15.12.1950
Efri deild: 41. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Þó að ég hafi, ásamt öðrum nm. í sjútvn:, skrifað undir nál., þar sem lagt er til, að frv. verði samþ., þá vil ég taka það skýrt fram, að ég tel, að ekki felist í þessu frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 337, nein fullnægjandi aðstoð við bátaútveginn, sem frv. þó fjallar um. Eins og hv. þdm. er þegar kunnugt, þá fjallar þetta frv. aðeins um svokölluð skuldaskil bátaútvegsins. Það felur hins vegar ekki í sér neinar þær ráðstafanir, sem nauðsynlegt er að gera til þess að tryggja það, að þessi þýðingarmikli atvinnuvegur okkar geti starfað á fjárhagslega heilbrigðum grundvelli áfram. En það er höfuðatriði þessa máls og það, sem útvegsmenn mundu miklu heldur hafa óskað eftir að tekið yrði til alvarlegrar meðferðar og ákvörðunar Alþ. heldur en skuldaskilin aðeins út af fyrir sig. Og ég hygg, að a.m.k. talsverðum hluta útvegsmanna séu alls ekkert viðfelldin ákvæðin um skuldaskilin út af fyrir sig, sízt af öllu hin lögþvinguðu skuldaskil, sem felast í II. kafla frv. Hæstv. atvmrh. viðurkenndi þetta að vísu í framsöguræðu sinni fyrir þessu frv. hér í þessari hv. d. og bað menn að blanda ekki þessu tvennu saman. Og ég verð að gera ráð fyrir, þó að ekki felist í þessu frv. nein ákvæði, sem lúta að þessu meginviðfangsefni, sem ég áðan nefndi, þá geti þessu þingi ekki orðið lokið svo, að það mál verði ekki tekið til meðferðar. Og gefst þá - þó að það verði ekki fyrr en eftir þinghlé — tækifæri til þess að ræða það mál frekar en nú verður tækifæri til. Að vísu er það skoðun mín, að full þörf hefði verið á því að draga það ekki fram yfir áramót. Því að ef vetrarvertíð, t.d. hér á Suðvesturlandi, á að hefjast á eðlilegum tíma, þá hefði áreiðanlega verið þörf á því, að þessi mál hefðu verið afgr. fyrir jólahléið, svo að útvegsmenn hefðu vitað, á hvaða grundvelli þeir kæmu til með að geta starfað, þegar sú vertið ætti að hefjast. En ég skal samt sem áður ekki fara að ræða þá hlið málsins frekar, en vil aðeins leyfa mér að leggja hér fram brtt., sem við hv. 6. landsk. þm. og ég höfum komið okkur saman um að flytja við frv., eins og það nú liggur fyrir. Það hefur ekki unnizt tími til þess að prenta þessar brtt., og verður því að láta nægja að leggja þær fram skriflega. Ég var einmitt að skila þeim í prentun, þegar þessi fundur hófst, og ég komst á snoðir um, að þetta mál átti að taka fyrir hér, svo að ég afturkallaði þær og legg þær fyrir hér skriflega.

Þessar brtt., sem við flytjum hér víð frv., eru í fyrsta lagi við 3. gr. þess, varðandi þann frest, sem á að gefa á afborgunum til Stofnlánadeildar sjávarútvegsins og Fiskveiðasjóðs Íslands. Eins og frv. liggur fyrir nú, þá er gert ráð fyrir því, að þeim afborgunum til þessara stofnana, sem nú eru í vanskilum hjá miklum fjölda smáútvegsmanna, verði dreift niður á þann tíma, sem eftir er af lánstímanum, þannig að afborganir og vextir þeirra ára, sem eftir eru, hækka hlutfallslega og jafnt fyrir hvert ár við það. Eins og fjárhag fjölda margra útgerðarmanna þessara vélbáta er nú háttað, eftir þau aflaleysisár, sem verið hafa á síldveiðunum undanfarið og leitt hafa til þess, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, að þessir menn hafa ekki getað staðið við skuldbindingar sínar með afborganir og vexti þessara lána, þannig að þetta hefur safnazt algerlega fyrir nú um þrjú ár, þá virðist mér það nokkurn veginn augljóst mál, að ekki verði nokkurt vit, viðkomandi þessum útvegsmönnum, að ætla þeim að bæta þessu á sig á næstu árum, a.m.k. ef ekki raknar mjög úr um árferði frá því sem verið hefur, og að þess vegna væri eðlilegt og að mínu áliti nauðsynlegt að stíga sporið lengra og lengja lánstímann um þau þrjú ár, sem hér er um að ræða. Ég held, að það ætti ekki að verða neitt ofvaxið lánsstofnunum þessum, sem þarna eiga hlut að máli, þó sú aðferð verði höfð á lánstímanum, að hann verði framlengdur um þessi þrjú ár. Ég geri ráð fyrir, þar sem fyrir þessum lánum eru yfirleitt veð og lánin yfirleitt alveg tryggð, þannig að lánsstofnanir fá þau aftur áður en lýkur, að það skipti þess vegna ekki máli fyrir þær, þó að þau dragist þessum þremur árum lengur, en hins vegar skiptír það miklu máli fyrir útvegsmenn, að þeir fái þennan frest, en þetta verði ekki lagt ofan á afborganir næstu ára, eins og frv. gerir ráð fyrir.

1. brtt., sem við leggjum fram, fjallar sem sagt um það, að lánstíminn verði framlengdur um þrjú ár í staðinn fyrir að jafna þessu niður á þau ár öll, sem eftir eru af lánstímanum.

Í öðru lagi flytjum við brtt. við 3. gr. frv., um að á eftir fyrri málsgr. hennar komi ný málsgr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er stjórn skuldaskilasjóðs að ákveða, að greiðslufrestur samkv. 1. málsgr. þessarar greinar skuli einnig veittur þeim útgerðarmönnum, sem síldveiðar stunduðu fyrir Norðurlandi 1945–1950 og hafa ekki fengið aðstoðarlán, enda telji sjóðsstjórnin þá eiga erfitt með greiðslu“.

Hér er um það að ræða, að sá gjaldfrestur, sem gert er ráð fyrir í frv. og við flm. brtt. viljum hafa öðruvísi en frv. mælir fyrir um, verði látinn ná til þess, að sjóðsstjórninni sé heimilt að láta gjaldfrestinn einnig ná til þeirra útvegsmanna, sem barizt hafa áfram með sína útgerð og eru að vísu mjög aðþrengdir fjárhagslega, en hafa þó ekki orðið aðnjótandi þeirra aðstoðarlána, sem verulegur hluti útvegsmanna hefur þó fengið á undanförnum árum. Við framsögu málsins hér í hv. d. gat hæstv. atvmrh. þess, að hann vildi fallast á það og mundi flytja um það brtt. sem hann og hefur gert. 1. brtt. á þskj. 380 fjallar einmitt um þetta efni. Svo að því leyti erum við flm. þessarar brtt. sammála hæstv. atvmrh. um það, að greiðslufrestur verði einnig látinn ná til þessara manna. En munurinn á brtt. okkar annars vegar og brtt. hæstv. atvmrh. hins vegar er sá, að hæstv. ráðh. bindur þetta því skilyrði, að stjórn skuldaskilasjóðs sé öll sammála um það, að viðkomandi maður skuli fá þennan gjaldfrest, þó að hann hafi ekki notið aðstoðarláns. Nú er það svo, að samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að tveir af þeim mönnum, sem sæti koma til með að taka í stjórn skuldaskilasjóðs, verði tilnefndir af bönkum, annar af Landsbankanum og annar af Útvegsbankanum. Sem sagt, tveir af þessum stjórnarnefndarmönnum skuldaskilasjóðs eru fulltrúar aðalkröfuhafanna gagnvart útvegsmönnum. Og án þess að það þurfi að takast sem nokkur sérstök tortryggni í garð þessara lánsstofnana, þá er þó ekki hægt að verjast því, að hjá þessum fulltrúum, öðrum eða báðum, gæti komið fram einhver tilhneiging til þess að hindra það, að ákveðinn útvegsmaður, sem sækti um aðstoð, fengi þann gjaldfrest, sem þarna er um að ræða. Þá er ekki hægt að verjast því að athuga, að annar þessara fulltrúa eða báðir gætu hindrað, að útvegsmenn fengju gjaldfrest, og okkur sýnist engin ástæða til að gefa bönkunum slíkt neitunarvald í stjórn skuldaskilasjóðs, þar sem það gildir ekki um neinar aðrar ákvarðanir hennar, og því rétt, að hreinn meiri hluti gildi um það sem annað, en ekki að einn af fimm geti hindrað það, þó að hinir stjórnarmeðlimirnir mæli með því, að gjaldfrestur sé veittur. Munurinn á till. okkar og hæstv. ráðh. er því sá, að við viljum, að meiri hl. ráði, en hjá honum getur einn maður hindrað þetta.

Þá er í þriðja lagi brtt. við 5. gr., en hún fjallar um það, að skilyrði fyrir aðstoð samkv. I. kafla l. þessara sé, að birt verði í Lögbirtingablaði áskorun til lánardrottna og ábyrgðarmanna aðstoðarbeiðanda um að lýsa kröfum á hendur honum fyrir stjórn skuldaskilasjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu auglýsingar, að viðlögðum kröfumissi. Við teljum að vísu sjálfsagt, að þetta standi sem meginregla og að stjórn skuldaskilasjóðs geti gert þetta til að tryggja, að kröfur komi ekki fram eftir á, en ákveðnar óskir hafa borizt frá samtökum útvegsmanna, m.a. frá fundi L.Í.Ú., og borizt erindi um, að þetta ákvæði verði ekki látið gilda undantekningarlaust, heldur sé stjórn skuldaskilasjóðs heimilt að fella niður þetta ákvæði, ef hún telur, að hún hafi fengið fullnaðarupplýsingar hjá hlutaðeigandi aðila, svo að telja megi víst, að ekki komi fram fleiri kröfur á hann. Við viljum því bæta nýrri mgr. svo hljóðandi við gr.: „Heimilt er þó stjórn skuldaskilasjóðs að veita undanþágu frá ákvæði þessarar greinar um auglýsingu, ef hún telur, að umsækjandi hafi gert fulla grein fyrir fjárhag sínum.“ Hér er því aðeins um heimild um undanþágu að ræða, ef stj. þykist örugg um, að hún hafi fengið nægilega glöggar uppl., en annars gildir ákvæðið um auglýsingu, en þetta opnar leið til að ekki þurfi að auglýsa, ef talið er fullvíst, að allar skuldir hafi verið taldar fram, og því er ekki auglýst sérstaklega í Lögbirtingablaði eftir kröfum, en það telja útvegsmenn að muni hafa áhrif í þá átt að rýra lánstraust þeirra o torvelda starf. Ég sé ekki, að nein hætta muni geta fylgt þessu ákvæði, því að stjórnin fer eflaust varlega í því að nota það. — Ég vil svo leggja fram þessar brtt. okkar hv. 6. landsk. Ég mun ekki ræða þær frekar, en vil undirstrika, að ég tel þörf fyllri og annarra aðgerða en hér liggja fyrir, en vænti um það frv. áður en þingi lýkur, og má þá ræða það, en ég vil hér með leyfa mér að leggja fram þessar skrifi. brtt.