14.11.1950
Neðri deild: 21. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Enda þótt hér sé um allmikinn lagabálk að ræða, er ekki ástæða til að halda langa ræðu, því að málið er gamalkunnugt hér á Alþingi, mest vegna þess að sum þau ákvæði, sem lög þessi fjalla um, hafa verið rædd í sambandi við setningu fjárlaga undanfarið og sum fest sérstaklega í lögum nr. 85 1948. Ef nú er farið að fyrnast yfir einstök atriði þessa máls í minni hv. þm., þá er það rifjað upp í tveimur bréfum, sem ráðuneytið lét fylgja þessu frv., sem eru dagsett 27. sept. s.l. og 13. okt. s.l., og eru bæði frá skilanefnd, sem hefur í tvö ár fjallað um þessi mál, og eru þau prentuð aftan við frv.

Kjarni málsins er sá, að bátaeigendur hafa verið í skuldaskilum undanfarin tvö ár og auk þess haft skuldafrest nokkurn tíma áður. Ástæðan er hinn bági fjárhagur útvegsmanna, sem mönnum er löngu kunnur. Ég hygg, að það sé álit þeirra manna, sem bezt þekkja til um hag útvegsmanna, að þeir séu svo illa á vegi staddir nú, að tæplega sé von, að þeir rétti við af eigin rammleik. Ég er þó ekki að spá því, því að margt skeður, sem framsýnir menn ekki sjá, hvað þá aðrir, en það er ekki skynsamleg bjartsýni að gera ráð fyrir því, að útgerðin rétti við af eigin rammleik. Og um það ástand, sem nú er fyrir hendi, um þvingunarskuldaskil, fjallar þetta frv. Það er að sönnu svo, að í frv. er gert ráð fyrir aðstoð til handa þeim útvegsmönnurn, sem vilja reyna frjáls skuldaskil skv. l. gr. En því miður er svo komið hag flestra útvegsmanna, að aðeins fáir munu geta orðið þeirra hlunninda aðnjótandi án þess að þvingunarskuldaskil komi til. Í þeirri stuttu grg., sem fylgir frv., er gerð grein fyrir þeim breytingum frá áður gildandi l. og eins og þar segir, þá er meginmunurinn á ákvæðum I. kafla frumvarpsins og II. kafla laga nr. 100/4948 sá, að í 5. gr. frumvarpsins er það skilyrði sett fyrir aðstoð, að birt verði áskorun til lánardrottna og ábyrgðarmanna aðstoðarbeiðanda um að lýsa kröfum á hendur honum að viðlögðum kröfumissi, og enn fremur að eftirgjafir á lánum ríkissjóðs samkvæmt 1. gr. skuli ekki nema hærri hundraðshluta en eftir verður gefinn að meðaltali þeim útgerðarmönnum, sem aðstoð fá samkvæmt Il. kafla frumvarpsins. Þ.e.a.s., að þeir, sem fá frjáls skuldaskil, mega ekki fá að meðaltali meiri hluta eftirgjafar en þeir, sem bundnir eru við þvinguð skuldaskil skv. II. kafla frv.

Varðandi innköllun skulda hefur verið nokkur ágreiningur, hvort nauðsynlegt væri að láta slíka innköllun fara fram. En við nánari athugun á málinu hef ég fallizt á þá skoðun, að slíkt sé nauðsynlegt og muni, þegar á hólminn kemur, reynast aðila hagkvæmast til öryggis. Þetta frv. er að því leyti frábrugðið fyrri lögum um þetta efni, að gert er ráð fyrir lánum úr skuldaskilasjóði með 5% vöxtum til að veita útgerðarmönnum aðstoð á þá lund, en þó með þeim hemli, að lánið fari ekki fram úr 20% af eign þeirra. 10. gr. kveður á um, hverjir skuli fá lán úr sjóðnum, en auk þess er gert ráð fyrir greiðslufresti á afborgunum til stofnlánadeildar og fiskveiðasjóðs, og það var skoðun bæði skilanefndar og ríkisstj., að án slíks frests næðu slík skuldaskil ekki fram að ganga, og þetta var gert með góðu samþykki, en þó þannig, að afborgunum þessara 3 fyrstu ára er deilt með jöfnum þunga niður á hin árin, og ég hygg, að þessi frestur ætti að geta komið útvegsmönnum að haldi. Þessi frestur til stofnlánadeildar og fiskveiðasjóðs nær til allra, hvort sem um er að ræða frjáls skuldaskil samkv. I. kafla eða þvinguð skuldaskil samkv. II. kafla. Ég geri helzt ráð fyrir, að ágreiningur geti orðið um það, hvort nauðsynlegt hafi verið að láta þvinguð skuldaskil fara fram, og hvort ekki hefðu nægt þessar 18,5 millj. úr ríkissjóði án þess að nokkuð annað kæmi til, og ég viðurkenni, að mér hefði verið sú leið hugljúfust, að sú aðstoð, sem ríkið veitti, hefði meir verið hugsuð sem styrkur en sem lán, og ég er sannfærður um, að ef nægilegt væri að gefa útvegsmönnum þessar skuldir eftir, þá ættu þeir einhuga vilja Alþingis að baki sér í því, en því miður geri ég ekki ráð fyrir, að fjárhag þeirra sé svo komið nema í örfáum tilfellum. Þá kom til álita að hafa þann hátt á að segja við útvegsmenn, sem svo vel væru staddir að geta keypt sig undan viðjunum, að þeir mættu nota þetta fé til þess, þá hefði komið fram sú gagnrýni, að þeim, sem kröfur áttu á hendur útvegsmönnum, hefði verið ívilnað, þetta hefði verið talið misrétti, og ég hef látið sannfærast af rökum þeirra manna. Meginatriði þessa máls, um frjálsu og þvinguðu skuldaskilin, verður þess vegna það, að enda þótt ríkið kannske hefði verið fáanlegt til þess að gefa eftir þær 181/2 milljón kr., sem það telur til skulda í þessum efnum hjá hlutaðeigandi aðilum, gegn því, að aðilar þessir hefðu þá getað keypt sig frjálsa allra annarra krafna, með því að strika út þessar skuldir, þá hefði sú leið komið mjög takmörkuðum hópi útvegsmanna að haldi. Hins vegar þótti ekki fært að veita þennan rétt nokkrum örfáum mönnum, úr því að ríkið ætlaði að gera kröfur hvort sem væri í bú þeirra, sem farið yrði með í þvinguð skuldaskil. En ég álít, að ríkið eigi að gera það. Mín skoðun er sú, frá því er ég kom í þetta ráðherraembætti og að svo miklu leyti sem ég hef látið hana í ljós, að ég hefði tilhneigingu til að láta gefa eftir þessar kröfur, ef hægt væri að kaupa menn með því undan öllum kröfum með skuldaskilum með þvingunarvaldi, en ef útvegsmenn á annað borð gætu ekki keypt sig frjálsa frá þvinguðum skuldaskilum, að ríkið þá gerði gildandi sínar kröfur eins og aðrir.

Og hv. þm. verða að gera sér grein fyrir því, að í þvinguðum skuldaskilum í þessum efnum er eftirgjöf kvaða af hendi ríkissjóðs þá ekki orðin nein linkind gagnvart útvegsmönnum, heldur gagnvart kröfuhöfum á hendur útvegsins, og það hefur a.m.k. stundum heyrzt á hæstv. Alþ., að sumir þeirra manna hafi hagnazt svo vel á útveginum, að ekki þætti ástæða til að bæta þar um af ríkisins hendi.

Ég endurtek svo um þennan kafla aðeins það, að ég skil þá menn, sem hafa haft löngun til að komast undan þvinguðum skuldaskilum. Ég hef, eðlis málsins vegna, við fyrstu athugun, haft vilja til að fylgja þeim að málum. En við gaumgæfilega athugun hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að sú leið, sem hér er farin, sé sú skynsamlegasta fyrir útgerðina sjálfa og auk þess fyrir ríkissjóðinn. Og þess vegna tek ég till. hv. skilanefndar til greina hvað þetta varðar, og reyndar í flestum öðrum efnum, með þeim frávikum, sem ég hef gert grein fyrir og nánar kemur fram grein fyrir í grg. með frv. á bls. 7.

Ég vil svo aðeins vekja athygli á nokkrum smáatriðum í sambandi við þetta mál. Upphaf 1. gr. frv. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórn Skuldaskilasjóðs, samanber 14. gr., er heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að semja við útgerðarmenn og útgerðarfélög, er síldveiðar stunduðu á tímabilinu 1945 til 1950, um eftirgjöf að nokkru eða öllu leyti á neðantöldum skuldum þeirra“. Ég geri ráð fyrir, að margur, sem rennir aðeins augum yfir þetta frv., telji, að frv. fjalli eingöngu um þá, sem hafa stundað síldveiðar á hinu tiltekna tímabili. Svo er þó ekki, því að samkv. 2. málsgr. 10. gr. frv. er einnig heimilt að veita öðrum vélbátum eða línuveiðaskipum, sem orðið hafa fyrir sérstökum óhöppum á þessu tímabili, lán á sama hátt, þótt þeir hafi ekki stundað síldveiðar þessi ár. Vildi ég aðeins vekja athygli á þessu, til þess að fyrirbyggja óánægju eða óþarfa misskilning, sem gæti orðið út af því, að álitið væri, að ríkið ekki aðstoðaði þá, sem fyrir slíkum óhöppum hafa orðið, ef þeir hafa ekki beðið tjónið vegna síldveiða.

Þá vil ég leyfa mér að vekja athygli á nokkrum misprentunum, lítils háttar þó. Ég tók t.d. eftir í grg., að í síðara bréfi skilanefndar, dags. 13. okt., er ýmist vitnað til bréfs eða grg. frá 27. sept. eða 26. sept., en mun eiga að vera 26. sept. Það eru fleiri þannig smávillur, sem hafa slæðzt inn í próförk og má sjálfsagt athuga til leiðréttingar í n., áður en n. hefur gengið frá frv.

Ég vil svo aðeins geta þess, að þetta frv. hefur verið sent til umsagnar bönkunum og Landssambandi ísl. útvegsmanna. Það hefur komið fram nokkur gagnrýni, en þó ekki veigamikil, frá þessum aðilum, en afrit af þeim bréfum hafa verið send hv. sjútvn.

Að lokum vil ég aðeins endurtaka það, að vegna þess að þetta mál er gamalkunnugt, þá hef ég ekki séð ástæðu til þess að gera þann veg grein fyrir því eins og um nýmæli væri að ræða. Því að sannarlega er málið það stórt, að ef það væri nú nýtt á Alþ., ætti Alþ. kröfu á ýtarlegri skýrslu um málið heldur en ég hef gefið hér.

Ég geri ráð fyrir, að um það lýkur þá verði það einhverjir, sem heltist úr lestinni af þeim, sem gert hafa út til þessa, og að einhverjir af útgerðarmönnum séu það vel stæðir, að þeir fái ekki hjálp eftir þessu frv. Og aðrir kunna kannske að vera það illa stæðir, að þeir telji ekki ástæðu til að óska eftir hjálp. Enn aðrir kunna að hafa rekið sinn útveg þannig, að þeir þyki ekki þess verðir að njóta aðstoðar þess opinbera í þessum efnum. En hins vegar vil ég mega vona, að útvegurinn í heild hafi gagn af þessu frv. og að með frv. takist að gera hreint fyrir dyrum í þessum efnum. Því að þess er sannarlega þörf. Það hefur verið óþolandi ástand, sem ríkt hefur í þessum málum að undanförnu — gersamlega óþolandi. Kröfuhafar á hendur útveginum hafa ekki getað sótt rétt sinn að lögum, og útgerðarmenn hafa ekki vitað, hvar þeir stóðu frá degi til dags, og allt hefur þetta haft áhrif í þá átt að sljóvga sjálfsbjargarviðleitni útvegsmanna og færa allt til verri vegar í þessum efnum á alla lund. Svona er það, eftir því sem málin blasa við frá mínu sjónarmiði.

Nú veit ég vel, að enda þótt takast mætti að gera sæmilega hreint í þessum efnum nú á þessari stund, þá fer því mjög fjarri, að með því sé búið að tryggja framtíð þessa útvegs, enda er það ekki ætlunin með þessu frv. Það er annað mál og þessu óskylt. Og ég vildi mega mælast til þess, að menn blönduðu því máli ekki of mikið saman við þetta mál. Það mál verður rætt hér á hæstv. Alþ., áður en við skiljum. En það er öllum til framdráttar, sem hlut eiga að máli, að þetta mál megi sigla hraðan byr gegnum þingið, eftir því sem auðið er um svo stórt mál. Og ég geri mér því meiri von um það sem öll málsatriði þessa máls eru öllum hv. þm. kunn, heldur en vera mundi, ef hér væri um eitthvert nýmæli að ræða.