02.03.1951
Neðri deild: 77. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (1908)

194. mál, togarakaup ríkisins

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Mér er ávallt mjög ljúft að eiga orðastað við hv. þm. Borgf., og er hann velkominn hvenær sem er á fund ríkisstj. að ræða það, er hann lystir. En einu vildi ég mótmæla, sem fram kom í ræðu hans, — því, að mér fannst hann gefa í skyn, að ef ríkisstj. yrði ekki unnt að láta Akurnesinga hafa einn togaranna, þá væri hún að svíkja gefin loforð, er hún hefði almennt auglýst eftir kaupunum. En í auglýsingu hennar var vitaskuld alls ekki fólgin nein skuldbinding um það, að allir, sem sæktu um togarana, skyldu fá þá, heldur var með auglýsingu hennar tryggt, að allir stæðu jafnt að vígi um að sækja um skipin.

Að öðru leyti sé ég svo ekki ástæðu til að ræða frekar þetta mál. Það fer sjálfsagt í n., og vona ég, að hún hraði störfum sem mest, og verði þá unnt að taka það til 2. umr. hér í d. á morgun, því að ætlunin er, að störfum Alþ. ljúki innan fárra daga.