05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

59. mál, vinnumiðlun

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og sést á nál. minni hl. á þskj. 719, þá leggur hann til, að frv. verði samþ. óbreytt, en getur ekki fylgt hinni rökst. dagskrá. Frv. þetta er borið fram sem stjórnarfrv. í hv. Nd.; því var útbýtt í oktáber og var hér til umr. hinn 8. febr., en hefur síðan legið hjá n. Innan ríkisstj. er fullt samkomulag, að frv. nái fram að ganga óbreytt eins og það er á þskj. 447.

Það má ljóst vera, að bæjarstj. Rvíkur hefur ekki talið sér annað fært en reka áfram þá vinnumiðlunarskrifstofu, sem hún hafði upphaflega, vegna þess að vinnumiðlunarskrifstofu ríkisins hefur ekki tekizt að inna svo starf sitt af hendi, að bæjarstj. gæti sætt sig við. Skal ósagt látið, af hverju það stafar, en það hefur aldrei getað fengizt samkomulag um það á milli bæjarstj. og ráðuneytisins að sameina þessar skrifstofur í eina stofnun. Og þar sem hér er um að ræða stærsta bæjarfélag á landinu, þá virðist rétt, að því beri sjálfu að annast þessa starfsemi að öllu leyti, úr því það telur sér nauðsyn að reka aðra skrifstofu hvort sem er samhliða ríkisskrifstofunni.

Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, þá er æskilegt, að vinnumiðlun geti átt sér stað á milli einstakra byggðarlaga, en hefur ekki átt sér stað nema í mjög smáum stíl. Ég minnist þess í því sambandi, að ég hef oft heyrt og lesið um aðvaranir ráðamanna Rvíkurbæjar til manna úti um land, að leita ekki hingað til atvinnu. Og þetta sýnir glöggt, að venjulega er ekki óskað eftir, að menn komi hingað í atvinnuleit. Og slíkar auglýsingar hafa einnig heyrzt frá fleiri stöðum, svo að staðreynd er, að atvinnumiðlun á milli staða á sér aðeins stað í smáum stíl.

Þá vil ég benda á, að mér þykir málum blandað, þegar því er haldið fram, að vinnumiðlun geti bætt úr atvinnuleysi, eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl. Það bætir ekki úr atvinnuleysi, þótt miðlað sé milli manna; til þess þarf að gera aðrar ráðstafanir. Þetta eru óskyld mál, og má ekki blanda þeim saman. Og þó að atvinnukreppa sé, þá get ég þannig ekki séð, að það hafi mikla þýðingu, þó ríkisstofnunin sé lögð niður og þessi starfsemi sé lögð undir vinnumiðlunarskrifstofu Rvíkurbæjar. Það verkefni, sem fyrir liggur, er að miðla vinnu á milli manna innbyrðis á hinum einstöku stöðum. Og það getur ekki talizt óeðlilegt, að staðirnir sjálfir annast það. Enda hníga óskir bæjarstj. Rvíkur að því.

Ég mun ekki fjölyrða frekar um þetta. Eins og ég hef þegar tekið fram, þá mælir minni hl. n. með því, að frv. verði samþ. óbreytt.