15.12.1950
Neðri deild: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

59. mál, vinnumiðlun

Frsm. meiri hl. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. frá því, sem orðið er. — Mér hefur verið núið því um nasir, að ég sé ekki kunnugur þessum málum, en ég hef töluvert lært af að hlusta á þær umr., sem hér hafa farið fram. Ég er satt að segja mjög undrandi á málflutningi andmælenda þessa frv., sérstaklega því, hve rök þeirra stangast á. Allt þeirra tal byggist á því, að þeir telja þessa breyt. á vinnulöggjöfinni spor aftur á bak. Maður skyldi þá ætla, að sú löggjöf, sem staðið hefur um þessi mál undanfarin 16 ár, hafi reynzt vel. En hvað skeður? Allur þeirra málflutningur gengur út á að lýsa, hvað sú löggjöf hafi reynzt illa, hve starf ráðningarskrifstofunnar hafi verið mislukkað og alls konar misbeitingar hafi átt sér stað þar. Maður skyldi þá ætla, að þeir yrðu fegnir því, að þessi skrifstofa sé lögð niður. Breyting sú, sem frumvarpið fer fram á, er einmitt í því fólgin, að skrifstofa þessi sé lögð niður og önnur skrifstofa sett í staðinn, þar sem verkalýðsfélögin fái fulltrúa í stjórn. Ég held, að þessi breyting verði að teljast til bóta, eftir þeim lýsingum, sem andmælendur þessa frv. sjálfir hafa gefið. Ég hef hér í minni fyrri ræðu lýst því, í hverju þessar breytingar eru fólgnar, og skal ekki endurtaka það, enda er það orðið ljóst af þeim umr., sem hér hafa farið fram, en ég þarf að víkja örfáum orðum að ræðu hv. 3. landsk. Hann beindi því mjög að mér, að ég hefði vanrækt þingmannsskyldu mína, einkum vegna þess, að ég hefði aldrei komið með till. til sparnaðar. Ég man nú ekki eftir till., sem hv. þm. hefur komið með í þá átt, ég held, að þær hafi nú heldur gengið í þá átt að auka útgjöld ríkissjóðs en hitt, svo mér finnst það sitja illa á honum að lá öðrum að hafa ekki komið með sparnaðartill. Það er líka hans skylda að koma með till. í þá átt. Ég hef þó sýnt viðleitni til þessa svo að segja á hverju þingi. Enn fremur sagði hv. þm., að ég sem meðlimur í fjvn. hafi ekki gert neitt í þá átt að draga úr óráðsíu og sukki ríkissjóðs. Hvað er nú hæft í þessu? Fyrir ekki alllöngu kom öll fjvn. fram með till. um athugun á rekstri ríkisins. Samkv. henni átti að rannsaka, hvort ekki væri unnt að draga úr kostnaði ríkissjóðs og komast af með færra fólk í þjónustu ríkisins. Þessi till. var samþ. á Alþingi, og þá voru í ríkisstjórn fulltrúar flokks hv. 3. landsk. og hafa verið þangað til fyrir rúmu ári, en samt var þetta aldrei gert, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að koma því til vegar. Auk þess hef ég oft borið fram hér á Alþingi till. til sparnaðar, bæði einn og með öðrum, en mér er óhætt að segja, að hv. 3. landsk. hefur alltaf verið á móti, eða ekki man ég betur. Það er fyrst nú, þegar hans menn eru hættir að vera ráðherrar, að fer að brydda á því hjá honum, að eitthvað þurfi að gera í þessu máli. — Ríkisstj. er nú að athuga starfrækslu ríkisins og reyna að koma á sparnaði á ýmsum sviðum. Þetta er mjög erfitt og vandasamt verk, og ég býst við, að hv. 3. landsk. muni tala þó nokkur orð á Alþingi, áður en þær breyt. í sparnaðarátt, sem fyrirhugaðar eru, komast á. Nei, það situr ekki á honum né fulltrúum hans flokks að bera mönnum á brýn, að þeir hafi ekki komið með sparnaðartill., því þeim er hann og hans flokkur alltaf á móti. — Ég skal ekki lengja þessar umr. frekar, en ég undrast rök þessara manna, hvernig þau stangast á.

Það, sem verið er að gera, er að draga úr gjöldum ríkis og bæja og koma á betri skipan í þessum málum. Ég undrast, að þessir menn skuli ekki vilja neina breyt. í þá átt. Þeir telja sér skylt að vera á móti ríkisstj. og öllum hennar till., hvort sem þær eru góðar eða illar; það er nokkurs konar flokkssamþykkt. — Hv. 5. þm. Reykv. hefur komið hér fram með brtt., en ég vildi óska, að hún væri látin bíða til 3. umr.