05.03.1951
Efri deild: 83. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

59. mál, vinnumiðlun

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það ætti ekki að vera þörf á því að deila um það, hvert sé hlutverk vinnumiðlunarskrifstofanna, vitanlega er það þetta: Að skrásetja vinnumarkaðinn, fá áreiðanlegar opinberar skýrslur um það, hvar sé ónotað vinnuafl og hvar er ekkert atvinnuleysi, til þess síðan að undirbyggja skynsamlegar aðgerðir og ráðstafanir til að fullnýta vinnuaflið, svo að atvinnuvegirnir geti fengið af því sem mest not og sem allra bezt sé bætt úr þörfum manna um atvinnu.

Það er vafalaust ekki hægt annað en viðurkenna, að þetta sé mikilsvert hlutverk, og þetta hlutverk er því þýðingarmeira sem meira ber á atvinnuleysi. M.ö.o., hlutverk vinnumiðlunarskrifstofanna hefur aldrei, um margra ára bil, verið eins brýnt og eins víðtækt og einmitt nú, og þá er rokið til að leggja niður alla íhlutun ríkisins um það, hvort haldið sé uppi rekstri vinnumiðlunarskrifstofanna í landinu eða ekki. Ég tek undir það með hv. 4. þm. Reykv., að ég tel þetta ákaflega furðulegt og stefnt alveg í öfuga átt af ríkisstj., sem vitanlega getur ekki lokað augunum fyrir því, hvernig atvinnuástandið er, og ekki heldur leitt hjá sér að gera ráðstafanir því til úrbóta. Ef menn væru bara að ganga með þessar skráningar án nokkurs tilgangs, þá væri sjálfsagt að hætta því, en þessi skráning fer fram til þess að mynda sér nauðsynlega og sanna mynd af atvinnuástandinu á hverjum tíma með það fyrir augum að vita, hvaða ráðstafanir eiga við. En ríkisstj., sem ætlar sér ekki að gera neinar ráðstafanir, hvernig sem atvinnuástandið verður, hún gæti sagt með nokkrum rétti: Ég kæri mig ekkert um að vera að kosta neinu til, að slík skráning fari fram á vinnuaflinu.

Það hefur engum dottið í hug að býsnast yfir því, að atvinnuástandið sé eins og það er, þrátt fyrir það, þó að l. um vinnumiðlun hafi verið í því formi, sem þau eru. — En það er annað. Af því að l. um vinnumiðlun eru í gildi ennþá, þá vitum við betur um það, hvernig atvinnuástandið var í ýmsum sveitarfélögum landsins um mánaðamótin janúar–febrúar, og það er sannarlega ekki lítils virði, ef góður vilji væri til þess að bæta úr því ástandi, að vita, hvernig því er háttað. Ef til vill munu sumir segja, að við værum rólegri um ástandið, ef við hefðum ekki fengið þessar ólukkans tölur, sem gáfu okkur þessa ónotalegu vitneskju. En það er aðferð strútsins að stinga höfðinu í sandinn, en ætti ekki að vera aðferð ríkisstj. og ekki heldur fylgismanna hennar. Ég kemst ekki hjá því að minna á, að það hefur verið furðuleg afstaða Sjálfstfl. í þessu máli, ekki aðeins á þessu þingi, heldur hvað eftir annað áður. Það hefur a.m.k. tvívegis verið borið fram frv. af einum þm. hans, hv. þm. N-Ísf., um það að gera breyt. á l. um vinnumiðlun. Í hvaða átt? Jú, bara í þá átt, að ríkisstj. skipi ekki formann í stjórn vinnumiðlunarskrifstofanna. En samkv. gildandi l. á að kjósa stjórn vinnumiðlunarskrifstofu á þann hátt, að bæjarstj. kýs 2 menn, samtök atvinnurekenda og verkamanna sinn manninn hvor, og ríkið, sem ber 1/3 kostnaðar, á að skipa formann, og mér sýnist það eðlilegur háttur að skipa þessum málum á þann hátt, að samtök atvinnurekenda og verkamanna skipi 2 menn, bæjarstjórn 2, þ.e. fulltrúa fyrir meiri hl. og minni hl., og ríkið hafi oddaaðstöðuna. En það er tvívegis búið að hamra á því, að það sé höfuðnauðsyn að breyta þessari skipan um stjórn vinnumiðlunarskrifstofanna. Getur hv. þm. Barð. sagt mér, af hverju þrástagazt er á því, að þessi breyting sé nauðsynleg? Það er ekkert af öðru en því, að Sjálfstfl. hefur lagt höfuðáherzlu á það í öllum þeim kaupstöðum, sem hann hefur meiri hl., að stjórn vinnumiðlunarskrifstofunnar væri skipuð í samræmi við flokkslegan vilja, og þar hefur verið þyngsta lóð á vogarskálinni vitneskjan um það, að þá væri vinnumarkaðurinn í Reykjavík undir nokkurs konar yfirstjórn Sjálfstfl., og jafnt í öðrum kaupstöðum, þar sem Sjálfstfl. hefur meiri hl. Það er þetta ofurkapp, sem lagt er á það að koma vinnumiðlunarskrifstofunum undir flokkslega stjórn Sjálfstfl., sem nú er fullkomlega með því að flytja þetta frv., sem ekki er heilbrigt mótív fyrir afgreiðslu málsins á Alþ. Það er á engan hátt hægt að skipa þessum málum á eðlilegri hátt en löggjöfin gerir ráð fyrir, að atvinnurekendur og verkamenn eigi jafna hlutdeild í stjórn þessara stofnana, en ríkið hafi oddaaðstöðuna, og því ætti ekki að breyta. Það er vitanlega hárrétt, sem hv. form. n. sagði áðan, að aðalatriði þessa máls er þörfin fyrir vinnumiðlun, þörfin fyrir skráningu vinnuaflsins og þörfin fyrir úrbætur til þess að nýta vinnukraftinn, og sú þörf hefur ekki verið jafnrík og nú í mörg ár.

Ég tel ekki hafa neina þýðingu að vera að ræða þetta mál miklu lengur. Það er áreiðanlega öllum hv. dm. ljóst, hvers eðlis málið er, og það eru ekki rökin, sem ráða afstöðu manna í þessu máli, eins og stundum vill brenna við, heldur fyrir fram teknar ákvarðanir, sem kaup hafa tekizt um innan ríkisstj., — þar verða menn að dansa eftir öðrum nótum en menn álíta réttast. Ég harma, að það skuli einmitt vera svona mál, sem einna auðveldast virðist vera að fá samkomulag um í hv. sambræðslustjórn.