02.11.1950
Neðri deild: 14. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

59. mál, vinnumiðlun

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur atriði úr ræðu hv. 7. þm. Reykv. og hæstv. fors- og félmrh., sem ég ætla að drepa á. Fyrst vil ég víkja að ræðu hv. 7. þm. Reykv., sem ræddi nokkuð um starfsemi Ráðningarskrifstofu Reykjavíkurbæjar og forna sögu starfsemi vinnumiðlunarskrifstofunnar hér í bænum á vegum ríkisins og þann ágreining, sem risið hefur fyrr og síðar út af starfsemi þessara stofnana.

Ég dreg ekki í efa, að einhver vísir að ráðningarskrifstofu hafi verið stofnaður í Reykjavík áður en l. voru sett á Alþ. árið 1935 um vinnumiðlun. Hitt er jafnvíst, að mér fannst stjórn Reykjavíkurbæjar alltaf sýna, og sérstaklega í upphafi, nokkra stirðni út af vinnumiðluninni hér í Reykjavík, og hefði kosið, að það hefði verið á annan veg strax í upphafi og nánara samstarf hefði orðið milli ríkisins og stjórnar Reykjavíkurbæjar um þessi mál. En það tókst ekki. Og síðan hafa vinnumiðlunarskrifstofurnar verið tvær í Reykjavík. En þó einstakir kaupstaðir vilji heldur reka sínar eigin vinnumiðlunarskrifstofur en að hafa það starf í skjóli ákveðinnar löggjafar um reksturinn, þá tel ég það ekki til sérstakrar fyrirmyndar. Að öðru leyti mun ég ekki fara langt út í þann samanburð, sem hv. 7. þm. Reykv. gerði á starfsemi þessara tveggja vinnumiðlunarskrifstofa. En ég get sagt það, að vinnumiðlunarskrifstofan í Reykjavík, sem rekin er eftir l. frá 1935, hefur áreiðanlega haft með höndum langtum meiri og umfangsmeiri vinnumiðlun heldur en Ráðningarskrifstofa Reykjavíkurbæjar, því að til þeirrar fyrr nefndu skrifstofu hefur ekki aðeins verið leitað varðandi þá opinberu vinnu, sem ríkisvaldið hefur haft með höndum, heldur hafa atvinnurekendur og einstaklingar í atvinnuleit meira til hennar leitað en til Ráðningarskrifstofu Reykjavíkurbæjar. Þess vegna er ekki óeðlilegt, að kostnaður við. Vinnumiðlunarskrifstofuna í Reykjavík verði meiri en við Ráðningarskrifstofu Reykjavíkurbæjar. Háttv. 7. þm. Reykv. sagði, að ef frv. yrði samþ., yrði það til þess að bæta vinnumiðlunina í Rvík. Ég skal nú ekkert um það fullyrða, ég vildi vona, að svo yrði, en ég held þó, að það sé ekki nema eðlilegt, að í höfuðborginni, þar sem er saman kominn fjöldi fólks af öllu landinu, þar sé skrifstofa, sem sé rekin hvort tveggja í senn af ríkinu og Reykjavíkurbæ, kostuð af báðum þessum aðilum og hafi með höndum vinnumiðlun, ekki einungis í bænum sjálfum, heldur einnig fyrir fólk, sem búsett er í bænum og leitar eftir atvinnu annars staðar. Ég hef þess vegna talið, að hlutverk vinnumiðlunarskrifstofunnar sé yfirleitt þannig, að það sé mjög eðlilegt, að náið samstarf sé á milli ríkisheildarinnar og hlutaðeigandi bæjarstjórnar, þar sem vinnumiðlunarskrifstofa er, þannig að það verði sameiginlegt áhugamál viðkomandi bæjarstj. og ríkisvaldsins að reyna að greiða úr fyrir atvinnulausu fólki og miðla vinnu, eftir því sem kostur er á, og því tel ég, að l. um vinnumiðlun hafi gengið í rétta átt, og eftir því, sem ég bezt veit, er með svipuðum hætti löggjöf annarra ríkja, sem hafa sett hjá sér reglur um vinnumiðlun, að vinnumiðlunin er ekki talin óviðkomandi ríkisvaldinu, heldur er það talið mjög eðlilegt, að það sé ríkisvaldið, sem hafi rekstur slíkra vinnumiðlunarskrifstofa með höndum. Ég mundi fyrir mitt leyti telja sízt til bóta, að rekstur vinnumiðlunarskrifstofunnar í Rvík væri eingöngu í höndum Reykjavíkurborgar, en afskipti ríkisvaldsins þar engin, svo að spádómur minn er nokkuð á annan veg en spádómur hv. 7. þm. Reykv. Sá sami hv. þm. talaði um, að það væri yfirleitt til bóta, að bæjarstjórnir hefðu sjálfsvald í slíkum málefnum, en ég held satt að segja, þó að ég vilji ekki draga úr því, að sveitar- og bæjarstjórnum sé veitt talsverð sjálfsstjórn og völd, að þá séu málefnin þannig saman ofin, að þau snerti hvora tveggja í senn, ríkisvaldið annars vegar og bæina hins vegar. Og sízt af öllu mundi ég sem bæjarfulltrúi hafa á móti því, að ríkisvaldið styrkti og styddi vinnumiðlun í Rvík. Ég mundi sem stjórnandi í hvaða bæ sem væri telja, að það væri virðingarvert og þakklætisvert, ef ríkið teldi sig hafa til þess skyldur og ástæður að hafa nokkurt frumkvæði í þessum efnum og vildi veita fé úr ríkissjóði til rekstrar þessa fyrirtækis. Ég hefði því talið, að það væri alls ekki gengið nærri eðlilegu valdi bæjar- og sveitarstjórna, þó að gildandi væri í landinu löggjöf, sem gerði hvort tveggja í senn, að veita ríkisvaldinu frumkvæði að því að stofna til slíkrar skrifstofu og í annan stað, ef þetta frumkvæði væri notað, þá væri ríkið skyldugt til þess að láta nokkurt fé af mörkum til rekstrar starfseminnar. Slíkt samstarf sjálfstæðra aðila til lausnar þýðingarmiklu vandamáli er mjög eðlilegt, og ætti hvorugur aðilinn að afþakka aðstoðina; hvorki bæjar- né sveitarstjórnir ættu að afþakka aðstoð og samvinnu ríkisvaldsins né heldur ríkisvaldið að afþakka og vilja komast hjá að hafa samvinnu við bæjarfélögin um rekstur slíkrar stofnunar. Mér virðist því, að höfuðatriðin í núgildandi löggjöf frá 1935 um vinnumiðlun í landinu séu eins eðlileg og hægt sé að hugsa sér. — Þetta vildi ég segja út af orðum hv. 7. þm. Reykv.

Ég vildi þá aðeins minnast á þau atriði í ræðu hæstv. forsrh., sem mér finnst vera tilefni til að drepa á. Hann gat þess, að l. um vinnumiðlun hefðu verið tiltölulega litið notuð utan Rvíkur. Það má segja, að svo hafi verið síðustu 10 ár, en það stafar að verulegu leyti af því, að frá því að umskipti urðu í atvinnuháttum á Íslandi um 1940 og fram til þessa dags hefur sem betur fer tiltölulega mjög lítið borið á atvinnuleysi, og hefur þetta ástand orðið nokkuð til þess að draga úr áhuga fyrir stofnun og rekstri vinnumiðlunarskrifstofa, þó að ég álíti, að það hafi ekki verið rétt. Þar sem hins vegar er nú byrjaður nýr þáttur í atvinnusögu Íslendinga, þar eð fyrir dyrum er nokkur ótti um atvinnuleysi, eins og á tímabilinu frá 1934– 40, þá finnst mér ríkari ástæða en nokkru sinni fyrr til að haga löggjöfinni á þann hátt, að hún verði að sem mestum og almennustum notum og ríkið veiti aðstoð sína til þess að hrinda þeim málum áleiðis.

Hæstv. ráðh. sagði, að andstaðan gegn frv. af minni hálfu væri vantraust á stjórn kaupstaðanna, en því fer víðs fjarri. Ég hef mjög mismunandi álit á stjórn kaupstaðanna í landinu, en afstaða mín gegn málinu byggist að engu leyti á því, að ég hafi vantraust á stjórn kaupstaðanna. Sumum kaupstöðum finnst mér vera ágætlega stjórnað, öðrum miður vel og sumum jafnvel mjög illa stjórnað, en ég álít, að það sé brýn nauðsyn til þess, eins og ég áður sagði, að ríkisvaldið og bæjaryfirvöldin vinni saman til úrlausnar þessu vandamáli. Það er ekkert vantraust á bæjarstjórnir, þó að ríkisvaldið segði sem svo: Ég vil gjarnan hafa frumkvæðið að einhverju leyti um þessi mál og styrkja þetta fjárhagslega. — Þetta álit ég, að sé mjög eðlileg hugsun. Hér á fyrst og fremst að hafa í huga heill heildarinnar, ekki einstakra héraða og landshluta, heldur heill landsins og allrar þjóðarinnar.

Hæstv. ráðh. fór nokkrum orðum um það, að ég hefði í minni ræðu á óviðeigandi hátt drepið á vinnumiðlun í sambandi við landbúnaðinn, en ég gerði það alls ekki að ástæðulausu, því að í grg. ráðh., sem fylgir frv., segir: „Hér er landbúnaðurinn einkum hafður í huga.“ Svo að það var beinlínis grg., sem leiddi mig inn á það að minna á, að það væru sérstök ákvæði varðandi landbúnaðinn.

Hæstv. ráðh. sagðist mótmæla því, að hér væri um að ræða árás á félagsmálalöggjöf landsins. Þrátt fyrir mótmæli hans get ég ekki fallið frá þessari skoðun minni, að svo sé. Ég tel það vera beinlínis að draga úr þessum þætti félagsmálalöggjafarinnar, þegar á að draga úr valdi ríkisins í sambandi við vinnumiðlun og aðstoð ríkisins til vinnumiðlunar í landinu. Það er verið að draga úr vinnumiðlun með þessum hætti, og það er gert á þeim tíma, þegar veður öll eru válynd og búast má við því, að þröngt verði fyrir dyrum vegna þess, að þörf verði á aukinni atvinnu og á því að miðla henni á sem réttlátastan hátt.

Þetta voru þau atriði úr ræðu hæstv. ráðh., sem ég sé ástæðu til að minnast á, en að sjálfsögðu fer þetta frv. til nefndar, og fæ ég þá tækifæri til þess að bera fram nýjar till. varðandi þetta mál og þá að gera nánar grein fyrir þeim við 2. og 3. umr.