03.03.1951
Neðri deild: 80. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

194. mál, togarakaup ríkisins

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég get í sjálfu sér lýst ánægju minni með brtt. hv. fjhn., sem borin er fram í samráði við ríkisstj.; ég sé þó ekki, að þar muni vera rúm fyrir fleiri en í hæsta lagi 3 togara til að breyta kyndingu þeirra í olíukyndingu. Ég skil till. svo, enda kom það fram í fjhn. og hjá ríkisstj. varðandi þessa 3 togara, sem þarna mundi verða um að ræða, að sú ábyrgð mundi verða veitt til þeirra kaupstaða og kauptúna, sem orðið hafa útundan í úthlutun þeirra skipakaupa, sem eftir eru. Það er á þessu stigi erfitt að áætla, hvað það mundi kosta að gera þessar breyt. á togurunum og koma þeim á veiðar, og það er ekki séð um þessa staði, sem úthlutað verður þessum skipum, hvað mikið framlag þeir kynnu að hafa sjálfir. En ég vænti þess, að ríkisstj. muni í framkvæmdinni sýna góðan vilja og sníða af agnúana, sem annars mundu verða á því að koma þessu máli af stað. Ég er sannfærður um, að það á að gera þessa til raun með gömlu togarana; það eru á ýmsan hátt breyttir útgerðarhættir nú, bæði geta togararnir farið á karfaveiðar með betri árangri en áður og á ufsaveiðar og eins geta þeir stundað veiðar fyrir frystihúsin, og ef þeir gera það, með ekki allt of löngum útivistum, þá má fullyrða, að sá fiskur er eins góður og bátafiskurinn. Þess vegna er skylt að gera þessa tilraun, því að það gæti orðið mjög gróðavænlegt fyrir þjóðarheildina og miklar gjaldeyristekjur, ef sú tilraun heppnaðist.

Ég er einnig meðflm. með hv. þm. Hafnf. að viðbótartill. Það er ekki um svo mikla viðbót að ræða, þó það séu 2 milljónir, eða sem svarar 1/4 af ábyrgðinni, sem tekin verður fyrir einn nýsköpunartogara, en sú upphæð gæti þó komið 4–5 togurum á veiðar. Mér er kunnugt um sæmilega stæða menn, sem hafa ráð á slíkum togurum og hafa hug á að breyta kolakyndingu í olíukyndingu, en ráða þó ekki við það án aðstoðar ríkisvaldsins. Tel ég mjög heppilegt að liðsinna þeim mönnum, einkum ef þeir hafa tryggingu fram að leggja. Þess vegna er það sem ég er einnig á þessari brtt. Með báðum till. mundi vera hægt að breyta 7 togurum, sem um er að ræða, — má vera, að það kæmi ekki til mála að breyta fleirum, en það er áreiðanlegt, að það er allt of kostnaðarsamt að gera það við alla gömlu togarana.