12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Finnur Jónsson:

Ég saknaði þess, að hæstv. ráðh. svaraði þeirri fsp., sem ég beindi til hans út af væntanlegu mati á skipunum. (Forsrh.: Er það ekki allt í 17. gr.? ) Það er, eins og svo margt annað, komið undir framkvæmd stjórnar skuldaskilasjóðs og þeim áhrifum, sem hæstv. ráðh. vill hafa á framkvæmd málsins, hvernig fer um gagnsemi þessarar löggjafar.

Ég hef ekki haft tækifæri til að bera mig saman við hv. meðflm. minn um tilmæli hæstv. ráðh. um að taka aftur b- og c-lið 1. brtt. og 3. brtt., en ég þykist vita, að meðflm. minn mundi e.t.v. fús til þess að fylgja tilmælum hæstv. ráðh., ef það lægi fyrir, að hæstv. ráðh. vildi beita sér fyrir þessum brtt. í Ed. eða líkum brtt., — ef það á að skilja orð hans þannig, að hann muni vilja beita sér fyrir till. Ef svo væri ekki, mundi ég ekki sjá ástæðu til að taka þessar brtt. aftur. Ég tel, að þessar till. eigi alveg fullan rétt á sér og gangi að engu leyti á rétt neins, en séu til þess fallnar í heild að gera framkvæmd þessara l. heppilegri, bæði fyrir skuldareigendur og útgerðarmenn.

Nú, — ég vil þá í sambandi við síðustu brtt., um að fjölga í stjórn skuldaskilasjóðs um einn og gefa Landssambandi ísl. útvegsmanna kost á að tilnefna þar einn mann, sérstaklega taka fram, að ég tel það fulla sanngirniskröfu. Ég ætla ekki að fara að vekja hér upp neinar deilur, og ég bið menn fyrir alla muni að fara nú ekki að segja, að ég sé að stofna til einhvers metings milli útgerðarmanna og bænda, en mér dettur í hug í sambandi við þá löggjöf, sem verið var að afgreiða áðan, að þar var sveitarstjórnum falið að úthluta hjálpinni, og má vera, að það hafi verið eðlileg aðferð. Hér er aðeins farið fram á, að Landssamband ísl. útvegsmanna fái tækifæri til að tilnefna einn mann í fimm manna stjórn, sem ákveður, hvernig þessari hjálp er útdeilt, og ætti það að vera nokkur trygging fyrir því, að Landssambandið a.m.k. gæti fylgzt með því, hvað er að gerast, og gæti þá kannske orðið til þess að forðast misskilning og missagnir um framkvæmd málsins, þannig að hún gæti orðið ágreiningsminni og átakaminni en annars.

Ég vil vænta þess, að hæstv. ráðh. svari þessum fsp., sem ég beindi til hans út af því, hvort komið hefði eitthvað til mála, hvernig hagað yrði mati á skipunum í sambandi við afskriftirnar, og hvort skilja mætti ummæli hans þannig, að hann vildi beita sér fyrir þessum brtt., sem hann nefndi.