05.03.1951
Efri deild: 84. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

194. mál, togarakaup ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gerði að vísu grein fyrir brtt. minni við fyrstu umr. og get látið fá orð nægja nú. — Mér þykir rétt að láta það koma fram, að mér þykir miður, að hv. fjhn. hefur ekki getað fallizt á að mæla með brtt. Ég þori ekkert að fullyrða um það, hversu mikill kostnaður er því samfara að gera þá breyt. á gömlu togurunum að setja í þá olíukyndingu. Hitt virðist mér allir sammála um, að ef það væri gert, þá séu mjög miklar líkur til þess, að togararnir gömlu geti orðið sæmilega rekstrarhæfir og jafnvel sambærilegir við hin nýju skip, þegar tillit er tekið til þess mikla verðmunar, sem á skipunum yrði.

Hv. frsm. fjhn. lét þess getið í sinni ræðu, að afstaða hans — og mér skildist nefndarinnar — til 2. gr. frv. væri sú að mæla með því, að samþykkt væri á því byggð, að sú ríkisstj., sem nú er, mundi athuga vandlega alla málavexti áður en hún réðist í að ábyrgjast þau lán, sem ætlazt væri til með heimildinni. Þess vegna væri þrátt fyrir þau vandkvæði, sem hv. frsm. taldi á því að framkvæma þessa grein — þess vegna væri óhætt að afgreiða frv., því að ríkisstj. mundi ekki ganga lengra í þessu efni en unnt væri. Ég hygg, að með sama rökstuðningi megi mæla með því, að hæstv. ríkisstj. samþ. brtt. okkar 6. landsk. þm. Sjálfsagt notar hæstv. ríkisstj. ekki heimildina nema hún telji, að það sé ráðlegt og skynsamlegt. Ég hygg, að það sé nokkurn veginn séð nú þegar með þeim nýju togurum, sem eru að koma og koma á næstunni, að ekki er fullnægt nema að nokkru leyti óskum hinna ýmsu byggðarlaga og einstaklinga um að fá botnvörpuskip til rekstrar. Og mér er sagt, að ýmsir þeir staðir og félög, sem ekki hafa hlotið hina nýju togara og verið útundan við úthlutunina, teldu hag sínum stórum betur komið, ef þeim gæti tekizt að fá olíukynta togara, þó gömul skip væru, úr því hin nýju hafa ekki fengizt.

Það tekur að sjálfsögðu ekki lítinn tíma að gera þessa breyt. á skipunum, og því hygg ég, að allt mæli með því, að þessi heimild, sem um ræðir í brtt. minni, verði veitt nú í sambandi við afgreiðslu þessa frv., þannig að ef ráðlegt sýnist að ráðast í þessa breyt. með togarana, þá sé hægt að snúa sér að því sem fyrst, því hver tími, sem liður án þess að togararnir séu hreyfðir og án þess að þeir fari til veiða, er eyddur frá dýrmætum framleiðslustörfum og skapar ekki vinnu fyrir það fólk, sem vantar vinnu, og ekki heldur verðmæti, sem flutt eru út úr landinu og veita erlendan gjaldeyri til ýmiss konar nauðsynja. Ég vil því vænta þess, þrátt fyrir daufar undirtektir hv. fjhn., að deildin geti fallizt á þessa brtt., sem hér um ræðir.