12.12.1950
Neðri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Ég lýsi ánægju minni yfir því, að hv. flm. hafa tekið till. sínar aftur. — Varðandi tilmæli hv. þm. um, að ég hlutaðist til um, að sjóðsstjórnin fylgdi vissum reglum í mati á skipunum og teknar yrðu til greina óskir Landssambandsins, er fyrst það að segja, að ég veit ekki sjálfur fyrir víst, hvaða óskir Landssambandið hefur í þessum efnum. En auk þess vil ég gera þá játningu, að þegar slík stjórn er skipuð mönnum, sem hafa traust ríkisstj. og bankanna annars vegar, og þar sem enn fremur verður svo væntanlega bætt inn manni frá Landssambandinu, þá er nú mitt ráðríki ekki meira en það, að ég hef ríka tilhneigingu til þess að láta þessa menn ráða málunum, sem þeir eru settir til að fjalla um og hafa miklu meiri skilyrði til að dæma réttilega en maður, sem er önnum kafinn við önnur störf og hefur þess vegna verri aðstöðu til að dæma réttilega, hvað skynsamlegt er. Þetta er ekki því til fyrirstöðu, að ég reyni með ánægju að koma því að, sem mér finnst skynsamlegast, að svo miklu leyti sem ég hef vit á því máli, en úr því verður reynslan að skera.