13.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

150. mál, fjáraukalög 1948

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að hv. fjvn. láti sér nægja þá yfirlýsingu frá hæstv. fjmrh., að hann muni hlutast til um, að önnur aðferð verði tekin upp í sambandi við samningu fjáraukalaga. Nefndin mun þó að sjálfsögðu taka afstöðu til þeirrar yfirlýsingar sjálf. Í sambandi við þau orð hæstv. ráðh., að erfitt muni máske reynast að fullnægja óskum fjvn. um það að setja á fjáraukalögin umframgreiðslu á hverjum lið, vil ég koma með dæmi til að útskýra, hvað ég álít, að fjvn. muni eiga við. Ef umframgreiðslur eiga sér stað, t.d. á 14. gr., við getum sagt til kennaraskólans, að þá þurfi að leita heimildar fyrir þeirri umframgreiðslu, enda þótt öll sú upphæð, sem heimilt hafi verið að verja til stýrimannaskólans, hafi ekki verið notuð. Sem sagt, að heimildar verði leitað fyrir umframgreiðslu á hverjum lið innan hverrar greinar, sem farið hefur fram úr áætlun, þótt sparnaður á öðrum liðum hennar lækki þá upphæð, sem greinin í heild hefur farið fram úr áætlun. Þetta hygg ég, að sé það, sem fjvn. fer fram á.

Viðvíkjandi ræðu hv. þm. Vestm., þá held ég hann sé óþarflega viðkvæmur fyrir þessu máli. Fyrir mér vakti aðeins það, sem ég tel höfuðatriði þessa máls, að mér finnst það vera óviðunandi ástand, ef svo á að ganga til, að fjárlög fari allt að 50% fram úr áætlun. En ég gat þess áðan, að ég vildi ræða þetta málefnalega, en ekki sem ádeilu í garð nokkurs sérstaks manns, en það er eðlilegt, að ég miðaði við þau fjáraukalög, sem hér eru til umr. Þegar hv. þm. Vestm. fór að vitna í ýmislegt, sem ég hafði sagt, þá var hann ekki svo mjög nákvæmur, en varð þó að viðurkenna ýmislegt, sem ég hafði nefnt sem dæmi máli mínu til stuðnings, og gat þess, að ég hefði tekið fram, að í þessu eða hinu tilfellinu hefðu verið málsbætur. Meðal annars gerði hann að umræðuefni 19. gr. og fannst, að ég hefði fundið óþarflega að því, hvað fjárveitingar til dýrtíðarráðstafana hefðu farið fram úr áætlun. Ég gat þess sérstaklega, að dýrtíðarliðinn á 19. gr. hefði verið mjög erfitt að áætla, svo að raunhæft reyndist, en ef litið væri á fjáraukal. fyrir árið 1947 og 1948, þá sést, að það tekst mun betur fyrir árið 1948 en 1947, því þá þarf ekki að veita nema 10 milljóna kr. heimild á móti 25 milljónum fyrir árið 1947. Þetta var sem sagt viðurkennt af mér. En mér virðist hv. þm. svo viðkvæmur fyrir þessu, að hann sá ástæðu til þess, án þess að ég nefndi nokkurn ráðh., því að ég beindi máli mínu til ríkisstj., að beina máli sínu sérstaklega til fjvn. Hann fór að tala um þessa spekinga, sem sætu í fjvn., og þar fram eftir götunum. Hann beindi þeim ásökunum til fjvn., að hún hefði, þegar hann var fjmrh., skorið í blindni niður útgjöld. Ég vil fyrir hönd fjvn. mótmæla þessu. Vitanlega hafði fjvn. þá sömu viðleitni 1948 eins og fyrr og síðar, að reyna að skapa það viðhorf og sjónarmið að halda sem gætilegast og bezt á fjármálum ríkisins. Að fjvn. hafi í blindni skorið niður nokkur útgjöld, því mótmæli ég, og sé það svo, að þáv. fjmrh. sjái ástæðu til að segja þetta, þá vil ég aftur staðhæfa, að hann hafi ekki einlægt haft svo mikið fyrir að gefa fjvn. upplýsingar um þau ýmsu útgjöld, sem óhjákvæmileg voru á hverjum einstökum lið fjárlaga. Ég tel þess vegna ástæðulaust og ekki að gefnu tilefni af ræðu minni að fara að metast um það nú, hver eigi sökina.