15.12.1950
Efri deild: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft þetta mál til meðferðar á einum fundi. Vannst ekki tími til að hafa um það langa rannsókn, þar sem málið var nýkomið til n. Hefur það verið lengi í Nd., og hefur lítils háttar breyt. verið gerð á því þar. Enn fremur lá fyrir brtt. á þskj. 380 frá atvmrh., og mun henni ætlað að vissu leyti að vera til uppfyllingar nokkurs hluta óska fram kominna frá útvegsmönnum fyrir munn þeirrar samkomu, sem þeir hafa, Landssambands ísl. útvegsmanna. Nefndarmenn voru að vísu ásáttir um það, að þetta mál yrði fram að ganga, en nokkurra athugasemda gætti þó og þá sérstaklega varðandi þau atriði, er Landssamband ísl. útvegsmanna hafði gert aths. við. Samt sem áður tók n. ekki að sér sem heild að gera brtt. við frv., en allir nm. voru ásáttir um það, að ef brtt. kæmu fram, þá hefðu einstakir nm. rétt til að greiða atkv. svo sem þeim sýndist þrátt fyrir samþykki þeirra um að veita málinu gengi. Það, sem athugasemdir komu helzt fram við, var lánstíminn, neitunarvald einstakra stjórnarmeðlima skuldaskilasjóðs, sem fram kemur í brtt. hv. atvmrh., og svo gjaldeyrisgildi sjálfra skuldabréfanna, sem ætlazt er til, að nota megi til að borga með þær skuldir, sem um semst að greiða á þann veg. Í því frv. um þau skuldaskil, sem áttu sér stað 1945, þá voru skuldabréfin ekki aðeins gjaldmiðill í höndum útvegsmanna gegn kröfuhöfum þeirra, heldur nokkru rýmra.

Ég hef nú drepið á þær helztu aðfinnslur, sem komu fram, og ég hafði vænzt þess, að hæstv. atvmrh., sem þessi mál heyra undir, yrði hér viðstaddur og mætti þá e.t.v. svara, ef hann gæti gefið skýringu á vissum atriðum, sem nefndarmenn vildu við hann ræða. — Ég þarf í rauninni ekki að hafa þessi orð fleiri, það hefur þegar verið sagt frá því, að komið hafa fram brtt., og ég sé, að einn nefndarmanna hefur kvatt sér hljóðs nú þegar. En mér þætti það æskilegt, ef hæstv. atvmrh. gæti séð sér fært að vera hér viðstaddur þessa umr. í dag. (GJ: Hæstv. atvmrh. liggur veikur í dag.) Ég ætlaði að segja, að ef fært hefði verið, að hann væri viðstaddur þessa umr., þá hefði það verið æskilegt. Frv. þetta er gert til að létta undir með þeim útvegsmönnum, sem eru í kröggum, en til þess að sú aðstoð geti orðið sem mest, þá er vandinn, hvernig á þessum málum verður haldið í framtíðinni.