15.12.1950
Efri deild: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

127. mál, skattgreiðsla Eimskipafélags Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Nokkrar fullyrðingar í ræðu hv: frsm. meiri hl. n. eru þannig, að mér þykir ástæða til að svara þeim nokkrum orðum. Hann segir, að ég og mínir flokksmenn stefnum að því að gera rekstur Eimskipafél. Ísl. að opinberum rekstri. Það er að vissu leyti rétt. Ég teldi það miklu heppilegra og meira öryggi í því fyrir þjóðina, að ríkissjóður ætti meirihlutaráð í félaginu. Að hv. þm. vill nú, að félagið borgi ekki nú tekjuskatt og eignarskatt er í sjálfu sér eðlilegt. Það er í samræmi við það, að hann telur, að allir beinir skattar eigi að vera felldir niður, það verði hætt að taka tekjuskatt í ríkissjóð af tekjum manna. En ég veit ekki, hvernig þá færi fyrir Eimskipafél. Ísl. Þá eru þessi fríðindi búin að vera. (GJ: Einkennileg rök.) — Ástæðan til þess, að Eimskipafél. Ísl. voru í upphafi veitt þessi skattfríðindi, var sú, að það átti við að keppa erlend félög, og var þetta gert til þess að félagið gæti komið undir sig fótum í byrjun, til þess að standast samkeppnina við þessi erlendu félög. Og það var rökstuðningurinn fyrir þessum skattfríðindum. Nú er sá grundvöllur fyrir þessu löngu burtu fallinn. Hér er engin erlend félög að keppa við nú. Og þetta er sérstök aðstaða, sem Eimskipafél. Ísl. hefur gagnvart öðrum skipafélögum. Og hvenær sem Eimskipafél. Ísl. er losað við skatta, er gengið á hlut hinna, sem greiða skatta. Þeirra skattar verða hærri af þeim sökum. Og ég sé ekki, að ástæða sé nú til þess að halda þessum skattfríðindum áfram til handa þessu félagi. Norðmenn hafa miklar gjaldeyristekjur af sínum skipaflota. Ég veit ekki annað en skipafélögin hjá þeim borgi skatta, eins og hver önnur félög og einstaklingar borga til hins opinbera. — Ég skal svo láta þetta nægja.