05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

59. mál, vinnumiðlun

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram og ljóst varð af ræðu hv. þm. Barð., þá hefur n. ekki getað orðið sammála um afgreiðslu frv. Minni hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Meiri hl. lítur hins vegar svo á, eins og hv. frsm. tók fram, að eins og nú er ástatt í atvinnulífi þjóðarinnar, þá sé óeðlilegt a allan hátt og óheppilegt, að ríkisstj. kasti frá sér þeirri heimild, sem hún nú hefur til að mæla svo fyrir, að haldið skuli uppi vinnumiðlun í landinu. Öllum kemur saman um það, að keppa beri að því, að allir, sem unnið geta, eigi kost á vinnu við gagnleg og hagnýt störf, svo að vinnuafl þjóðarinnar notist sem bezt ásamt þeim tækjum, sem til eru í þágu framleiðslunnar. Enn fremur hygg ég, að allir séu sammála um það, að atvinnulíf okkar sé nú orðið svo fjölbreytt, að það sé oftrú að ætla, að þetta geti gerzt af sjálfu sér, án nokkurrar íhlutunar ríkisvaldsins. Þannig getur t.d. verið um að ræða blómlegt atvinnulíf eða sæmilegt í einni starfsgrein, en stöðvun í annarri, og án þess að hver nái til annars um miðlun á vinnuafli. En það er einmitt megintilgangur vinnumiðlunar að bæta úr þessu. Og þetta er ástæðan fyrir því, að hvarvetna um heim að heita má er vinnumiðlun talin veigamikill þáttur í allri félagsmála- og menningarlöggjöf. Á fundum alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur þannig alltaf verið litið svo á, að það væri eitt helzta viðfangsefni samtakanna að koma þessum málum á sem öruggastan grundvöll hvarvetna. Og ég hygg, að fulltrúar Íslands í þeim samtökum hafi ekki látið þar í ljós, að við hefðum nokkra sérstöðu í þeim efnum. Á þingi þessara samtaka í San Fransisco árið 1948 var gerð samþykkt um skipulag vinnumiðlunar í þátttökuríkjunum, samþykkt, er síðan skyldi send til aðildarríkjanna til staðfestingar. Og það liggur í hlutarins eðli, að þeir fulltrúar, sem greitt hafa samþykktinni atkvæði, hafa jafnframt bundizt til að leggja til við stjórnir sinna heimalanda, að hún yrði þar staðfest af þjóðþingum.

Í ályktuninni, sem samþ. var í San Fransisco 1948, segir m. a. svo í 1. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Hvert það aðildarríki alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem samþykkt þessi tekur til, skal halda uppi eða tryggja það, að haldið sé uppi opinberri ókeypis vinnumiðlun.“ — Ég veit nú ekki til, að af hálfu fulltrúa Íslands hafi verið neitað að greiða þessari tillgr. atkvæði eða stuðla að framgangi hennar. — Þá segir enn fremur svo í 2. gr. sömu samþykktar: „Vinnumiðlun skal byggð upp af kerfi af vinnumiðlunarskrifstofum, er nái um allt landið og sé undir einni miðstjórn fyrir allt ríkið.“ — Ég veit ekki heldur til, að fulltrúi Íslands hafi greitt atkv. gegn þessari till., og hefur hann að sjálfsögðu tekið afstöðu í samvinnu við sína ríkisstj. Þessa samþykkt hefði eftir eðli málsins átt að leggja fyrir Alþingi innan ákveðins tíma til staðfestingar. Það var látið undan dragast. Og ég hef heyrt, að hæstv. ríkisstj. hafi nú borið því við í umr. um þetta frv., að þessi samþykkt alþjóðavinnumálastofnunarinnar væri á engan hátt bindandi, af því að hún hefði ekki verið samþ. af íslenzkum stjórnarvöldum. En ástæðan til þess, að staðfestingar var ekki leitað, var raunar sú, að talið var af mönnum, sem til þekktu, að íslenzk löggjöf uppfyllti þegar helztu skilyrði samþykktarinnar. Og það hygg ég sé sönnu nær. — Nú kemur hins vegar fram frá hæstv. ríkisstj. till. um að fella úr gildi lög um vald ríkisins til að ákveða vinnumiðlun í landinu. Og verði það frv. samþ., er gengið þvert ofan í yfirlýstan vilja fyrrv. ríkisstj. í gegnum fulltrúa hennar á fundinum 1948, og gert að engu það, sem sú samþykkt fjallar um.

Ég verð nú að segja, að þetta lofar ekki góðu um þátt okkar í alþjóðlegu samstarfi í framtíðinni, og mig furðar stórlega þetta háttalag, ekki sízt þar sem það er þó jafnan viðurkennt í orði af þeim, sem að frv. þessu standa, að atvinnuástandið hér á landi sé langt frá því að geta talizt sæmilegt. Sú eina röksemd, ef rök skyldi kalla, sem hæstv. ríkisstj. ber fram, er sú, að með þessu séu sparaðar um 100 þús. kr. á þátttöku ríkisins í þessum kostnaði. Ég vil fullyrða, að þetta er fyrirsláttur einn. Ríkisstj. veit, að sú upphæð skiptir bókstaflega engu máli um fjárhag ríkisins. Og ef ástæða væri til að ætla, að vinnumiðlunarskrifstofa ríkisins væri rekin á óhagkvæman hátt og greiðslur ríkissjóðs yróu meiri en ástæða þætti til, þá væri auðvelt að ráða bót á því með reglugerðarbreytingu, í stað þess að fella niður heimild ríkisvaldsins til að halda slíkri starfsemi uppi. Alveg á sama hátt hefur ríkisstj. heimild til að fylgjast með starfseminni og gæta þess, að hún sé rekin á hagkvæman hátt og að ekki sé eytt meiru fé en hæfilegt má teljast. Ég vil taka mjög ákveðið undir þau orð hv. frsm. meiri hl. hér áðan, að það er óskiljanlegt ábyrgðarleysi af hæstv. ríkisstj. að ætla nú að fara að fleygja frá sér þeirri heimild, sem hún hefur nú samkv. gildandi lögum til að hafa afskipti af þessum málum. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta hátterni hæstv. ríkisstj. mjög til vansæmdar fyrir hana. Samkv. nýafstaðinni atvinnuleysisskráningu voru í 11 bæjarfélögum landsins 1200 manns atvinnulausir með um 2400 manns á framfæri sínu. Þannig hafa verið yfir 3300 manns ofurseldir atvinnuleysinu, því að það má gera ráð fyrir, að raunveruleg tala atvinnuleysingjanna á þessum stöðum sé nokkuð miklu hærri, auk þess sem vitað er um fjölda atvinnuleysingja á þeim stöðum, sem skráning hefur ekki farið fram á. Það er vitað, að í þessum 11 bæjarfélögum, þar sem skráning hefur farið fram, eru það margir, sem ekki hafa látið skrá sig, þegar samtímis atvinnuleysisskráningunni er ekkert gert til þess að bæta úr fyrir hinum atvinnulausu. En auk þessara staða eru til fleiri staðir á landinu, þar sem herjar meira og minna atvinnuleysi, og nægir í því sambandi að benda á ástandið í Bíldudal og Flatey, sem hefur verið hér til umr. á Alþ.

Á slíkum tímum sem þessum, og á meðan útlit er fyrir, að atvinnuleysi fari enn vaxandi, er mér óskiljanlegt ábyrgðarleysi hæstv. ríkisstj., sem hún sýnir nú, með því að ætla að fara að fleygja frá sér þeirri heimild, sem hún hefur nú í lögum til þess að hlutast til um þessa hluti. Þetta hátterni er raunar hið sama og ríkisstj. segði við atvinnuleysingjana: Þetta er mál, sem ríkisstj. kemur ekki við. Sjáið þið um ykkur sjálfir, við skiptum okkur ekkert af ykkar málum. — Slíkt svar sem þetta getur engin ríkisstj. veitt sínu fólki.

Sannleikurinn er sá, að það, sem þarf að gera nú, er að auka og endurbæta þá vinnumiðlunarstarfsemi, sem nú er fyrir í landinu, ekki aðeins miðað við attvinnuleysistíma, heldur einnig við þá tíma, er venjulegt atvinnuástand ríkir. Engri þjóð ríður meira á því en okkur íslendingum, að vinnuaflið sé ekki látið ónotað og öll framleiðsluöfl nýtt til fullnustu. Í hv. Nd. hefur nú verið lagt fram frv. til laga um atvinnustofnun ríkisins, og ég álít, að í þá átt, sem það frv. stefnir, eigi einmitt að ganga í þessum málum, en ekki að fara nú að fella niður vinnumiðlun í landinu. Á öllum venjulegum tímum er rík ástæða til að sjá unglingum og öðrum skólanemendum fyrir atvinnu við þeirra hæfi þann tíma, sem þeir stunda ekki námið. Á öllum tímum ber nauðsyn til þess að sjá öryrkjum fyrir vinnu við þeirra hæfi, bæði til þess að nota þeirra vinnuafl til gagns fyrir alla þjóðina og einnig til að gera þeim sjálfum lífið bærilegra, og engum ber ríkari skylda til að sjá um þetta en ríkisvaldinu sjálfu. Á hverju ári flykkjast hundruð og þúsundir manna á milli staða í atvinnuleit, vegna þess hve eftirspurn eftir verkafólki færist til á milli staða eftir árstíðum. Sveitirnar þurfa t.d. á hundruðum karla og kvenna að halda á vissum tíma ársins, en geta svo ekki séð þessu fólki fyrir atvinnu á öðrum tímum. Þetta er vandamál út af fyrir sig, því að það er hæpið, að hægt sé að grípa upp verkafólk yfir sumarið, en segja því svo að fara brott, þegar haustar, því að nú sé ekkert meira með það að gera. En við búum nú við þessa atvinnuhætti, og við því er í sjálfu sér ekkert að segja, en það leiðir þá af sjálfu sér, að í slíku landi er mjög nauðsynlegt að hafa vinnumiðlun á milli sveitarfélaga umfangsmikla. Hv. þm. Barð. sagði hér áðan, að vinnumiðlun á milli staða hefði alltaf verið hér í smáum stíl. Mér er þó kunnugt um, að vinnumiðlunarskrifstofa Reykjavíkur eingöngu hefur ráðið árlega svo hundruðum skipti fólk til landbúnaðarstarfa yfir sumarið, og það hefur hún gert engu síður í þágu þeirra, sem vantað hefur fólk í vinnu, heldur en í þágu þeirra, sem vantaði atvinnu. Það er vitað, að á vissum tímum árs streymir fólk til Siglufjarðar í atvinnu og til Vestmannaeyja og hingað til Reykjavíkur og útgerðarstöðvanna við Faxaflóa. Nokkuð af þessu fólki er ráðið beint í gegnum aðilana sjálfa, en mikið er þó ráðið í gegnum vinnumiðlunarskrifstofurnar hér í Reykjavík og annars staðar. Þessa starfsemi ber því að auka, en ekki leggja hana niður. En vinnumiðlunarskrifstofur, sem hin einstöku bæjar- eða sveitarfélög rækju fyrir sig, hefðu engu slíku hlutverki að gegna og engan áhuga á því. Þeirra hlutverk væri að miðla vinnunni innan síns bæjar- eða sveitarfélags.

Hv. þm. Barð. lagði á það mikla áherzlu, að það væri samkomulag innan ríkisstj. að afgreiða þetta frv. óbreytt. Ég vil engan veginn bera brigður á sannleiksgildi þessara orða hv. þm., en hingað til hefur hann ekki látið sér nægja slíkar röksemdir til þess að móta skoðun sína á málum. Hann hefur hingað til viljað móta sína skoðun sjálfur. Ég tek því þessi orð hv. þm. sem vott um það, að hann hafi séð fátt, sem mælti með þessu frv., úr því að hann telur kost þess vera þann stærstan, að hæstv. ráðh. hafi komið sér saman um að afgreiða frv. óbreytt. Ég hélt satt að segja, að hv. þm. hefði veigameiri rök fyrir sinni afstöðu en þetta. Hann sagði réttilega, að ekki hefði tekizt að sameina þær tvær vinnumiðlunarskrifstofur, sem störfuðu hér í Reykjavík. En nú hygg ég, að eins og ástatt er núna, muni vera tiltölulega auðvelt að leysa það mál, þannig að ekki verði nema ein skrifstofa í bænum, því að hið ágæta samkomulag innan ríkisstj. ætti að geta stuðlað að þeirri lausn. Hv. þm. mun vita, að þetta er auðgert nú, ef vilji er fyrir hendi. Hv. þm. sagði, að það væri eðlilegast, að bæjar- og sveitarfélögin önnuðust sjálf vinnumiðlun í sínu umdæmi. Ég hef svarað þessu áður, að vinnumiðlun má ekki og getur ekki takmarkazt við einstök sveitarfélög, því að það þarf að miðla vinnunni á milli staða. Ég get því á engan hátt fallizt á, að rétt sé að samþ. þetta frv. og fella með því heimild ríkisstj. til að kveða á um vinnumiðlunarstarfsemina í landinu. Og ég vil bæta því við, að mér er ekki grunlaust um, að sú ástæða liggi á bak við þetta frv., að hæstv. ríkisstj. búist við því, að atvinnuástandið í landinu haldi enn áfram að versna, og þá vilji hún vera búin að losa sig við heimildina til að hafa afskipti af vinnumiðlunarstarfsminni í landinu, til þess að geta svarað á eftir, að hún hefði ekki haft vald eða rétt til þess með lögum að grípa inn í til að bæta úr því ástandi. Hún vill koma sér hjá þeim óþægindum, sem eru samfara þessari heimild, á slíkum tímum, sem hún býst við að fari í hönd. Ég játa, að þetta eru ekki góðgjarnar hugleiðingar í garð hæstv. ríkisstj., en ég finn engar ríkari ástæður fyrir afstöðu hennar í þessu máli en hún vilji ekki skipta sér af atvinnuleysinu í landinu á þeim tímum, sem fara í hönd. Því að það trúir því enginn maður, að ástæðan sé sparnaður, og mér þykir miður, að nokkur ráðh. skuli bera slíku við. Annars harma ég það, að viðkomandi ráðh. skuli ekki geta verið við umr. þessa máls, en það verður að sjálfsögðu að taka því.