15.12.1950
Neðri deild: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

59. mál, vinnumiðlun

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég hefði nú ekki mikið blandað mér í þessar löngu umr., ef ég hefði ekki heyrt þau rök, sem af hálfu hæstv. forsrh. og af hálfu 1. þm. Rang., frsm. n., hafa verið flutt sem aðalrök í þessu máli, en þeir töldu báðir að meginrökin fyrir flutningi frv. væru þau, hvað þessi löggjöf hefði reynzt illa. Til stuðnings þessari fullyrðingu sinni færðu þeir fram þau rök, að í Rvík væru starfandi tvær vinnumiðlunarskrifstofur og skipulagsleysið í starfseminni gerði það að verkum, að þessu þyrfti að breyta, en hvorugur gat um það, hvernig þessi l. hefðu reynzt úti á landi eða hvort menn þar væru ánægðir með þau. Vildi ég aðeins láta þetta koma fram, áður en þessari umr. lýkur.

Það, sem hefur gerzt í Rvík, er það, að bæjarstjórn Rvíkur hefur ekki sætt sig við l., heldur hefur hún haldið uppi fyrir eigin reikning skrifstofu utan við þau, og af því hefur skapazt sá glundroði, sem talinn er vera orsök þess, að flutt er frv. um að breyta þessum l. Ef bæjarstjórn Rvíkur hefði ekki gert þetta, þá væri ein vinnumiðlunarskrifstofa starfandi hér í Rvík. Ég skal ekkert um það segja, hvers vegna Reykjavíkurbær hefur valið þennan kost. Það hafa komið hér fram ýmsar getsakir um það, og skal ég ekkert um það fullyrða, en það virðist auðséð, að þeir hefðu getað látið sér nægja að halda uppi einni vinnumiðlunarskrifstofu og málið þannig leyst. — En sem sagt, þetta var nú ekki það, sem ég aðallega vildi segja, heldur ætlaði ég að skýra frá þeirri reynslu, sem ég hef af þessum l. í Hafnarfirði, þar sem starfrækt hefur verið vinnumiðlunarskrifstofa allan tímann síðan lög þessi voru sett og til dagsins í dag og með þeim árangri, að frá bæjarráði Hafnarfjarðar hafa borizt einróma mótmæli gegn því, að þessum l. verði breytt. Þetta sýnir, að öllum aðilum, sem í bæjarstjórninni eiga sæti, hefur ekki þótt neitt við l. að athuga. — Ég vildi láta þetta koma fram, vegna þess að þetta skipulagsleysi og þessi slæma reynsla, sem á að hafa fengizt af þessum [., á bara ekki við nema í Rvík, og það á við í Rvík einvörðungu vegna þess, að bæjarstjórn Rvíkur hefur af einhverjum ókunnum ástæðum talið sig þurfa að halda uppi tveimur vinnumiðlunarskrifstofum, þar sem nóg var að hafa eina. Nú er það aftur á móti svo í Hafnarfirði og þar, sem líkt stendur á, að eini árangurinn af þessari lagasetningu yrði sá, að gjöldunum við rekstur vinnumiðlunarkerfisins yrði velt yfir á bæina í stað þess, að áður skiptu bæirnir og ríkið þessum kostnaði nokkuð á milli sín. Nú vita það allir, að fjárhagur bæja úti um land — ég skal ekki segja um Rvík — þrengist óðum hvað líður með minnkandi gjaldgetu fólksins af ýmsum orsökum, vegna þess að ríkissjóður leggur undir sig meira og meira af þeim tekjustofnum, sem bæirnir höfðu áður, sem gerir það að verkum, að útsvarsálagningin getur ekki orðið eins mikil og þörf er á til þess að rekstur bæjarfélaganna geti verið í því horfi, sem nauðsyn ber til, en rekstur bæjanna þyngist líka, ef störf, sem kostuð hafa verið af ríkinu, eru nú færð yfir á bæjarsjóðina, svo að þeir verða nú að bera byrðar, sem ríki og bæir báru áður í sameiningu. Þetta tvennt, að ríkið leggur undir sig tekjustofna bæjarfélaganna, hvern á fætur öðrum, en veltir af sér útgjöldum, eins og í þessu tilfelli, yfir á bæina, hlýtur að valda bæjarfélögunum miklum fjárhagsörðugleikum. Í Hafnarfirði t.d. yrði afleiðingin af þessari löggjöf sú, að útgjöldin af vinnumiðluninni færðust yfir á bæinn, en yrðu tekin af ríkinu. Nú geri ég ráð fyrir, að þetta yrði á annan veg hjá öðrum bæjarfélögum, sem sé á þann veg, að þau sjái sér ekki fært að halda uppi þessari nauðsynlegu starfsemi, að tekjuöflun og fé bæjanna fari í aðra starfsemi, er sé svo brýn, að þetta verði látið sitja á hakanum, og þá hlýtur þetta frv. að verka á þann hátt, að störf vinnumiðlunarskrifstofanna verði lögð niður og skrifstofunum lokað, og þess vegna verkar frv. þvert á móti því; sem hæstv. forsrh. og félmrh. var að lýsa yfir áðan, þ.e. að verið væri að færa málið í annað og betra og skipulegra horf en hér hefði verið áður með gömlu l. — Ég sé, að hæstv. ráðh. er kominn í d. Ég var að segja, að fyrsti árangurinn af þessari lagasetningu yrði sá, að sums staðar yrði þessi starfsemi lögð niður, því að bæirnir hefðu ekki efni á því að halda því uppi einir, og á öðrum stöðum yrði það á þann hátt, að þessi miklu útgjöld, sem ríkissjóð munar ekkert um, þau yrðu færð yfir á þá, sem eiga kannske erfitt með að borga þau. Mér finnst þetta ganga í öfuga átt, ef það verður til þess, að þetta starf verði alveg fellt niður.

Mér sýnist, að eina ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, sé þessi ágreiningur hér í Rvík, vegna þess að ekki hefur náðst samkomulag milli þessara vinnumiðlunarskrifstofa, sem starfandi eru í Reykjavíkurbæ. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh., hvort ekki séu önnur ráð fyrir hendi til að fá þetta lagað en að ráðast þannig að stofnunum, sem eiga í erfiðleikum og þurfa á styrk ríkisins að halda til starfsemi, sem óumdeilanlega er hin mesta þjóðarnauðsyn. Ég skal ekki rekja það nú, hver nauðsyn ber til að þessari starfsemi sé haldið uppi. En ég vil skjóta því til hæstv. ráðh., hvort ríkisstj. geti ekki hugsað sér neina aðra leið til að laga þetta deilumál, sem fyrst og fremst er bundið við Rvík, þannig að aðrir þurfi ekki að gjalda þess.