02.03.1951
Neðri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

194. mál, togarakaup ríkisins

Pétur Ottesen:

Hæstv. forsætisrh. staðfesti í ræðu sinni það, sem ég sagði, að allmikill dráttur hefði orðið á því að fá einstaklinga eða félög til að semja um kaup á hinum nýju togurum, og það var víst ekki fyrr en undir áramótin, að skriður komst á það. Málin stóðu þannig, er atkv. voru greidd hér á Alþ. um umrædda till., að engan veginn varð séð, hvort takast mundi .að selja skipin með þeim skilyrðum, sem ráð var fyrir gert. Og styður það fullkomlega það, sem ég sagði um þann skilning, er legið hefði á bak við samþykkt þessarar heimildar. — Hæstv. forsrh. sagði, að daufur hefði verið áhuginn fyrir kaupum þessum á Akranesi framan af. Hann mun þó sízt hafa verið daufari en annars staðar; menn dokuðu yfirleitt við og vildu sjá, hvað ofan á yrði. Allir fundu til vanmáttar síns að greiða svo mikið fé út í hönd, og mun hik manna hafa stafað af því, að menn hafi beðið eftir, hvort ekki fengjust aðgengilegri skilmálar. Er ekki hægt að færa Akurnesingum það til áfellis fremur en öðrum. Og ég held ég hafi verið að lesa það í dagblöðunum, að það væri t.d. nú fyrst, sem Reykjavíkurbær væri að ganga frá samningum um þessi kaup — þ.e.a.s. í febrúarlok, — og það er þannig lítil ástæða fyrir ríkisstj. að skáka Akranesi út, að þar hafi þessu máli verið sýnd meiri deyfð eða tómlæti en annars staðar. — Hæstv. ráðh. hefur upplýst, að samið hafi verið við Rvík um 4 af þessum skipum. Og ef litið er til þess, hve margt fólk er í Reykjavík miðað við aðra staði, sem æskja þess að fá togara keypta, þá má segja, að þetta geti ekki talizt óeðlileg ráðstöfun. Hins vegar verður að hafa fulla gát á því, að höfðatalan skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi, og forðast ber að hlaða allt of mikið undir það, að svo sé háttað málum, að atvinnuskilyrða sé hvergi að leita annars staðar á landinu en hér í Rvík. Það er engan veginn heppilegt þjóðfélaginu, að fólkið sé þannig dregið hér saman í hnapp á kostnað hinna dreifðu byggða úti um landið, heldur verður að skapa því lífvænleg skilyrði sem víðast. Þetta sjónarmið er fullkomlega athugavert í sambandi við þá úthlutun, sem hér ræðir um. Þannig hefði undir öllum kringumstæðum verið hyggilegra, að Rvík hefði ekki fengið nema 3 af þessum togurum, en Akranes þá 1 togara. Þar hafa verið sköpuð skilyrði til framleiðslu, sem hafa kostað stórfé, en eru ekki notuð nema að litlu leyti, svo sem t.d. 3 hraðfrystihús, fiski- og síldarverksmiðja og lýsisbræðsla, sem á einum sólarhring getur unnið hráefni fullhlaðins togara. En þessi skilyrði, sem fólkið hefur þarna skapað, eru engan veginn fullnýtt. Þessu finnst mér að hæstv. ríkisstj. hefði átt að gefa gaum, og ég skýt því hér inn í, af því mér finnst fullkomlega athyglisvert að taka það með í reikninginn, hvernig ástatt er á hinum ýmsu stöðum hvað þetta snertir, a.m.k. í sambandi við aðgerðir Alþ. síðar meir í atvinnumálum landsmanna.

Viðvíkjandi þeim deilum, sem hér hafa nú risið upp og þar sem hæstv. ríkisstj. hefur leitt hv. þm. N-Ísf. sem vitni, þá vil ég benda á, að ég hef kynnt mér í handriti ræðu þá, er hann flutti á sínum tíma um þetta mál, og að svo miklu leyti sem líta má á hana sem gagn í málinu — því þótt hv. þm. sé maður vel metinn, ber auðvitað ekki að lita á vilja hans sem vilja Alþ. —, þá er hún ekki mikilsvert gagn fyrir málstað hans nú, því ekkert er í henni að finna, sem kemur í bága við þá skoðun, að þar sem heimild Alþ. er til komin á þeim tíma, þegar ekki var útséð um, að ríkisstj. gæti selt nýju togarana, þá var það fyrst og fremst gert af þeim sökum, að nauðsyn virtist þá, að grípa þyrfti til ráðstafana, sem ella hefðu ekki komið til greina; og sú nauðsyn er nú ekki lengur fyrir hendi, eins og þá var útlit fyrir. Staðhæfing mín um þetta mál stendur því óhögguð; ég hef aðeins sagt, að heimildarákvæðið sé í gildi með þeim skilningi, sem ég hef í það lagt; og frvgr. gæti ég greitt atkv., án þess það raskaði staðhæfingu minni.

Hv. þm. N-Ísf. sagði, að það væri ekki ástæða til að fara að metast hér um það, hvaða atvinnuástand væri fyrir hendi á hinum ýmsu stöðum, sem vonir setja til þessara skipa. Ég átti ekki frumkvæði að slíkum umr., heldur vék ég að því að gefnu tilefni frá hæstv. forsrh., hvernig ástatt væri í þeim efnum í mínu byggðarlagi, og þótti mér eftir ástæðum rétt, að það kæmi hér fram. Ég mun hins vegar ekki lengja þessar umr. frekar. Ég mun að sjálfsögðu ræða við hæstv. ríkisstj. um þetta mál á öðrum vettvangi fyrir hönd umbjóðenda minna. Sem stuðningsmanni hennar er mér annt um það, að hún standi við sínar auglýsingar og þau skilyrði, sem hún setti þar fyrir sölu togaranna. Og ég lít þannig á þá heimild, sem henni var gefin, að það sé rangt af henni að synja Akurnesingum um kaup á einum togara, eins og til er stofnað þessa máls, og um það atriði hlýt ég að ræða við hæstv. ríkisstj. við annað tækifæri.