16.11.1950
Neðri deild: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Hv. þm. Ísaf. talaði hér nokkur orð um málið út frá svipuðu sjónarmiði og fyrir tveim dögum. Ég vil ekki angra hv. þm. með því að heimta, að hann sýndi fram á, hvernig ástandið væri nú, ef hann hefði fengið að ráða og engin gengislækkun hefði orðið og pundið væri nú í 26 krónum. Ég hef ekki brjóst í mér til að bæta þeim áhyggjum á hann að fara fram á, að hann útskýri þetta fyrir hv. þm. Það ríkir misskilningur á milli okkar hv. þm. Ísaf. um skilning á frv. Ég benti á, að ef niður væri felld síðasta mgr. 1. gr. frv., þá væri opnuð leið fyrir stjórn skuldaskilasjóðs til að gefa eftir að fullu kröfur ríkissjóðs á hendur þeim mönnum, sem færu frjálsu leiðina, en ekki þeim, sem færu í þvinguð skuldaskil, og er þannig hinum tveim aðilum mismunað, eftir því hvort þeir fara í frjáls eða þvinguð skuldaskil, og man ég ekki betur en L.Í.Ú., eða n., sem hann átti sjálfur sæti í, gengi ekki lengra en vilja láta fella niður þessa mgr. Ef menn fara frjálsu leiðina, þá hefur ríkissjóður ekki af þeim annan bagga en þann að gefa þeim eftir skuldir við ríkissjóð, en þeir væru ekki þátttakendur í því 20 millj. kr. láni, sem ríkissjóður ætlar til hjálpar þeim, sem fara í þvinguð skuldaskil. — Varðandi deilurnar um kröfuhafa, þá skal ég ekki segja mikið, en hv. 2. þm. Reykv. virtist telja aðalkröfuhafana vera olíuhringa og því um líkt. Ég man ekki til, að L.Í.Ú. bæri fram kröfur um breyt. á frv., sem bentu til, að það teldi frv. meingallað, og eftir því, sem form. sjútvn. hefur skýrt frá, þá hafa fulltrúar L.Í.Ú. í raun og veru fallið frá óskum sínum um breytingar á frv., öðrum en þeim, að þessi mgr., sem ég ræddi um, falli niður, og svo það, sem hv. þm. Ísaf. bar fram, að greiðsluhæfni skuldabréfanna yrði víðtækari en gert er ráð fyrir samkv. frv. Ég man ekki fyrir víst nema þriðja óskin væri um að færa aftur um 3 ár gjaldfallnar afborganir til fiskimálasjóðs, í stað þess að bæta þeim ofan á aðrar afborganir. Ég játa, að það er léttir fyrir útveginn að færa þessar afborganir aftur, en það skiptir ekki öllu máli fyrir útveginn, ef hann réttir við á annað borð, hvort hann greiðir upp lánið á 15 eða 20 árum. Hv. þm. vildi gefa mér allar hinar beztu og fegurstu tilhneigingar gagnvart þessu frv., en sagði, að aðrir hefðu haft áhrif á mig til hins verra. Ég veit ekki, hvort leið sú, sem ég vildi í fyrstu fara, hefði verið betri og orðið útveginum að meira gagni, og ég hygg, að þetta frv. komi útveginum að mestu haldi og er byggt á rökréttastri hugsun; að vísu er þetta frv. samkomulagsatriði milli stjórnarflokkanna, og þeir eiga undir þjóðbankann að sækja með lán í þessu skyni, svo að ekki er óeðlilegt, að hans sjónarmið sé líka að nokkru tekið til greina, þó að hv. 2. þm. Reykv. vildi leggja slíkt nokkuð undarlega út. Ég vil segja það, að hefði ég einn átt að semja þetta frv., þá hefði það verið nokkuð öðruvísi, en að vel athuguðu máli hefði ég með góðri samvizku getað fallizt á allt í því, og í aðalatriðum er mitt sjónarmið ríkjandi í því. Ef það hefði komið í ljós, að eftirgjöf á skuldunum við ríkissjóð hefði leyst viðjarnar af útgerðinni, þá hefði ég ekki séð eftir þeim eftirgjöfum, en eftirgrennslanir leiða í ljós, að slík eftirgjöf nær ekki þeim tilgangi, sem frv. markar.

Ég sé ekki ástæðu til að svara ræðu hv. 2. þm. Reykv. miklu. En ég verð að segja, að það er langt síðan ég hef hlustað svo gaumgæfilega eftir því, sem hann hefur sagt, því að menn eru orðnir langleiðir á þessum glamurkenndu ræðum þessa hv. þm., án þess þó að ég sé að segja, að menn séu orðnir leiðir á hv. þm. sjálfum persónulega. En nú kom þó eitt nýtt fram í ræðu hans. Ég sá nýjan þátt í eðli hans, því að hann var að brigzla mér um, að ég bæri þetta frv. fram tilknúinn af Landsbankanum vegna minna eigin skuldaskipta við bankann. Ég veit, að hv. þm. sárskammast sin fyrir þetta. Hann veit, að ég þarf ekki að leita til Landsbankans. Ég hefði af fornri viðkynningu við þennan hv. þm. ekki búizt við, að hann hefði sagt þetta, þó að hann hefði meint þetta, hvað þá þegar ég veit, að hann meinar ekkert með þessu og veit, að þetta er rangt. Það er ekki ætlunin að taka hér upp langar umr. um bankana, og ég veit ekki, hvernig þeir reynast, ef öll kurl koma til grafar, og hver verður dómurinn um íslenzka banka. Íslenzkt atvinnulíf er ákaflega stopult. Sjávarútvegurinn, sem er stærsta atvinnugrein okkar, er miklu stopulli og misærasamari atvinnuvegur heldur en flestar menningarþjóðir byggja afkomu sína á, og bankarnir eru eins konar samnefnari af slíkum misserasömum atvinnuvegi. Ég hef sem bankaráðsmaður Landsbankans talið, að bankinn færði reikninga sína skakkt og að ekki eigi að bókfæra vexti af skuldum, sem eru tapaðar, eða líklegt megi telja, að séu tapaðar, heldur beri að færa þetta á sérstakan reikning, þangað til ljóst er, hvort skuldunaut sé mögulegt að greiða a.m.k. vexti fyrir eitt ár. En nú er vangoldnum vöxtum bætt ofan á stofnlánið og endirinn verður sá, að skuldunauturinn getur ekkert greitt. Ég treysti mér ekki til að dæma um það, hvort einhver óveruleg vaxtalækkun sé réttmæt, en hitt er aðalatriðið, að hagur Landsbankans er ekki með slíkum blóma og hv. 2. þm. Reykv. vill vera láta. T.d. hefur Útvegsbankinn orðið að taka hærri vexti af lánum sínum til að geta talið fjárhag sinn forsvaranlegan. Ég veit ekki, hvort einhverjar smávægilegar vaxtalækkanir hjá Landsbankanum gætu verulega bætt hag útgerðarinnar. Slíkt væri vitanlega hugsanlegt, ef útgerðin greiddi aðeins 21/2 vexti af lánum sínum, — en heldur nokkur því fram í alvöru, að bankinn geti lánað útgerðinni með þeim kjörum, eins og það er áhættusamt? Ég vil spyrja hv. 2. þm. Reykv., hvort hann sem fulltrúi í bankaráði Landsbankans eða hvort flokksmenn hans hafi gert till. um slíka vaxtalækkun. Ég man ekki eftir svona ræðum hjá honum í bankaráði Landsbankans. Ef ég ætti að taka ræðu hv. þm. alvarlega og svara henni lið fyrir lið, þá mundi það taka a.m.k. einn til tvo klukkutíma, en til slíks er hvorki ætlazt af honum sjálfum né öðrum. En ég skil ekki, hvað slík ræðuhöld eiga að þýða hér í þinginu í sífellu bæði í tíma og ótíma, — og venjulega í ótíma. Ég var að leita eftir einhverju atriði, sem síðan væri hægt að svara og ræða á málefnalegum grundvelli, en ég gat hvergi fótað mig. Hann hóf upp mikinn harmagrát yfir því, að allt frelsi væri tekið af fiskframleiðendum og á þessum málum væri einokunarstjórn, sem seldi framleiðsluna, að framleiðendum forspurðum, og að í stjórn S.Í.F. væri aðeins einn umboðsmaður bátaeigenda. Hv. þm. veit manna bezt, að ríkisstj. er ekki leyfilegt að skipta sér af þessu, ef 65% fiskframleiðenda taka saman og mynda félag með sér og falla þá hin 35% undir þennan félagsskap. Þessir menn kjósa sér síðan sjálfir stjórn. Ég var á fundi í sambandinu fyrir nokkru síðan, og bar ég þá í tal, hvort ekki væri rétt að hafa tvö sambönd vegna rógmælgi þeirrar, sem nú væri uppi um sambandið, og þá mundi einnig myndast nokkur samkeppni, sem mundi hindra, að þessi þörfu samtök kölkuðu með aldrinum, og sú hugsjón, sem í upphafi var þess valdandi, að félagsskapurinn var stofnaður, þroskaðist með samkeppninni. En mér virtist, að menn vildu ekki ljá þessu eyra, og það voru fleiri en einn, sem sögðu: Við viljum þessi samtök öflug og sterk og viljum standa saman sem einn til að ná því markmiði. — En svo kemur hv. 2. þm. Reykv. hér fram með belgingi og talar um einokun. Er þessi þm. orðinn svona vanur við að slá hausnum við steininn, að hann sé gersamlega hættur að hugsa, og láti hrærigrautinn aðeins buna út úr sér án nokkurs hemils og sé steinhættur að nota sínar góðu gáfur? En málflutningur hans var allur á þá lund. Ég verð að segja, að ég var steinhissa og undrandi á þessu. Ég skrifaði hjá mér, að hann sagði, að ríkisstj. væri að telja mönnum trú um, að hér væri hallæri, en girti siðan fyrir, að borgararnir gætu sýnt, að svo væri ekki. Það eru einkum þrjár stofnanir, sem annast söluna á fiskinum, sem eru allar frjáls samlög, það er að segja S.Í.F., S.Í.S. og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, og svo fiskiðjuver ríkisins. Þessar stofnanir fara með umboð framleiðenda og annast söluna á fiskinum í skjóli frjálsrar samkeppni. Þessar stofnanir senda óskir sínar um útflutningsleyfi, og það fellur undir mitt ráðuneyti að veita þau, en ekki utanríkisráðuneytið eins og löngum er látið skína í, þegar liggur á að sverta hæstv. utanrrh., og ég held mér sé óhætt að segja, að það hafi aldrei staðið á fullri viðleitni minni til að greiða fyrir slíkum óskum. Þannig var nýlega leitað leyfis, eins og hv. 2. þm. Reykv. veit manna bezt, til að selja 1000 tonn af hraðfrystum fiski til Ungverjalands, og það stóð ekki á mér að leyfa þá sölu, enda þótt taka yrði upp í þetta talsvert magn af hveiti, sem hvorki var meira né minna en 44,8% dýrara en hveiti, sem fá má frá Kanada. Annars býst ég nú við, ef við yrðum við þeim óskum að leyfa frjálsan innflutning í vöruskiptum, þá yrðum við nú að taka hveitið og setja í einhvern þeirra vöruflokka, sem ekki yrði heimilt að flytja inn án leyfis. (EOI: Bjó hæstv. ráðh. sjálfur til þá yfirlýsingu, sem útvarpið flutti frá ríkisstj. 13. sept. s.l., sem svar við viðtali við mig um markaðsmálin?) Nei, hún var ekki samin af mér. (EOl: Hefur hæstv. ráðh. þá ekki með sjávarútvegsmálin að gera?) Jú, en ekki utanríkissamninga, það fellur undir ráðuneyti hæstv. utanrrh. Þetta hélt ég að hv. þm. vissi nú og þyrfti ekki að spyrja. (EOI: En veit hæstv. ráðh., hvað hann er að segja?) Já, en mér kemur nokkuð ókunnuglega fyrir, að til viðbótar venjulegum áhugamálum hv. 2. þm. Reykv. virðist nú kominn brennandi áhugi fyrir því, að útflytjendur megi selja vöru sína frjálst úr landi, hverjum sem er og fyrir hvað sem er. Ég skal ekki leiða neinum getum að, hvernig á þessum áhuga stendur, en þetta er góð viðbót við umræðuefni eins og bankavaldið og heildsalana. (EOI: Hefur hæstv. ráðh. aldrei orðið var við þennan áhuga áður?) Nei, hv. þm. bar allt annað fyrir brjósti, er við störfuðum sem mest saman. Annars ætla ég ekki að fara að rekja ævisögu hv. þm., þótt það kynni að vera skemmtileg saga. En ef það er svo, að hann beri í brjósti sérstakan áhuga fyrir þessu nú orðið, þá get ég fullvissað hann um það, að öll ríkisstj. er einhuga um að hlynna að hverjum þeim viðskiptum og hvar í löndum sem er, sem almenningi geta talizt til hagsbóta. Og ef hann óttast, að hans fyrirtæki verði þar höfð útundan, þá hefur hann þá sönnun fyrir því gagnstæða, er ég nefndi áðan. Annars mætti það nú æra óstöðugan, ef ég ætti að fara að rekja ræðu hv. þm. lið fyrir lið, enda veit ég, að hvorki hann né aðrir ætlast til þess.