02.11.1950
Neðri deild: 14. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (1949)

59. mál, vinnumiðlun

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Tilhögun vinnumiðlunar í Reykjavík hefur borið á góma í þessum umr., og vil ég með fáeinum orðum skýra afstöðu mína til þessa frv.

Ég vil geta þess fyrst, að vinnumiðlun hafi verið upp tekin af Reykjavíkurbæ áður en núgildandi lög um vinnumiðlun voru sett í ársbyrjun 1935. Bæjarstjórn Reykjavíkur var áður ljóst, að gagnlegt væri og nauðsynlegt að koma slíkri stofnun á fót. Þess vegna var það árið 1933, að bæjarstjórn Reykjavíkur stofnaði vinnumiðlunarskrifstofu, sem bar og ber heitið Ráðningarskrifstofa Reykjavíkurbæjar. Þessari skrifstofu var ætlað svipað hlutverk eins og síðar var ákveðið í vinnumiðlunarlöggjöfinni og eins og gert er ráð fyrir í meginatriðum í 4. gr. þessa frv.

Nokkru eftir að þessi ráðningarskrifstofa hafði verið stofnuð og var tekin til starfa, var flutt hér á Alþ., að ég ætla síðari hluta árs 1934, frv. um vinnumiðlun. Og þar var svo gert ráð fyrir, að skylt væri, ef atvmrh. mælti svo fyrir, að setja skyldi á stofn vinnumiðlunarskrifstofur í öllum kaupstöðum landsins. Bæjarstjórn Reykjavíkur taldi þá með öllu óþarft, að löggjafarvaldið fyrirskipaði stofnun nýrrar vinnumiðlunarskrifstofu í Reykjavík, þar sem önnur vinnumiðlunarskrifstofa var nýlega komin á laggirnar þar. En þrátt fyrir mótmæli bæjarstj. Reykjavíkur gegn þessum óþarfa og óþarfa eyðslu ákvað þáverandi þingmeirihluti á Alþ. samþ. lögin eins og frv. um þau lá fyrir og þar með að þvinga annarri vinnumiðlunarskrifstofu til viðbótar upp á Reykjavíkurbæ. — Ég ætla, að árangurinn af stefnu þessarar löggjafar hafi orðið harla lítill. Eftir þeim fregnum utan af landi, frá kaupstöðum, þar sem vinnumiðlunarskrifstofur hafa verið starfandi eftir þessum l., hefur ekki verið ýkja mikið gagn af þeim. Aðalárangur þessara laga virðist því hafa verið sá, að Reykjavíkurbær hefur nú í 15 ár haft tvær vinnumiðlunarskrifstofur, þar sem alveg óþarft var að hafa nema eina. Stjórn þessarar vinnumiðlunarskrifstofu, sem þröngvað var upp á bæinn, var þannig skipuð, að fulltrúar frá bæjarstj. voru í minni hluta. Og þó að bæjarsjóður hafi greitt tvo þriðju af rekstrarkostnaði þessarar skrifstofu, hefur bæjarstj. ekki getað ráðið neinu um það, hver sá kostnaður yrði né tölu starfsmanna, af því að fulltrúar frá bæjarstjórninni hafa verið í minni hluta í stjórn vinnumiðlunarskrifstofunnar. Eftir l. er ráðin sérstök stjórn þessarar vinnumiðlunarskrifstofu, og hún ræður forstöðumann og starfsmenn skrifstofunnar. Árangurinn af þessu er svo á, að kostnaðurinn við þessa skrifstofu hefur orðið óheyrilega mikill. Ráðningarskrifstofa Reykjavíkurbæjar, sem heyrir undir bæjarráð, hefur kostað í rekstri nokkuð innan við 100 þús. kr. síðasta ár, en rekstur vinnumiðlunarskrifstofunnar, sem þröngvað var upp á bæinn, hefur kostað yfir 200 þús. kr. á sama tíma, sem er af því, að í þessari stofnun er fleira starfsfólk en þörf er á, án þess að bæjarstj. Reykjavíkur, þess aðila, sem ber tvo þriðju rekstrarkostnaðarins, ráði þar nokkru um. Hvað eftir annað hafa verið gerðar tilraunir til að draga úr þessum kostnaði með því að sameina skrifstofurnar. En því miður, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir ár eftir ár, hefur ekki tekizt að ná samkomulagi um það. Ef þetta frv., sem hér liggur fyrir, verður samþ., hefur það varðandi Reykjavík þá miklu umbót og sparnað í för með sér, að hér væri aðeins starfandi ein vinnumiðlunarskrifstofa eða ráðningarskrifstofa. Ég tel það breyt. til bóta, ekki aðeins frá fjárhagssjónarmiði, heldur mundi tilgangi skrifstofunnar miklu betur náð, þegar einn ábyrgur aðili hefði þessi störf með höndum, heldur en þegar tvær skrifstofur starfa að alveg sama verkefni.

Eins og kemur fram í grg. þessa frv., samþ. bæjarstj. Reykjavíkur þann 16. marz s.l. að skora á ríkisstj. að leggja niður Vinnumiðlunarskrifstofuna í Reykjavík, þar sem víðurkennt væri, að með öllu væri óþarft að reka tvær vinnumiðlunarskrifstofur í bænum. Fyrir bæjarsjóð Reykjavíkur yrði samþykkt þessa frv. til verulegs sparnaðar og fyrir ríkissjóð einnig. Ég skil ekki vel, hvernig þeir tveir hv. þm., sem andmæla þessu frv., komast að þeirri niðurstöðu, að samþykkt þess og þar með sameining þessara vinnumiðlunarskrifstofa í Reykjavík í eina skrifstofu eigi að verða til þess að draga úr framkvæmd nauðsynlegrar vinnumiðlunar í Reykjavík eða höggva eitthvert skarð í þennan þátt félagsmálastarfseminnar, eins og hv. 8. landsk. þm. vildi vera láta. Hann talaði um, að það þyrfti að bæta skipulag vinnumiðlunarinnar, í stað þess sem þetta frv. gerði ráð fyrir. Ég held, að samþykkt þessa frv. mundi, að því er Reykjavík við kemur, verða til sparnaðar bæði fyrir ríkissjóð og bæjarsjóð, en um leið bæta þessa starfsemi í Reykjavík — gagnstætt því, að samþykkt l. frá 1935 um vinnumiðlun varð til þess að trufla vinnumiðlunarstarfsemina í Reykjavík og baka henni margvíslegt tjón.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins ræða um viðhorfið í þessum efnum utan Reykjavíkur, en aðeins taka fram að ég tel að því er Reykjavík varðar, að þetta frv. muni horfa til bóta. — Ég vil líka taka fram, í tilefni af ummælum, sem hér hafa fallið, að ég tel frv. einnig stefna í rétta átt að því leyti, að bæjar- og sveitarstjórnum er eftir ákvæðum þess í sjálfsvald sett, hvort þær reka slíkar vinnumiðlunarskrifstofur. Ég tel, að of langt hafi oft verið gengið í löggjöf í því að taka fram fyrir hendur sveitarstjórnanna og fyrirskipa þeim eitt og annað eða áskilja samþykki Alþ. til ýmissa hluta, sem þær gerðu. Ég tel það stefnu í rétta átt að láta sveitarstjórnir hafa meira sjálfræði heldur en verið hefur í ýmsum efnum á undanförnum árum. Og ég tek undir það með hæstv. forsrh., að ég tel, að sveitar- og bæjarstjórnir eigi að hafa það vakandi auga á atvinnuástandinu í sínu umdæmi, að ef nauðsyn er til stofnunar vinnumiðlunarskrifstofu þar, þá muni fulltrúar þeirra staða í bæjareða sveitarstjórn stofna slíkar skrifstofur. Og ég tel, sem sagt, ekki ástæðu til að rígbinda þessa skyldu í lögum, eins og gert hefur verið til þessa. Reynslan er líka sú, að l. frá 1935 um vinnumiðlun hefur alls ekki verið framfylgt, því að í stað þess, að gert er ráð fyrir því í þeim l., að vinnumiðlunarskrifstofur séu í öllum kaupstöðum landsins, þá eru aðeins í fimm af þrettán kaupstöðum landsins nú vinnumiðlunarskrifstofur starfandi.

Ég vil vekja athygli á einu atriði, sem ég tel, að betur mætti fara í þessu frv. Í 6. gr. frv. er svo fyrir mælt, að stjórn vinnumiðlunarskrifstofu hverrar skuli vera skipuð fimm mönnum. Að mínu áliti er þessi nefnd eða stjórn algerlega óþörf. Ég lít svo á, að vinnumiðlunar- og ráðningarskrifstofur eigi, eins og önnur fyrirtæki vegna sveitarstjórnarmála, að heyra undir bæjarstjórn eða bæjarráð. Og mér finnst, þar sem ein meginrök fyrir þessu frv. hjá hæstv. ríkisstj. eru sparnaður, þá hefði hún átt að stíga sporið út til fulls og setja ekki á laggirnar óþarfa stjórn og skrifstofur. Því að einhver kostnaður hlýtur að verða af því.

Ég ætla, að ekki sé ástæða til að ræða ýtarlegar um þetta frv. að sinni. En að sjálfsögðu styð ég þá till. hæstv. forsrh., að málið fari til 2. umr. og heilbr.- og félmn., og vil að sjálfsögðu áskilja mér rétt til þess að bera fram eða fylgja brtt. við einstök atriði frv.