06.03.1951
Sameinað þing: 49. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 838 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

150. mál, fjáraukalög 1948

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort það er þess vert að standa upp og svara þessum hv. þm. upp á það að hafa aðeins 5 mín. til umráða. En ég get engan veginn fellt mig við niðurskurð ræðutímans í 5 mín. Þetta mál hefur sama rétt á sér og önnur mál, og er ekkert, sem réttlætir það, að ræðutíminn sé skorinn niður, og vil ég hér með mótmæla því.

Ég hef ekki fært þetta mál inn í þann farveg, sem það nú er í, heldur hv. þm. Barð., enda taldi hann nauðsyn til þess að staðfesta fyrri ummæli sín með sinni síðustu ræðu. Ég tel mig því knúðan til þess að svara hv. þm. Barð. og get engan veginn álitið mig misbjóða hæstv. forseta, þótt ég tali lengur en 5 mín.

Ég gat um það áður, að ég væri reiðubúinn til þess að leiða einn af forystumönnum Sjálfstfl. sem vitni í þessu máli. Ég vil því að gefnu tilefni leiða fram þetta vitni, sem er. einn af áhrifamönnum Sjálfstfl., hv. þm. Vestm., sem hv. þm. Barð. mun telja mikinn fjármálaleiðtoga, og vil ég í því sambandi vitna í ummæli hv. þm. Barð. við 2. umr., þar sem hann sagði, að hann hefði verið sammála þessum hv. þm. öll þau ár, er hann var fjmrh. og þm. Barð. form. fjvn., að tveim skiptum undanteknum. Ég ætla því, að hv. þm. Barð. telji hv. þm. Vestm. mikinn fjármálaleiðtoga, fyrst hann segir, að hann hafi getað átt samleið með honum í slíkum málum öll þessi ár. En við umr. í Ed. í vetur mælti hv. þm. Vestm. á þá leið, — eftir að hann hafði lýst erfiðri aðstöðu sinni sem fjmrh. undanfarin ár og lýst yfir, að hann hefði vænzt betri stuðnings af Sjálfstfl. varðandi fjármálastjórnina, og sagði svo orðrétt:

„Ég átti við það að búa, að jafnvel minn eiginn flokkur lagði í bakið á mér, eftir að fjárl. voru afgreidd, með því að samþykkja margra milljóna króna útgjöld, og leggja mér þá skyldu á herðar að greiða utan fjárlaga. Það var óforsvaranlegt.“

Ég ætla því, að það sitji ekki á þm. Barð. að kasta steinum að einum flokki frekar en öðrum í þessu efni, og ég hygg, að hv. þm. Vestm. hafi ekki haft neina löngun til þess að segja fleiri ásökunarorð í garð Sjálfstfl. en ástæða er til.

Fyrst hv. þm. Barð. óskar eftir umr. um þetta mál á þessum grundvelli, þá skal ég fara nánar inn á þetta. Hv. þm. sagði, að óábyrg afgreiðsla fjárl. stafaði af heimtufrekju Framsfl. og ráðherra hans. Það eru staðlausir stafir, að ráðh. Framsfl. eigi þessa ásökun skilið, enda hefur hv. þm. ekki komið með nein frambærileg rök fyrir þessum málflutningi sínum. Hið sanna er, að þeir hafa fylgt því eftir með festu, að áætlað væri til málanna það, sem þeir gerðu ráð fyrir, að nauðsynlegt væri. Ég tel, að slíkt sýni fyllstu ábyrgðartilfinningu, en ekki ábyrgðarleysi. Eða telur þm. það meiri ábyrgðartilfinningu að koma aftan að fjmrh. eftir að fjárlög hafa verið afgr. og heimta fé, hvað sem fjárv. liður. Ég minnist m. a. tveggja atvika, þar sem ráðh. Framsfl. fylgdu því fast fram að hækka kostnaðarlið á fjárl., og var annað það, að fyrrv. landbrh. vildi fá kostnaðinn í sambandi við mæðiveikivarnirnar hæfilega hátt áætlaðan. Ég tel, að þetta hafi byggzt á ábyrgðartilfinningu, en ekki kröfu út í loftið. — Ég man það líka, að hæstv. núv. fjmrh. óskaði eftir því, eftir að hann tók við embætti, að kostnaðaráætlunin við strandgæzlu yrði hækkuð verulega. Um þetta voru nokkuð skiptar skoðanir í fjvn., en ég tel þetta ekki ásökunarefni, heldur raunhæfa kröfu, sem sinna varð. Það hefði ekki verið unnt fyrir minna fé að halda uppi sómasamlegri landhelgisgæzlu með þeim skipum, sem um var að ræða, en líkur til, að áætlun þessa hæstv. fjmrh. mundi standast. Í sambandi við þetta mætti minnast á fleiri atriði, en ég hirði ekki um að nefna fleira.

Í sambandi við það, að Framsfl. hafi verið óábyrgur í afgreiðslu fjárlaga, verður að ætla, að hv. þm. Barð. miði það við reynslu sína af samstarfsmönnum sínum úr Framsfl. í fjvn., og mig furðar á því, að hann skuli sjá ástæðu til þess að bera þeim slíkt á brýn. Ég veit það, að sitthvað hefur borið á milli hans og framsóknarmanna í fjvn. En er það ábyrgðarleysi, að þeir hafa alltaf skipað sér í þann flokk í fjvn., sem vill áætla tekjur það varlega, að þær geti staðizt og líkur væru fyrir, að þar væri borð fyrir báru? Ég skal játa, að við framsóknarmenn höfum ekki alltaf verið að skapi hv. þm. Barð., og það er kannske mannlegt, að þetta brjótist út hér á Alþingi í ofboðslegri gremju hans. Ég skal játa, að við framsóknarmenn í fjvn. höfum leitazt við eftir megni að skipta fé milli kjördæmanna eins réttlátlega og unnt hefur verið. Ég skal játa, að kastazt hefur í kekki milli hv. þm. og okkar framsóknarmanna í fjvn., er við höfum maldað í móinn út af þeim kröfum, sem þessi hv. þm. hefur borið fram vegna síns kjördæmis, og getur verið, að hv. þm. Barð. kalli það ábyrgðarleysi. Einnig skal ég játa, að framsóknarmenn hafa lýst óánægju sinni við þennan hv. þm., þegar hann hefur sýnt löngun til þess að mynda meiri hluta með stjórnarandstöðunni innan fjvn. Slíkir árekstrar hafa að vísu ekki orðið til vandræða, en vel má vera, að við höfum farið í skapið á honum í slíkum tilfellum.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. En ég vil taka það skýrt fram, að það var ekki ég, sem beindi þessu máli í þann farveg, sem það nú er í. (Forseti: Hv. þm. hefur farið langt fram yfir þann tíma, sem leyfður var.) Ég játa vitanlega, að framsóknarmenn í fjvn. eru ekki óskeikulir, en ég mótmæli því eindregið, að starf þeirra hafi mótazt af hlutdrægni. Þeim getur auðvitað yfirsézt, eins og öllum öðrum, og e.t.v. er ein af mestu yfirsjónum þeirra sú, að þeir hafa stuðlað að því, að hv. þm. Barð. hefur verið kosinn form. fjvn.