11.12.1950
Neðri deild: 36. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (2125)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Síðan þetta mál var til 1. umr. í hv. deild, hefur sjútvn. tekið frv. til athugunar og rætt það á nokkrum fundum. Á fund n. hafa komið fulltrúar frá L.Í.Ú. og ræddu þeir þær breytingar, er þeir töldu nauðsynlegar á 1., 3. og 9. gr. frv.

Nú síðar, skömmu áður en nál. var afgr. í n. og brtt. ákveðnar, barst henni bréf frá L.Í.Ú. eftir að fundur þess hafði verið haldinn, þar sem rædd voru nokkru fleiri atriði en áður höfðu komið til umræðu, og hefur n. einnig athugað þau. Sömuleiðis hefur n. talað við hæstv. ráðh., sem stendur að flutningi þessa frv.

Niðurstaðan af athugunum n. er sú, að hún flytur við frv. nokkrar brtt. á þskj. 303, og hafa ekki aðrar brtt. komið fram enn, hvað sem kann að verða síðar.

Áður en ég skýri brtt. á þskj. 303, vil ég leyfa mér að rifja upp í örfáum orðum aðalefni þessa frv., þ.e.a.s. í hverju sú aðstoð við útvegsmenn, sem það fjallar um, er fólgin í aðalatriðum. Er þá fyrst og fremst um þá útvegsmenn að ræða, sem stunduðu síldveiðar á tímabilinu 4945–1950 fyrir Norðurlandi, auk þess sem fleiri, er sérstaklega stendur á um, koma einnig til greina.

Aðstoð sú, sem hér um ræðir, er aðallega tvenns konar. Í fyrsta lagi er í 1. gr. frv. gert ráð fyrir, að eftir verði gefin að meira eða minna leyti 6 aðstoðarlán, sem ríkissjóður hefur veitt útvegsmönnum á undanförnum árum eða ábyrgzt greiðslu á og síðan tekið að sér. Lán þessi nema samtals 181/2 milljón króna. — Þetta er fyrsta meginatriði frv.

Annað meginatriði þess er svo það, að í 2. kafla er gert ráð fyrir, að ríkissjóður ábyrgist allt að 20 millj. kr. lán til að greiða fyrir skuldaskilum útvegsmanna. Gert er ráð fyrir, að lán þessi verði aðallega veitt í skuldabréfum, en án efa verður þó að veita nokkuð mikið í peningum einnig, þar sem margt, sem hér er um að ræða, verður naumast greitt öðruvísi.

Í þriðja lagi er svo það, að þeir útvegsmenn, sem fá eftirgjafir, eiga að fá greiðslufrest á afborgunum á stofnlánum úr Stofnlánadeild sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóði Íslands, sem þeir hafa ekki getað greitt undanfarið, en þau nema sem næst 7 millj. kr. í dag. Er gert ráð fyrir, að þessi greiðslufrestur verði veittur þannig, að þetta jafnist niður á þau ár, sem eftir eru af lánstímanum. Þetta er þriðja meginatriði frv. Ég vildi aðeins rifja þau stuttlega upp, og mun nú gera grein fyrir brtt. sjútvn.

Fyrsta brtt. n. á þskj. 303 er við 1. gr. frv. Er þar lagt til, að gerðar verði þrjár breytingar á gr. Fyrsta breytingin, á a-lið, er gerð til samræmingar á orðalagi við 2. gr. og er um það, að á eftir orðunum „síldveiðar stunduðu“ komi: fyrir Norðurlandi. — Breytingin, sem lögð er til í b-lið, stafar af misrituðu ártali, og er lagt til, að ártalið „1947“ falli niður. Það varðar lán, sem veitt voru á vertíð til áframhaldandi rekstrar, og voru þau veitt á árunum 1948 og 1949, en ekki árið 1947. Hér er um misritun eða misprentun að ræða á einhverjum tíma, og er þetta því engin efnisbreyting.

C-liður 1. brtt. er hins vegar nokkur efnisbreyting. Þar er lagt til, að niðurlag 1. gr. falli niður. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Eftirgjöf samkvæmt þessari grein skal einnig heimil, þó veðtrygging kunni að vera fyrir láninu, — og svo fellt úr: „en skal þó ekki nema hærri hundraðshluta en eftir verður gefinn að meðaltali þeim útgerðarfyrirtækjum, sem aðstoð fá til opinberra skuldaskila samkvæmt lögum þessum.“ — Hér er átt við eftirgjöf á svokölluðum frjálsum skuldaskilum, og þótti réttara að setja ekki þessa reglu og láta ákvörðun um hundraðshlutann heldur vera á valdi þeirrar stjórnar, sem með skuldaskilin fer. Er brtt. þannig í því fólgin, að stjórn skuldaskilanna verður samkv. henni ekki bundin við það að gefa aldrei eftir meira en þennan hundraðshluta, heldur verður það á hennar valdi að kveða á um það hverju sinni.

Þá er önnur brtt. n. á þskj. 303, við 10. gr. Það stendur svo í 10. gr., að lán úr skuldaskilasjóði megi veita eigendum vélskipa og línuveiðigufuskipa, sem stundað hafa síldveiðar fyrir Norðurlandi einhvern tíma á árunum 1945–1950. Er hér í fyrsta lagi um orðalagsbreyt. að ræða til samræmis við orðalag annars staðar; en önnur breytingin er efnisbreyt. á þá lund, að í stað orðanna „eigendum vélskipa og línuveiðigufuskipa“ komi: eigendum eða útgerðarmönnum vélskipa eða línuveiðigufuskipa. — N. var bent á, að sumir stunda útgerð með vélskipum án þess að vera eigendur þeirra, og virðist ekki rétt að útiloka þá frá skuldaskilunum, ef þeir óska þeirra.

3. brtt. er svo við 12. gr., um gjalddaga lána úr skuldaskilasjóði. Í frv. er hann ákveðinn 1. maí, en n. leggur til, að hann verði 1. nóvember, en það er venjulegur gjalddagi á föstum lánum. N. þykir rétt, að hann verði hér hinn sami, enda hafa komið fram óskir um það af hálfu útvegsmanna.

4. brtt. er við 5. gr. frv. og er orðabreyting; — í stað „menn“ komi: umboðsmenn. — Er gert ráð fyrir, að stjórn sjóðsins geti skipað menn til að afla gagna varðandi lánin, og eru þeir á öðrum stað nefndir umboðsmenn; er lagt til, að það orð sé tekið upp hér.

5. brtt. er við 16. gr., í tveimur liðum. En þessir tveir liðir eru um sama efni, varðandi þá umboðsmenn sjóðsins, sem gert er ráð fyrir, að stjórn hans geti skipað samkv. 15. gr. Orðalag 15. gr. er þannig, að þar er aðeins um að ræða heimild til sjóðsstjórnarinnar til að skipa mennina, og er það í ósamræmi við orðalag síðar, þar sem gert er ráð fyrir, að þeir séu skipaðir. Samkv. brtt. er gert ráð fyrir heimild til skipunarinnar eingöngu, ef sjóðsstjórnin hefur talið þörf á. Í öðrum lið brtt. er að vísu önnur breyt. á atriði, sem mátti til að leiðrétta, þar sem í frv. er gert ráð fyrir, að sjóðsstjórnin fái álit umboðsmanna sinna um aðstöðu viðkomenda til vélbátaútgerðar.

6. brtt. er við 17. gr. og er í 3 liðum, a, b, c. Fyrsti liður brtt., a, er í rauninni aðeins leiðrétting, en b- og c-liðirnir eru hins vegar þess efnis, að síðasta málsgr. 17. gr. falli niður, en nýrri gr. bætt inn í, sem þá verður 18. gr. Hér er raunar ekki um efnisbreyt. að ræða, heldur er hér sett í sérstaka grein efni, sem nefndinni þótti ekki eiga heima í 17. gr., um það, hver ákveða skuli mat á skipum og fasteignum lánbeiðenda, en hin nýja grein, sem bætist við, er um það, hvernig það mat skuli endanlega ákveðið. Það er gert ráð fyrir því í grg., að þetta mat verði endanlega ákveðið af stjórn Skuldaskilasjóðs. Sjóðsstjórnin ákveður þá endanlega þetta verð á skipum og fasteignum lánbeiðenda, að fengnum upplýsingum og með samráði við umboðsmenn og matsmenn sjóðsins. Þessi ákvæði um endanlegt mat á eignum lánbeiðendanna eru gerð ýtarlegri í brtt. en í frv., og er þar vitnað í þær greinar, sem ákvæði um samsvarandi lán til skuldaskila standa í. En þetta atriði er nokkuð mikilsvert, þar sem gert er ráð fyrir, að upphæð lána þessara geti ekki farið fram úr 20% af virðingarverði eignanna, og í öðru lagi möguleikinn til að verða þessarar hjálpar aðnjótandi mjög háður þessu verði. Þessi matsákvæði eru gerð skýrari með því að færa þau í sérstaka grein út af fyrir sig með 6. brtt.

7. brtt. n. er við 18. gr. og er við það miðuð, að það er ekki skylt að skipa umboðsmenn eða virðingamenn, og því taldi n. ekki rétt orðalag frv. um það, hvenær stjórnin getur tekið ákvarðanir um það, hvort lánbeiðandi komi til greina við lánveitingu. Það getur farið svo, að þessir mats- og umboðsmenn hafi ekki verið skipaðir, og því taldi nefndin rétt að gera þarna smábreyt. á.

8. brtt. er við 20. gr. og er um það að fella niður nokkur orð í upphafi gr., sem n. telur, að ekki eigi við þarna, þar sem ekki er þörf á að semja frv. til skuldaskila fyrir þá menn, sem hafa fengið aðstoð samkv. 1. gr. frv.

9. brtt. er við 26. gr. og er um það, að aftan við gr. komi ný málsgr., sem hljóði svo, með leyfi hæstv. forseta: „Með kröfur ríkissjóðs samkv. 1.3. tölul. 1. gr. laga þessara má þó að fengnu samþykki ríkisstj. fara sem óveðtryggðar kröfur, þótt veðtrygging kunni að vera fyrir láninu.“ Í fyrstu gr. frv. er svo ákveðið, að eftirgjöf skuli einnig heimil, þó að veðtrygging kunni að vera fyrir láninu. Nefndin taldi, að naumast bæri að álíta, að þetta ákvæði ætti við annað en það, sem viðkemur 1. gr., og því þótti henni öruggara, að hér kæmu hliðstæð ákvæði um skuldaskilin. Þau ákvæði eru orðuð þannig, að það megi fara með þessi lán ríkissjóðs samkv. 1. gr. eins og önnur óveðtryggð lán, þótt veðtrygging kunni að vera fyrir láninu, en í upphafi 26. gr. er tekið fram, að samningur um skuldaskil hafi engin áhrif á þessar veðkröfur. Þessi ákvæði, sem n. vill setja, eru undanþáguákvæði um það, að þrátt fyrir ákvæðin í upphafi 26. gr. sé heimilt að fara með fyrrnefnd lán eins og óveðtryggð lán. Það er um þessi lán að segja, að sum eru tryggð með veði í skipi og sum með sjóveði, en það mun ekki ætlunin, að farið sé með þau lán sem veðlán, og því þótti nefndinni rétt að taka öll tvimæli af um að svo væri.

10. brtt. er aðeins orðalagsbreyt., og sé ég ekki ástæðu til að ræða hana.

Brtt. þær, sem n. hefur gert við þetta frv., eru ekki aðrar en þessar, en það er ýmislegt, sem n. hefur verið bent á, m.a. frá sjónarmiði útvegsmanna, og æskilegt hefði verið að breyta, en hún við nánari athugun hefur ekki séð sér fært að verða við. Skal ég nefna þar ákvæði 9. gr. um gildi skuldabréfanna til greiðslu á skuldum, þar sem svo er ákveðið, að skuldabréfin, sem Skuldaskilasjóður borgar með þeim mönnum, sem lán fá hjá honum, skuli .aðeins vera gjaldgeng með nafnverði upp í skuldir útvegsmanna sjálfra. Það hefði auðvitað verið æskilegt frá sjónarmiði þeirra, sem taka við þessum bréfum frá útvegsmönnum, að þeir hefðu getað fengið tryggt, að þeir fengju fullt verð fyrir þessi bréf. En það er hins vegar svo, að ástæður leyfa naumast, að þessi lán séu veitt í peningum, en ef skuldabréfin eru gerð gjaldgeng með nafnverði, þá er það svipað og lánið hefði verið veitt í peningum. En hins vegar má gera ráð fyrir, að mikill hluti þessara lána verði innleystur með peningum, með kaupum á hinni veðsettu eign og annarri lögveðskröfu, og dregur þetta úr ákvæðunum um skuldabréfin, sem sumum eru þyrnir í augum. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. atvmrh. muni ræða þetta atriði hér á eftir. — Ég skal svo ekki hafa þessa ræðu lengri, en vil vekja athygli á því, að þetta frv. hefur legið alllengi fyrir þinginu og því æskilegt, að afgreiðslu þess sé hraðað sem mest, því að full þörf er á, að framkvæmd þess hefjist sem fyrst.