15.12.1950
Neðri deild: 42. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

59. mál, vinnumiðlun

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Í ræðu hv. 8. landsk. kom fram nokkur misskilningur, sem mér þykir vert að leiðrétta. Hann skýrði frá því, að í fjárhagsáætlun Rvíkur væri gert ráð fyrir því að hækka framlagið til ráðningarskrifstofu bæjarins um 100 þús. kr. og væri þannig ekki mikill sparnaður á ferðinni. En þetta er á misskilningi byggt. Áætlaðar eru í einu lagi 250 þús. kr. til vinnumiðlunarskrifstofanna beggja, og minnkar það hlutfallslega, er lög þessi taka gildi, er hér um ræðir.

Út af ræðu hv. þm. Hafnf., sem lá Rvíkurbæ á hálsi fyrir það, að hann hefði ekki viljað sætta sig við núgildandi lög um þetta efni, þá vil ég segja það, að sökin er hér ekki Rvíkur. Það var Rvík, sem fyrst bæja á landi hér kom á hjá sér vinnumiðlunarskrifstofu, og það var hann og flokksbræður hans, er síðar stóðu að því að þvinga upp á bæinn annarri skrifstofu og greiða kostnað við hana, sem varð helmingi meiri en kostnaðurinn við ráðningarskrifstofu bæjarins, enda mála sannast, að hann hefur numið hærri upphæðum en nokkur rök mæla með.

Þá vildi ég leyfa mér að segja það, út af ræðu hv. 6. þm. Reykv., að mér er það að vísu gleðiefni, að hann át ofan í sig flest það, er hann hafði áður sagt, svo sem það, að hann hefði orðið fyrir barðinu á hlutdrægni þessarar ráðningastofu. Hann er nú búinn að draga þar í land og kveðst aldrei hafa til hennar leitað. Og að því er ég kemst næst, mun hann heldur ekki hafa undan neinu að kvarta í viðskiptum sínum við bæinn. Hvernig þeim hefur verið háttað fyrir 1933, er mér ekki fullkunnugt, en mér er sagt, að þessi hv. þm. hafi oft fengið vinnu sem verkstjóri hjá bænum, en hans aðalstarf var lengi við kirkjugarðinn, og ég veit ekki annað en honum hafi jafnan verið prýðilega tekið af fyrrv. bæjarverkfræðingi, enda hefur sá maður lýst í viðtali við mig undrun sinni yfir brigzlum hv. þm.