20.10.1950
Efri deild: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

7. mál, skólastjóralaun og kennara við barnaskóla

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þessu, um skyldu bæjar- og sveitarsjóða til að greiða uppbót á laun skólastjóra og kennara við barnaskóla, var vísað til fjhn. til umsagnar. Frv. þetta er lagt fram til staðfestingar á brbl., sem ríkisstj. gaf út i6. júní s.l. og voru bein afleiðing af ályktun Alþ. frá fyrra ári um uppbætur á laun starfsmanna ríkisins, og fjárlagaatriði á þessu ári. Það hefði mátt ætla, að fjhn. hefði einróma lagt til, að frv. verði samþ., en svo varð ekki. N. klofnaði og meiri hl. skilar áliti á þskj. 40, en minni hl., hv. þm. Barð., á þskj. 41. Meiri hl. lítur svo á, að það sé eðlilegt og sanngjarnt að greiða barnakennurum og skólastjórum barnaskólanna uppbætur á þann hluta launa þeirra, sem greiddur er úr sveitar- og bæjarsjóðunum, alveg eins og greiddar eru uppbætur á hinn hluta launanna og alveg eins og aðrir kennarar fá uppbætur á öll sín laun. Ég var því mótfallinn að greiða uppbætur á laun starfsmanna ríkisins og taldi það óeðlilegt og óréttlátt miðað við almenna fjárhagsafkomu fólksins í landinu, en eigi að síður tel ég að barnakennarar eigi að njóta sama réttar og aðrir kennarar og aðrir starfsmenn ríkisins, þótt sá losaraháttur sé á því hvað snertir bæjar- og sveitarsjóðina, að þeim ber að greiða nokkurn hluta launanna. Sveitarsjóðir greiða kennurum hreppanna 1/4 af gömlu grunnlaununum og bæjarsjóðir kennurum í bæjum 1/3 af þessum gömlu grunnlaunum. Ég sé ekkert réttlæti í því, að þessir lægst launuðu kennarar í landinu njóti ekki alveg sömu uppbóta á öll sín laun og aðrir kennarar. Hvers vegna ættu þeir, sem starfa við heimiliskennslu og í barnaskólum í bæjum og kauptúnum, síður að fá fullar uppbætur en hinir, þó að laununum sé öðruvísi hagað? Minni hl., hv. þm. Barð., hefur lagt til, að frv. sé vísað frá með rökstuddri dagskrá, og mér skilst af þeirri ástæðu, að hann sé á móti uppbótum til starfsmanna ríkisins, og telur ekki hægt að skylda sveitarsjóðina og bæjarsjóðina með l. til að greiða uppbætur á þau laun, sem hafa veríð greidd áður en l. gengu í gildi, en vitanlega er ekki nema fyrir lögfræðinga að skera úr þessu. Ég hef spurt lögfræðing um þetta, og hann hefur ákveðið látið í ljós, að hann líti svo á, að þessi lagasetning, eins og hún hér er hugsuð í frv., geti staðizt, þar sem þetta er réttlætismál og þar sem sýnist vera auðvelt að skýra lagasetninguna á þann hátt, að þó að launauppbætur séu miðaðar við liðinn tíma, þá sé greiðsluskyldan aðeins fyrir líðandi stund, en uppbætur vegna vangreiðslu fyrr á tímum. Dagskráin felur það í sér, að skorað er á Alþ. að breyta launal. Það er annað mál og kemur ekki þessu atriði við, því að það mundi á engan hátt leiðrétta það ósamræmi, sem á að leiðrétta með frv. þessu og leiðrétt var með brbl., og það má benda á það, að til voru sveitarfélög, sem höfðu greitt þetta áður en brbl. voru sett, og það er vitað, að ýmis sveitarfélög hafa greitt þetta síðan brbl. voru sett, og ef þetta frv. er fellt og l. numin úr gildi, þá mundi skapast sú grautargerð að því er þetta snertir, að það væri Alþ. lítið til sóma. Þá mundi verða að athuga það sjónarmið, hvort ekki ætti að endurgreiða það, sem búið er að greiða, og þá mundu sumir missa af þeirri réttarbót, sem brbl. sköpuðu þeim. Ég sé þess vegna ekki annað en það sé sjálfsögð skylda Alþ. samþ. þessi l., og vil ég fyrir hönd meiri hl. fjhn. skora á hv. d. að samþ. frv.