12.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

150. mál, fjáraukalög 1948

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Út af hinni löngu ræðu hv. frsm. fjvn., sem hann flutti hér áðan um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1948, og í sambandi við hugleiðingar hans um meðferð þeirra mála, þá vildi ég benda á það, að á þeim tíma, er ég fór með fjármálin í landinu, henti það oftsinnis, að upphæðir, sem höfðu verið settar inn í fjárlög og yfirfarnar af hv. fjvn. og síðan samþ. hér á hv. Alþingi, reyndust af einni eða annarri orsök ekki nægilegar til að standa undir þeim kostnaði, sem þeim var ætlað. Í sumum tilfellum má segja, að nákvæma áætlun hafi ekki verið unnt að gera. Eins og allir vita, þá eru fjárlög hvers árs byggð þannig upp, að það byrjar með því, að hver deild stjórnarráðsins sendir fjmrh. sína áætlun, sem síðan byggir upp fjárlagafrv. í sínu ráðuneyti. Og fjmrn. hefur ekki mikil tök á því að finna það strax í byrjun, hvort viðkomandi ráðun. eða deild ríkisbúskaparins hefur áætlað skynsamlega eða gleymt einhverju. Það hefur oftlega komið fyrir, að fjárlagafrv. hefur verið búið þannig í hendur fjmrn., að það hefur gefið tilefni til misfellna, að áætlað hefur verið of lágt fyrir útgjaldaliði, sem síðar hafa reynzt þurfa meiri tilkostnað. Þá eru sumir liðir fjárlaganna þannig, að gert er ráð fyrir ákveðinni upphæð, sem síðan er sett inn í fjárlögin, t.d. til viðhalds vega. Á þeim árum, sem ég gaf þessum málum nánari gætur, mátti heita öruggt, að til viðhaldsins færi um 50% hærri upphæð en fjvn. og Alþ. höfðu sett inn í fjárlögin. Við þetta getur fjmrh. ekkert ráðið. Og það eru fleiri liðir í fjárlögunum, sem eru háðir öðrum yfirráðum en fjmrn. Ég man ekki betur en t.d. framlag til jarðræktar byggist á því, hve mikið er innt af hendi á hinum ýmsu stöðum á landinu. Ef svo tekið er til athugunar í viðbót við þetta, að þetta ár, sem hér um ræðir, þ.e.1948, var eitt af þeim árum, sem ríkisstj. hafði sérstaka útgjaldapósta með óþekktum stærðum, þar sem voru dýrtíðarniðurgreiðsla og uppbótargreiðsla á fisk, þá verður það enn frekar skiljanlegt, að slíkar tölur geta hvikað til. Meðan ríkisstj. greiddi uppbót á fisk, var t.d. sú upphæð, sem til þess var varið, háð því, hve mikið magn af fiskinum veiddist, og í öðru lagi, hve mikið af honum seldist og fyrir hvaða verð. Er því ekki undarlegt, þótt það hafi reynzt erfitt fyrir Alþingi að vita með vissu, er það afgreiddi fjárlögin, hve háar þær greiðslur yrðu. Í þá tíð dróst afgreiðsla fjárl. einmitt vegna þessara hluta. Þá var reynt að sjá borgið einum sterkasta þætti í atvinnulífi þjóðarinnar, og ég get þess hér, að það, sem tafði afgreiðslu fjárl. mest, var það, hve erfiðlega gekk að finna tekjulindir til að standa undir þeim útgjöldum. Nú er þessi niðurgreiðsla á fiski horfin úr sögunni, og má því ætla, að af henni þurfi ekki að verða hneykslunarhella á næstu fjáraukalögum. Enn fleira hefur komið til greina í þessu sambandi, sem sýnir það glöggt, að þarna er ekki alltaf leikur fjmrh. að verki, eins og virtist koma fram í ræðu hv. frsm. fjvn. hér áðan. Fjmrh. stendur sem sé oftlega frammi fyrir þeirri staðreynd, að menn koma til hans og segja, að það, sem stendur í fjárlögunum, hafi aldrei verið annað en áætlunarupphæð og það sé ekki hægt að stöðva framkvæmdirnar, þótt skakkar áætlanir hafi verið gerðar í fjárlögum. Og hvað er hægt að gera í slíkum tilfellum? Á t.d. að stöðva snjómokstur á vegum, vegna þess að fjárlögin höfðu ekki gert ráð fyrir honum? Ég bendi aðeins á þessi atriði hér — og án ásakana í garð nokkurs manns af minni hálfu — vegna þeirra orða, sem hv. frsm. fjvn. stagaðist sífellt á í sinni ræðu. Ég tel sjálfsagt að draga þessar staðreyndir fram, úr því að það féll í minn hlut að standa fyrir því máli, sem sumum skeytum hv. þm. var beint að. Og það er vitað, að upphæðir fjáraukalaga hafa oft áður verið háar. En ég held, að erfitt verði að sigla fram hjá fjáraukalögum, að fjmrh. verði ekki ætíð að leita heimildar Alþingis með þær upphæðir, sem hann hefur orðið að greiða, en fjárlög viðkomandi árs ekki leyft. Ég hef nú bent á sitthvað, sem sýnir, að það er ekki alltaf sök fjmrn., þótt leita þurfi heimildar eftir á fyrir ýmsar aukagreiðslur. Á ég þó ónefnt eitt mikilsvert atriði í því sambandi. Á ég þar við, að hv. fjvn. hefur a.m.k. stundum beitt þeim diktatorísku aðferðum að skera niður, að því er virtist alveg blindandi, augljósa útgjaldapósta, þrátt fyrir það, að vitað hefur verið um leið, að slíkur niðurskurður hefur ekki átt sér neina stoð í raunveruleikanum. Síðan er sökinni skellt á fjmrh. og sagt, að hann hafi eytt meiru en spekingarnir ætluðust til. Við þetta átti ég að búa oftar en einu sinni, og ég mátti mæta þeirri staðreynd, að þessir einræðisherrar ætluðu sér þá dul, að þeir væru menn til að skáka raunveruleikanum sjálfum í þessu efni. Vitaskuld verða þeir, sem vinna sín störf, að fá laun sín greidd, hjá því verður ekki komizt. Og Alþingi verður að horfast í augu við það, að hv. fjvn. getur hæglega skjátlazt. Þetta hefur líka gert sitt til, að upphæðir fjáraukalaganna hafa ekki verið á valdi fjmrh. Nú hefur hv. frsm. fjvn. bent á ágæta leið út úr þessum málum, sem ég ímynda mér, að allir álíka gáfaðir menn og hann samþ. Hún var sú, að Alþingi gangi svo frá fjárlögum, að þar standi á einum stað nei, öðrum já, og þarna standi 0 og þarna 1. Síðan verði sagt við fjmrh.: Þetta framkvæmir þú og ekki hót meira. M.ö.o., að frá þeim tölum verði ekki vikið, sem Alþingi hefur búið til á sínum tíma, en það verði síðan látið skeika að sköpuðu, að hve miklu leyti hægt verði að halda uppi þeirri starfrækslu og þeim framkvæmdum, sem ætlazt er til, að eigi sér stað.

Í sambandi við formið á fjáraukalögunum, þá álít ég það raunar aukaatriði, hvernig það er, og skal ég ekki gera það að umræðuefni, þar sem líka hæstv. fjmrh. hefur minnzt á það atriði og hyggst taka það til greina, hvort ekki megi greina upphæðirnar betur í sundur. Ég hef nú bent á það, að þegar hv. fjvn. kemur með sínar ábendingar og aths. í þessu efni, þá eru til staðreyndir í málinu, sem eru ekki frá í dag og ekki frá í gær og eru orðnar innlyksa hér í þinginu, en gera það að verkum, að fjárlagafrv. verður fyrir miklum breytingum í meðferðinni, án þess að fjmrh. sé að leika sér með það, eins og hv. frsm. vildi gefa í skyn. Ég hef bent á nokkra faktora, sem ég hef komið auga á á ýmsum tímum og hafa valdið því undanfarin ár, að áætlanir fjárlaganna hafa hreyfzt til, og með því hef ég slegið föstu, að sökin liggur fjarri því alltaf hjá framkvæmdarstjóra fjármálanna, þ.e. fjmrh., þótt hann verði oft að greiða fjárupphæðir, sem hann hefur ekki fjárlagaheimild til. Ég fékk a.m.k. minn skerf af deilum við ýmsa aðila, sem bentu á, að það væri nú orðin hefð að veita til þessa og þessa, hvað sem liði áætlun fjárlaganna, og því bæri mér ekki að kvarta. Ég vildi óska, og það fyrst og fremst vegna ríkisheildarinnar sjálfrar, að hv. Alþingi og fjvn. hefðu framvegis fastari háttu og raunhæfari á sínum till. í þessu máli, en létu ekki við það eitt sitja að krítisera fjáraukalögin eftir á.