14.12.1950
Neðri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

59. mál, vinnumiðlun

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. hefði ekki þurft að eyða löngum tíma í að lýsa stefnu Alþfl. Hv. þm. vita, að þessi flokkur er með nefið niðri í öllu í stöðugri opinberri grautargerð, því að eftir því sem opinber afskipti af ýmsum hlutum eru meiri, því fleiri embætti og forstjórastöður fyrir þennan litla flokk. Það væri farsælla, að hinir gáfuðu forustuzmenn flokksins vildu sýna af sér framtak fyrir þjóð sína, og þegar það hefur verið gert, þá er ég sannfærður um, að ekki verður lengur talað um pínulitla flokkinn og kjósendur munu sjá margt gott í fari hans, en nú hverfur allt í gufunni af hinum opinbera grautarkatli, sem þeir eru alltaf að sveima í kringum. En ég kvaddi mér hljóðs til að leiðrétta og mótmæla hinum órökstuddu dylgjum, sem hv. 3. landsk. var hér með áðan. Hann var að dylgja með, að það væri annað en að greiða fyrir vinnumiðlun, sem lægi á bak við það, að bæjarstjórn Reykjavíkur legði til, að þessi breyting væri gerð á fyrirkomulagi vinnumiðlunar, sem sé að sjálfstæðismennirnir í meiri hluta bæjarstjórnar Reykjavíkur vildu nota vinnumiðlunarskrifstofuna í pólitísku skyni, en hér kastar sá grjóti, sem í glerhúsi býr, því að Ráðningarstofa Reykjavíkurbæjar var til áður en lög voru sett um slíkar stofnanir og áður en hin ráðningarstofan var sett á stofn. Og engar rökstuddar ásakanir liggja fyrir um, að Ráðningarstofan hafi verið misnotuð í þessu skyni, en þegar flokksbræður hv. 3. landsk. fundu ástæðu til að flytja inn í Alþ. frv. um vinnumiðlunarskrifstofu, sem setja átti við hliðina á stofu þeirri, sem fyrir var, var það gert í pólitískum tilgangi þessara manna. Þegar menn koma svo hér fram eftir 15–16 ár og halda því fram, að pólitískur tilgangur hafi legið á bak við stofnun Ráðningarstofu Reykjavíkur, og það fulltrúar flokks með slíka forsögu, þá þykir mér skörin vera farin að færast upp í bekkinn. Hins vegar hefur oft borið á góma í bæjarstjórn Reykjavíkur að sameina þessar stofnanir, og meiri hlutinn hefur sýnt, að ekki stendur á honum í því efni, en slíkar tilraunir hafa engan árangur borið, þó að þær væru margítrekaðar. — Þá sagði hv. þm., að aukin framlög væru til vinnumiðlunar á fjárhagsáætlun Reykjavíkurbæjar, sem sýndi, að enginn sparnaður væri af þessu, og að það væri eitthvað á bak við það, ef Reykjavíkurbær ætlaði að fara að greiða það, sem ríkið hefði greitt fram að þessu. Þetta er rangt, því að það, sem ákveðið er í vinnumiðlun 1954, það er af því, að þá er ekki gert ráð fyrir, að l. komi til framkvæmda fyrr en 1. marz, en bærinn veitti á yfirstandandi ári 95 þús. kr. til Ráðningarstofunnar og 140 þús. kr. til Vinnumiðlunarskrifstofunnar, eða samtals 235 þús. kr. í þessu skyni, en það er samt skoðun forráðamanna bæjarins, að með því móti að bæta við liðlega einum manni, þá geti bærinn annazt báðar stofurnar, og þó að bætt væri 40 þús. kr. kostnaði við rekstur Ráðningarstofunnar, þá nemur rekstur hennar ekki nema 135 þús. kr., en bærinn þarf nú að leggja fram 235 þús. kr. í þessu skyni, svo að hann mundi græða 400 þús. kr. á þessari breytingu og ríkið allt sitt framlag. Og það sýnir sig, hve framkvæmdin er óeðlileg, þegar báðir aðilar græða á henni. Og það er síður en svo, að bærinn ætli að fara að greiða það, sem ríkið á að greiða, heldur getur bæjarsjóður hér sparað sér 100 þús. kr. með því móti að sjá einn um vinnumiðlunina, án þess þó að rýra hana nokkuð. Það kunna að vera nokkur atriði þessa frv., sem þurfa frekari breytinga við heldur en var frá hv. n., en ég er ekki enn reiðubúinn til að leggja þær fram, en það er þá hægt við 3. umr. En þetta vildi ég segja til leiðréttingar mishermi og ranghermi hv. 3. landsk. um forsögu og framkvæmdir í málinu og hvernig það horfir við frá sjónarhóli bæjarstjórnar Reykjavíkur eins og stendur.