16.01.1951
Efri deild: 50. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

59. mál, vinnumiðlun

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að láta þessu frv. fylgja örfá orð hér við 1. umr. málsins í hv. Ed. Þetta frv. hefur nú gengið í gegnum Nd. og er komið hingað. Sú breyt., sem með þessu frv. er gerð á núgildandi löggjöf um þetta efni, er það, að ætlazt er til samkv. þessu frv., að vinnumiðlun verði eftirleiðis starfrækt af sveitarfélögum, þar sem þörf þykir fyrir það, og þá um leið kostuð af bæjarsjóðum eða sveitarsjóðum, en ekki eins og nú, að þær verði settar upp að frumkvæði ríkisstj. og kostaðar að nokkru leyti úr ríkissjóði. Þessi l. um vinnumiðlun hafa verið alllengi í gildi hér hjá okkur, eða frá 1935, og má segja, að sú löggjöf hafi mjög lítið verið notuð annars staðar en hér í Reykjavík. Að vísu hafa í nokkrum kaupstöðum utan Reykjavíkur verið starfræktar vinnumiðlunarskrifstofur að einhverju leyti, en þar er varla um sjálfstæðar stofnanir að ræða, heldur hafa þær starfað einhvern tíma úr árinu og kostnaður við þær verið lítill, og ýmsir kaupstaðir utan Reykjavíkur hafa alls ekki treyst sér til að nota þá heimild, sem þar var fyrir hendi. Þetta virðist eðlilegt, vegna þess að kaupstaðir okkar flestir utan Rvíkur eru ekki það stórir, að það virðist vera nauðsyn á sérstakri skrifstofu til þess að miðla vinnuafli þar, heldur mun það vera nægilegt, að það sé gert í sambandi við störf bæjarstjórnanna yfirleitt, og virðist því reynslan benda á, að svona hafi þetta verið. Öðru máli er að gegna í jafnstórum bæ og Reykjavík, sérstaklega eins og nú er orðið. En sá háttur hefur hér verið á, að hér hafa verið starfræktar 2 vinnumiðlunarskrifstofur, önnur samkv. l. frá 1935, kostuð sameiginlega af ríkinu og Rvík, en hin kostuð sérstaklega af Reykjavíkurbæ. Þetta er að mínum dómi og flestra annarra óeðlilegt, að um 2 vinnumiðlunarskrifstofur sé að ræða, — það hlýtur að vera heppilegra, að hér sé aðeins um eina skrifstofu að ræða, sem hafi þetta verkefni með höndum. Það hefur ekki tekizt til þessa að fá samkomulag um það, að hér væri aðeins ein skrifstofa, sem hefði þetta með höndum, og þetta hvort tveggja, sem ég hér hef nefnt, annars vegar, að l. frá 1935 hafa lítið verið notuð utan Rvíkur í hinum smærri kaupstöðum, og hins vegar, að hér í Rvík hefur það ólag verið á, að það hafa verið 2 vinnumiðlunarskrifstofur starfandi, hefur m.a. gert það að verkum, að ríkisstj. varð ásátt um að leggja til, að þessu yrði breytt á þann veg, sem hér er gert ráð fyrir. Til þess er ætlazt, að þar, sem vinnumiðlunarskrifstofur starfa, verði stjórn þeirra skipuð með þeim hætti, sem fram er tekið í 6. gr. frv., en þar er svo til ætlazt, að 3 menn séu kjörnir af hlutaðeigandi bæjarstjórn með hlutfallskosningu og 2 tilnefndir, annar af hálfu fulltrúaráðs verklýðsfélaga á staðnum og hinn af hálfu atvinnurekanda. Þetta á að vera stjórn vinnumiðlunarskrifstofunnar, og þetta skipulag er hugsað til þess, að þar geti komið fram allar skoðanir frá þeim aðilum, sem þarna eiga hlut að máli, fyrst og fremst bæjarstjórnum, og þá meiri og minni hl. bæjarstj., og auk þess fulltrúum frá þessum meginaðilum þjóðfélagsins, verkamönnum og atvinnurekendum. Þetta virðist mér, að ætti að nægja til þess að fyrirbyggja alla tortryggni gagnvart því, að ekki sé starfað á réttan hátt og óhlutdrægt að öllu leyti að miðlun vinnuaflsins samkv. þessu skipulagi. — Þá er einnig gert ráð fyrir því, að ráðuneytið geti gripið inn í og fyrirskipað vinnumiðlun í einstökum atvinnugreinum, ef svo þykir þurfa á sérstökum stöðum eða sérstökum tímum ársins, eftir því sem ástæða er til, og svo er til ætlazt, að ríkið greiði þá vinnumiðlun, sem á þann hátt væri fyrirskipuð af ráðuneytinu.

Ég sé ekki ástæðu til, á þessu stigi málsins, að hafa þessi orð fleiri, en vildi aðeins með þessum fáu orðum gera grein fyrir þeim breyt., sem gera á á þessari löggjöf, og því, hvers vegna ríkisstj. hefur talið rétt að leggja frv. þetta fram nú. Það er dálítill sparnaður fyrir ríkissjóð að þessu, á annað hundrað þús. kr., miðað við það, sem verið hefur undanfarið. Það var talið eitt af viðleitni ríkisstj. til þess að draga saman það sem hægt væri. Ég ætla ekki að gera mikið úr því, að þetta sé sérstaklega stórt atriði í rekstri ríkisins, en ef aldrei er reynt að gera neitt, þá verður aldrei neitt gert á því sviði eða öðrum, en mér dettur ekki í hug að strika yfir þetta atriði. En ég tel hitt atriðið, sem ég nefndi, engu veigaminna, að ekki hefur verið um heilbrigt skipulag að ræða hjá okkur að undanförnu, og við þurfum að fá þessu breytt á einn eða annan hátt, og þá sáum við ekki aðra leið heppilegri til þess en þá, sem hér er farin. Mál þetta var mjög mikið rætt í neðri deild, og voru skoðanir þar skiptar um það, og geri ég ráð fyrir, að svo sé einnig hér í þessari hv. d., og mun þá hitt og annað koma fram í þeim umr., sem væntanlega fara fram um málið. — Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til heilbr.- og félinn., sem hafði þetta mál með höndum í neðri deild.