08.12.1950
Neðri deild: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

127. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég er ekki sammála meðnm. mínum um flutning þessa frv., og get ég búizt við, að umr. geti orðið um það við 2. umr. málsins. Þetta spursmál er allmikið deiluatriði. Nú er Eimskipafélag Íslands með ríkustu félögum, sem til eru í landinu í hluthafaformi. Síðustu reikningar sýna um 55 millj. kr. eignir. Þó er margt af því metið á lágu verði. Andstaðan um skattfríðindi þess stafar ekki af því, að menn vilji draga úr gildi þess fyrir þjóðfélagið, enda hefur það greinilega komið fram á undanförnum árum. En hitt er allt annað mál, að nú þegar E.Í. er orðið eitt ríkasta félag landsins og það er talið þjóðarnauðsyn, að almenningur þrengi svo og svo mikið að sér, — er þá rétt og eðlilegt, að E.Í. haldi þessum skattfríðindum?

Nú er um tvennt að ræða:

1) Að E.Í. greiði skatta sína og létti þannig undir með öðrum þegnum þjóðfélagsins.

2) Að ríkið eignist ákveðinn hluta E.Í. sem mótvirði þess skatts, er ríkið gæfi eftir.

Ég veit, að viðvíkjandi því síðara mun vafalaust verða svarað, að það væri litið betur farið, þó ríkið eignaðist allmikla hluti í Eimskipafélaginu, eins og nú er, það sé ekki svo heppileg stjórn á Eimskipafélagi Íslands, svo að það mundi ekki verða betra, þó ríkið færi að stjórna félaginu. Um það mætti margt segja og að sjálfsögðu ræða um stjórnina á Eimskipafél. Ísl. En hvernig svo sem um það hefur verið háttað fram að þessu, þá hefur að vísu ekki komið til neinna vandræða út af þessum málum, þ.e. hlutafjáreign einstaklinga í félaginu. En slíkt getur orðið, hvenær sem er. Það hefur hver maður, sem á hlutabréf í Eimskipafélagi Ísl., rétt til þess að selja sín hlutabréf. Þeir, sem eiga smáhlutabréf í félaginu, halda margir við það að eiga þau af gamalli tryggð. En það er ekki hægt að segja, hvernig færi, ef af hálfu einstakra manna væri reynt að ná tökum í Eimskipafélaginu. Og það er ekkert sérstakt, sem kemur í veg fyrir það, hvað hlutafjáreignina snertir, að stjórn félagsins gæti með hlutabréfakaupum komizt í hendur nokkurra manna. Og þó ekki megi borga nema 4% arð nú sem stendur, þá er vitanlegt, að það að ráða slíku félagi getur þýtt það að ráða yfir stórkostlegum fjármálalegum forréttindum, þó ekki megi greiða í hlutafjárarð nema 4%. Og það kæmi til með því, hvernig hefur verið haldið vöruflutningum að skipum Eimskipafélags Ísl. og öðrum íslenzkum skipum. Og þá er gefið, að með núverandi farmgjöldum kemur Eimskipafél. Ísl. til með að safna allmiklum auði, sem m.a. er hægt að nota til yfirráða í fyrirtækjum, með því að setja fjármagnið í önnur fyrirtæki og nota það til fjáröflunar á þann hátt. Og nú þegar er það orðið svo, að Eimskipafél. Ísl. kaupir hlutabréf í öðrum félögum og eignast jafnvel meiri hl. í öðrum hlutafélögum hér á landi. — Ég veit, að máske muni það verða sagt sem mótbára hvað þetta snertir, að ef svo færi, að slík óheillaþróun færi að gerast í h/f Eimskipafél. Ísl., þá muni Alþ. vafalaust grípa inn í og koma í veg fyrir það. Ég vil í því sambandi segja, að það er enginn kominn til að sanna, ef Alþ. væri þannig skipað á slíkum tíma, að það kærði sig um að grípa þar inn í. Það væri hugsanlegt, að sams konar auðmenn eða auðfélög, sem þá ættu meiri hl. í Eimskipafél. Ísl. gegnum innkaup á hlutabréfum, hefðu einnig möguleika til að hafa meirihlutavald á Alþ. — Ég hygg því, að Alþ. eigi í tíma að gera sínar ráðstafanir viðvíkjandi þessu, þannig að ríkið eignist vaxandi hlutabréfaeign í Eimskipafélagi Íslands. Hitt er annað mál, að ríkið gæti sett ákvæði, sem þýddu það, að það yrði ekki gripið til þess að beita því valdi, sem hlutafé ríkisins gæfi, fyrr en sérstakt tilefni gæfist til. Það væri vel hægt, ef menn álitu þessa breyt. óheppilega vegna rekstrarskipulagsins. Ég held þess vegna, að það sé rétt, að þarna sé gerð á breyt. Ég er ekki þar með að meina, að venjuleg tekjuskatts- og eignarskattsákvæði ættu að gilda fyrir Eimskipafél. Ísl., því það mundi þýða fyrir Eimskipafél., eins og okkar tekju- og eignarskattslög eru nú sniðin og sérstaklega tekjuskattsl., að taka svo að segja allan þess gráða í ríkíssjóð, svo stórt félag sem Eimskipafél. Ísl. er og eins og okkar skattalög nú eru. Það yrðu því að gilda um félagið nokkur sérstök skattfríðindi.

Ég mun nú sjá, hvort ekki muni verða einhver viðleitni um breyt. í þessa átt, sem tryggi betur aðstöðu þjóðarinnar a.m.k. hvað framtíðina snertir. Ég vildi þess vegna bíða og sjá, hvort brtt. kynni að koma fram við 2. umr. eða samkomulag kynni að verða um brtt. þá, ekki sízt vegna þess, að einstakir nm. hv. meiri hl. fjhn. hafa óbundnar hendur um brtt. Ég ætla þess vegna ekki að marka neitt frekar afstöðu mína um málið heldur en ég hef gert með þessu. Ég mun ekki verða á móti þessu frv. við 1. umr. og sjá svo, hvað gerist við 2. umr.