17.10.1950
Efri deild: 4. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

7. mál, skólastjóralaun og kennara við barnaskóla

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og kunnugt er, greiðir ríkissjóður uppbót á laun starfsmanna ríkis og bæja og hefur greitt árið 1949 og þetta ár, fyrst samkv. þál. og síðan samkv. ákvæði 19. gr. fjárl. fyrir árið 1950. Nú er svo með launagreiðslur til kennara, að þær fara fram að sumu leyti úr ríkissjóði og að sumu leyti úr bæjar- og sveitarsjóðum, en ekkert er tekið fram um það, hvernig með þann hluta skuli farið, sem .greiddur er úr bæjar- og sveitarsjóðum. Nú sýndi sig, að sum bæjar- og sveitarfélög greiddu uppbætur, en sum ekki, og þótti því rétt að lögbjóða, að þessar uppbætur skyldu greiddar úr hlutaðeigandi bæjar- og sveitarsjóðum, enda gert ráð fyrir því, þegar þessi almennu ákvæði voru sett, að uppbætur kæmu einnig á laun þessara manna, þó að þeir raunar að nokkru leyti fengju laun sín annars staðar frá. Um þetta fjalla brbl. þau, sem sett voru, og óska ég, að þessu máli verði vísað til fjhn. að lokinni þessari umr., því að ég skoða þetta sem launamál.