja beita misrétti í garð atvinnuveganna og þegnanna. Þetta er lítilfjörleg tilraun til þess að leiðrétta þann gífurlega áhalla, sem hefur orðið á í þessu efni, og þetta er aðeins brot af því, sem þyrfti að gera til að jafna það mikla misrétti, sem orðið er á þessu sviði. Það er það, sem hér er um að gera.

Í sambandi við ummæli hv. 4. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. um byggingar í kaupstöðum og kauptúnum og svona hálfgerðar glósur um það, að núv. ríkisstj. hefði ekkert gert í þeim efnum, vil ég bara leyfa mér að benda á það, að núv. ríkisstj. hefur aflað handa byggingarsjóði verkamanna meira fjármagns á því eina ári, sem hún hefur setið, en félmrh. Alþfl. á fimm árum.