14.12.1950
Neðri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

59. mál, vinnumiðlun

Frsm. 1. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er meginefni þessa frv., að fellt verði niður framlag ríkisins til vinnumiðlunar í kaupstöðum og að ríkið láti þar með af afskiptum af skipun þeirra mála. Samkv. gildandi l. frá 1935 starfa nú vinnumiðlunarskrifstofur í fimm kaupstöðum, og hljóta ákveðið framlag úr ríkissjóði. Það framlag á að falla niður samkv. þessu frv., ef samþ. verður. Má því gera ráð fyrir, að ýmsar af þeim vinnumiðlunarskrifstofum, sem nú starfa, yrðu lagðar niður, ef mál þetta nær fram að ganga.

Það er látið í veðri vaka af hæstv. ríkisstj., sem flytur þetta frv., að með því sé tilætlunin að spara ríkissjóði fé. Sá sparnaður mundi nema 105 þús. kr. Alþ. fjallar nú einmitt þessa dagana um frv. til fjárlaga fyrir næsta ár. Á því fjárlagafrv. er enginn sérstakur sparnaðarblær, — því fer víðs fjarri. Það er því í raun og veru hlægilegt að bera á borð fyrir hv. þd., að það sé sparnaðarvilji, sem liggi til grundvallar flutningi þessa frv. Hv. stjórnarflokkar hafa ekki sýnt sérstakan sparnaðaráhuga á ýmsum öðrum sviðum, þar sem þó hefur gefizt tilefni til að sýna hann. Í gær var hér til atkv. till. í Sþ. varðandi ríkisútvarpið. Miðaði hún að því, að gerð væri athugun á rekstrarkostnaði ríkisútvarpsins í því skyni að auka hlutdeild dagskrárinnar í tekjum þessarar menningarstofnunár. Reyndist ekki þingmeirihluti fyrir þeim sparnaði, sem þar var lagt til, að reynt yrði að koma í framkvæmd. Það var meiri hl. hv. stuðningsfl. ríkisstj., sem hafði ekki áhuga á þeim sparnaði, sem ég álít, að hefði getað numið talsvert meiru en þeim 105 þús. kr., sem hér á að spara. Það er m.ö.o. ekki sama, til hvers fénu er varið.

Ég sagði áðan, að það hlyti að vera eitthvað annað en sparnaðaráhugi, sem lægi til grundvallar flutningi þessa frv. Það er kunnugt, og hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. nefndi það í sinni framsöguræðu, að tilmæli hafa komið um það frá einum kaupstað, þ.e. Ísafirði, að breyta gildandi l. um vinnumiðlun í þá átt, að bæjarstjórnir skipi meiri hl. í stjórn þessara stofnana. Og meiri hluti bæjarstj. á þessum stað mun hafa boðizt til þess að greiða allan kostnað við stofnunina, ef slík breyt. næði fram að ganga. Á Ísafirði munu hafa átt sér stað nokkur pólitísk átök um stjórn vinnumiðlunarinnar. Núv. bæjarstjórnarmeirihl. á Ísafirði, sem skipaður er sjálfstæðismönnum og sósíalistum, mun hafa óskað eftir breyt. á skipun þessara mála, einungis út frá pólitískum sjónarmiðum. Hér í Reykjavík mun og hafa verið nokkur andúð ríkjandi í garð gildandi vinnulöggjafar af hálfu núverandi bæjarstjórnarmeirihluta. En bæjarstj. hefur starfrækt sérstaka vinnumiðlunarskrifstofu við hlið þeirrar, sem starfrækt er samkv. gildandi l. um vinnumiðlun. Ástæður þess, að bæjarstj. í Reykjavík hefur starfrækt slíka vinnumiðlunarskrifstofu, eru e.t.v. ekki einungis áhugi fyrir því, að vinnumiðlun í Reykjavíkurbæ sé sem greiðust, heldur e.t.v. og að öllum líkindum annars eðlis. Fyrir milligöngu vinnumiðlunarskrifstofu eru vitanlega ýmis skilyrði til þess að hafa áhrif á vinnumarkaðinn. Og það leikur sá grunur á, að ástæðan til þess, að Reykjavíkurbær hefur starfrækt sína vinnumiðlunarskrifstofu, sé sú, að hann óski að hafa skilyrði til slíkra áhrifa á vinnumarkaðinn hér í Rvík. Ég hygg, að í þessari deilu sem er um skipun vinnumiðlunar á Ísafirði og Reykjavík, sé að finna ástæðu þess að þetta frv. er fram borið. Meiri hl. bæjarstjórnanna á þessum stöðum óskar eftir auknum áhrífum í þessum efnum, og hæstv. ríkisstj. hefur látið hafa sig til að hlaupa eftir þessari ósk frá tveim bæjarstjórnarmeirihlutum, þótt hún sé ekki af góðum toga spunnin. En það undarlega hefur gerzt, að frá upphafsstað málsins, Ísafirði, hafa nú komið mótmæli gegn frv., það virðist vera heldur á eftir tímanum, því að það eru víst 2 til 3 ár síðan sú samþykkt var gerð, sem frv. er byggt á, en nú hefur bæjarstjórnin á Ísafirði séð að sér og breytt um skoðun. Nú liggur hér fyrir Alþ. bréf frá bæjarstj., þar sem hún andmælir þessu frv., sem hér liggur fyrir, svo að bæjarstj. í Reykjavík virðist nú vera ein eftir um að mæla með þessari breytingu. Að ástæðunni til þess leiddi ég getur áðan. Ekki getur tilætlunin verið sú að spara fé, því að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurbæjar fyrir næsta ár er gert ráð fyrir því að verja meira fé í þessu skyni en gert hefur verið undanfarið. Það verður þess vegna enginn heildarsparnaður af þessu, því að það litla, sem ríkissjóður ætlar að spara, það ætlar bæjarsjóður Reykjavíkur að greiða. En því má treysta, að eitthvað sérstakt sjónarmið býr á bak við, þegar Reykjavíkurbær býðst til að greiða tugi þús. króna, sem ríkissjóður hefur áður greitt. Slíkt er ábyggilega ekki gert af eintómum áhuga á bættri vinnumiðlun.

Gegn þessu frv. hafa borizt ýmiss konar mótmæli. Miðstjórn A.S.Í. hefur lýst sig andvíga því samkv. bréfi frá 26. okt., stjórn fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík einnig, sömuleiðis bæjarstjórn Ísafjarðar í bréfi frá 13. nóv., einnig bæjarráð Hafnarfjarðar og ef til vill fleiri. Ég held, að mótmæli hafi einnig borizt frá Akureyri. Því fer svo fjarri, eins og þessi mótmæli bera með sér, að frv. þetta sé borið fram eftir tilmælum kaupstaðanna. Þvert á móti hafa komið mótmæli frá meiri hl. þeirra kaupstaða, er málið snertir. Það er ekkert undarlegt, að það sæti slíkum mótmælum af hendi verkalýðsfélaganna og kaupstaðanna. Hafi verið ástæða til að tryggja vinnumiðlun í kaupstöðunum, á meðan atvinnuástandið var enn sæmilegt, þá er það ekki síður nú, er atvinnuhorfur hafa versnað, og það gegnir furðu, að hæstv. félmrh. skuli nú telja rétta tímann til að leggja til, að dregið verði úr þessari starfsemi, þegar þörf er að auka hana verulega vegna breytinga á atvinnuhorfum síðustu mánuðina.

Þá vil ég vekja athygli hv. þingdeildar á því, að Alþjóðavinnumálastofnunin, sem Ísland er aðili að, hefur látið sig skipun vinnumiðlunar í aðildarríkjunum allmiklu skipta, og það er skoðun allra þeirra, sem þekkja vel til á vinnumarkaðinum og hafa skilning á gildi þess, að hann sé vel skipulagður, að vinnumiðlun sé mjög gagnleg til að sporna við atvinnuleysi og tryggja fulla hagnýtingu á vinnuaflinu. Það er því ekki að ástæðulausu, að Alþjóðavinnumálastofnunin hefur látið sér mjög annt um fyrirkomulag vinnumiðlunar hjá aðildarríkjunum, og í því skyni hefur stofnunin staðið fyrir alþjóðasamþykkt um vinnumiðlun á þingi, sem haldið var í San Francisco 1948. Var hún samþ. með öllum atkv., en í 1. lið 1. gr. samþykktar nr. 88 um skipulagningu vinnumiðlunar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Hvert það aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem samþykkt þessi tekur til, skal halda uppi eða tryggja það, að haldið sé uppi opinberri ókeypis vinnumiðlun.“ Og í 2. lið sömu gr. segir: „Aðalverkefni vinnumiðlunarinnar skal vera að tryggja sem bezta skipulagningu vinnumarkaðarins, en slík skipulagning er ómissandi þáttur í viðleitni hverrar þjóðar til að koma á og viðhalda vinnu fyrir alla ásamt þróun og hagnýtingu framleiðslumöguleikanna. Hafa skal um þetta samvinnu víð aðrar hlutaðeigandi stofnanir hins opinbera eða einstaklinga, ef nauðsynlegt þykir.“ — Og í 2. gr. segir: „Vinnumiðlunin skal byggð upp af kerfi af vinnumiðlunarskrifstofum, er nái um allt land og sé undir einni miðstjórn fyrir allt ríkið.“ Ég læt nægja að vitna í þessar tvær greinar í alþjóðasamþykktinni, en Ísland er aðili að henni. Íslendingar áttu tvo fulltrúa á þinginu í San Francisco 1948 og greiddu þeir atkv. með samþykktinni, efalaust með samþykki ríkisstj. eða félmrn. Nú mun það vera svo, að alþjóðasamþykkt mun ekki vera talin bindandi fyrir neina þjóð fyrr en búið er að samþ. hana á þjóðþingi, en í því að fulltrúar þjóðarinnar greiða atkv. með samþykktinni, hlýtur að felast skuldbinding um að taka málið fyrir á þjóðþinginu til athugunar, og ræður þingið að sjálfsögðu, hvort samþykktin verður samþ. eða henni hafnað. En það er gagnslaust að vera aðili að slíkum alþjóðasamþykktum, ef ekkert er síðan gert með slíka samþykkt í heimalandinu. Hæstv. ríkisstj. hefur litið svo á varðandi samþykkt um félagafrelsi, því að hún hefur verið staðfest hér. En þessi samþykkt hefur ekki verið lögð fyrir, og hefur því ríkisstj. skotið sér þar undan skyldu við Alþjóðavinnumálastofnunina, sem Ísland er þó aðili að. En þetta er þó ekki verst. Hitt er verra, að hæstv. ríkisstj. skuli leyfa sér að flytja frv., sem fer í þveröfuga átt við samþykkt þings Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, áður en sú samþykkt er lögð fyrir þjóðþingið til athugunar. Slíkt er að gera þátttöku í alþjóðastofnunum að hreinum skrípaleik. Fulltrúar eru sendir á þing með ærnum kostnaði, og síðan er borið fram frv. af ríkisstj., sem gengur í þveröfuga átt við samþykkt, sem fulltrúar hennar hafa greitt atkvæði með. Þetta frv. er tvímælalaust í algeru ósamræmi við ákvæði og anda þeirrar samþykktar, sem ég var að ræða um. Þar er gert ráð fyrir, að ríkið skuli halda uppi opinberri ókeypis vinnumiðlun. En samkv. þessu frv. hefur ríkið enga skyldu til að halda uppi vinnumiðlun, heldur er bæjarstjórnum í sjálfsvald sett, hvort þær geri það eða ekki, svo að verið er að gera beinar ráðstafanir til að draga úr þeirri vinnumiðlun, sem hér hefur verið haldið uppi að undanförnu. Það er því vægast sagt óeðlilegt og ósmekklegt af hæstv. ríkisstj. að bera fram þetta frv. skömmu eftir að við gerumst aðilar að slíkri alþjóðasamþykkt. Auk þess er stefna frv. óeðlileg og alþýðu manna til óþurftar eins og nú horfir. Alþýðuflokkurinn telur, að hér sé verið að stíga skref aftur á bak og er stefnu frv. gersamlega andvígur, svo andvígur, að hann sér ástæðu til að marka stefnu sína í þessum málum og skyldum félagsmálum í sérstöku frv. á þskj. 343 um atvinnustofnun ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir, að vinnumiðlun sé aukin og að atvinnustofnunin hafi hana með höndum ásamt ýmsum skyldum efnum, svo sem leiðbeiningum um stöðuval o.fl. Alþfl. álítur, að þær breytingar hafi orðið á síðasta ári og þó einkum á síðustu mánuðum, að fyllsta ástæða sé til að auka ráðstafanir á þeim sviðum félagsmálanna, sem einkum hafa verið vanrækt, t.d. því, sem lýtur að auknum hreyfanleik vinnuaflsins, og tryggja betur hagnýting þess, ekki sízt hjá öryrkjum, gamalmennum og unglingum, en það er náskylt vinnumiðlun. Alþfl. flytur frv. sitt til að marka stefnu sína í þessum málum, svo gerólík sem hún er stefnu hæstv. ríkisstj. Hún vill leitast við að spara með þessu móti rúmlega 100 þús. kr., en með því móti á hún á hættu, að vinnuafl landsmanna verði verr nýtt en verið hefur og erfiðara að tryggja öllum atvinnu, en það er áreiðanlega meira en 100 þús. kr. virði að vinnuaflið sé skynsamlega hagnýtt og komið í veg fyrir atvinnuleysi. Af þeim ástæðum, sem ég nú hef greint, legg ég til, að frv. verði fellt.