15.12.1950
Neðri deild: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

59. mál, vinnumiðlun

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hv. þm. Ísaf. ræddi þetta mál allmikið á deildarfundi í gær. Hann virtist vera í fremur vondu skapi, og það var auðheyrt, að jólaskapið hafði enn ekki náð tökum á honum. Að vísu varð mér á að nefna einhver atriði í sambandi við stefnu Alþfl. í þessum málum, og hefur það getað farið í fíngerðar taugar hans. En það eru nokkur atriði úr ræðu þessa hv. þm., sem ég vildi drepa á og koma með leiðréttingar við. Hann vék nokkuð að því sama og hv. 3. landsk., að á bak við þá hugsun bæjarstj. Reykjavíkur að taka alla vinnumiðlun bæjarins í sínar hendur lægi það, að meiri hl. bæjarstj. vildi með því beita sínu pólitíska valdi. Ég hef áður neitað þessum ummælum og geri það ákveðið aftur. Hann sagði enn fremur, að Sjálfstfl. hefði notað tíma neyðarinnar til að úthluta bæjarvinnunni út frá pólitískum sjónarmiðum og að stofnun Óðins hefði verið af þeim toga spunnin. Um leið og ég mótmæli þessu eindregið, vil ég ýta ögn við minni hv. þm. og vekja athygli hans á því, að það félag var stofnað af allt öðrum ástæðum. Ástæðan fyrir stofnun þess var fyrst og fremst sú, að þá ríkti það ástand í verkalýðsmálunum, að sömu lög giltu fyrir fagsamtökin og hin pólitísku, þ.e. fyrir Alþýðusambandið og Alþfl., og Alþfl. notaði verkalýðssamtökin sér til framdráttar. Samkv. þeim lögum voru þeir menn, sem ekki voru í Alþfl., óhlutgengir í Alþýðusambandið. Þetta var ástæðan fyrir stofnun Óðins, til að berjast fyrir pólitísku frelsi, svo að verkamenn hefðu sama rétt innan stéttarinnar, hvaða pólitíska skoðun, sem þeir hefðu. Af þessari baráttu Sjálfstfl. fékkst svo það, að samkomulag varð á milli þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstfl., Framsfl. og Alþýðufl., um að þessu yrði að breyta. Og það má virða Alþfl. það til lofs, að hann gekk inn á þá skoðun af frjálsum vilja, að rétt væri að skilja sundur löggjöf þessara samtaka, sem raunar voru óskyld, en höfðu átt samleið frá upphafi. Alþfl. sem öðrum var þá ljóst, að þetta ástand gæti ekki staðið lengur og að það væri þegar búið að standa of lengi. Þetta vildi ég minnast á til að leiðrétta þau ummæli, sem hv. þm. Ísaf. hafði í gær um þessa hluti, og svo til að vekja athygli á því, að það hlýtur að vera misskilningur hjá þeim hv. þm. og hv. 3. landsk., að hér geti legið til grundvallar pólitísk löngun meiri hl. bæjarstj. Reykjavíkur að breyta lögunum, svo að hún geti fengið aðstöðu til að úthluta bæjarvinnunni eftir geðþótta sínum. Ástandið í þessum málum í dag er þannig, að hér í Reykjavík eru 2 skrifstofur, vinnumiðlunarskrifstofan og ráðningarstofa Reykjavíkur, sem ráðstafar allri bæjarvinnu, svo að ef Sjálfstfl. vildi beita þessu valdi, þá hefði hann betri aðstöðu til þess nú en eftir að búið væri að breyta lögunum eins og gert er ráð fyrir í frv. Þar er gert ráð fyrir, að stjórn hverrar vinnumiðlunarskrifstofu verði skipuð 5 mönnum, og þar af á viðkomandi bæjarstjórn ekki nema 3, sem kosnir skulu með hlutfallskosningu, en hinir 2 eru fulltrúar atvinnurekenda og verkamanna, svo að meiri hl. bæjarstjórnanna á augsýnilega ekki að geta haft þar neitt alræðisvald. Ef bæjarstjórn Reykjavíkur hefði hug á að misnota ráðningarskrifstofuna, þá ætti Sjálfstfl. að vera á móti þessu frv. og kjósa það ástand áfram, sem nú er, því að nú hefur hann skrifstofu, sem hann gæti notað í þeim tilgangi; ef hann hefði löngun til. En það er vegna þess, að slíkt hefur aldrei vakað fyrir Sjálfstfl., að hann vill nú breytt og bætt skipulag á þessum málum. Enda hefur aldrei verið nein deila á milli bæjarstj. og verkalýðsfélaganna hér í Reykjavík um skipun þessara mála þau 5 ár, sem ég hef verið í bæjarstjórn. Í hæsta lagi að sósíalistar, sem enginn tekur alvarlega, hafi verið með einhverjar getsakir í þeim efnum. Aðstaða bæjarstj. til valdbeitingar á þessu sviði er því alla vega betri nú en eftir að búið er að breyta lögunum, og því hlýtur þarna að vera um misskilning að ræða hjá hv. þm. Ísaf. og 3. landsk.

Þriðja atriðið úr ræðu hv. þm. Ísaf., sem ég vildi koma ögn að, var það, að hann talaði um, að við værum eins og álfar út úr hól hvað alla statistik snertir, og minntist m.a. á því til staðfestingar, að í nýútkominni handbók bænda hefðu tölur um bændafjölda verið hrein ágizkun og að önnur lönd, svo sem hin kapítalistísku Bandaríki, hefðu svo fullkomið skipulag á þessum málum, að þau gætu séð mánaðarlega, hve margir ynnu í hverri atvinnugrein, en á sama tíma færum við svo aftan að siðunum, að leggja niður slíkar stofnanir.

Um þetta fór hann mörgum fögrum orðum. En nú vildi ég spyrja hv. þm.: Hvar eru þær miklu upplýsingar, sem hefðu átt að koma frá þeim vinnumiðlunarskrifstofum, sem eru búnar að starfa í ein 16 ár? Ég hef ekki orðið var við þær, og ég held, að það fari enginn sjóður í sjóinn, þótt þetta frv. yrði samþ.

Ég gat þess áður við umr. þessa máls, að ég mundi ef til vill við 3. umr. flytja brtt. við frv. og í sambandi við 6. gr. þess. Einn tilgangur þessa frv. er, eins og komið hefur í ljós hér, sparnaður. Brtt. mín er í þá átt, að þar sem stendur í frv., að laun stjórnarmanna og starfsliðs vinnumiðlunarskrifstofunnar skuli ákveðin í reglugerð, þá verði gerð sú breyting á, að laun stjórnarmanna verði ekki ákveðin. Ég tel ekki ástæðu til að ætla stjórnarmönnum sérstök laun, því að ég býst við, að þeir muni ekki hafa miklu verkefni að sinna, og verða að líkindum menn, sem hafa fast starf. Ég vil þó ekki fella þessi ákvæði alveg niður, en hafa þau í þá átt, að laun starfsliðs skrifstofunnar skuli ákveðin með reglugerð. En verði þessi breyting gerð, þá kemur það auðvitað ekki í veg fyrir, að hægt verður að veita þeim einhverja þóknun fyrir sitt starf. En ég tel sem sagt, að störf þessara stjórna muni verða svo lítil, að ekki sé ástæða til að ætla þeim sérstök laun, og því mun ég koma fram með brtt. við 3. umr.