18.12.1950
Neðri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Í Ed. hafa verið gerðar nokkrar breyt. við frv., og hafa þær borizt í tal hér í deildinni.

Breyt. eru við 3. og 14. gr. frv. Við 3. gr. hafa verið gerðar 2 breyt. Önnur um það, að heimilt sé stjórn skuldaskilasjóðsins að veita sínum útgerðarmönnum greiðslufrest, hinum ívilnun á greiðslu dráttarvaxta. — Breyt. við 44. gr. er um skipan stjórnar bátaskilasjóðsins.

Sjútvn. hefur ekki haft tækifæri til þess að athuga þessar breyt. á fundi, og ég geri varla ráð fyrir, að þetta frv. komi fyrir n. aftur. Hins vegar held ég mér sé óhætt að fullyrða, að n. sjái ekki ástæðu til að hafa á móti þeim breyt., sem hv. Ed. hefur gert á frv.

Við þessa umr. hafa komið fram brtt. við frv. eins og það kom frá Ed. frá hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Siglf. — Frá hv. þm. Ísaf. eru tvær brtt., önnur varðandi greiðslufrest á vangoldnum afborgunum stofnlánanna, þar sem gert er ráð fyrir, að lánstími stofnlánanna sé lengdur, í öðru lagi að ekki sé skylt að láta innköllun fara fram til þess að fá aðstoðarlán samkv. 1. kafla laganna. — Hv. þm. Siglf. leggur til, að bætt verði við frv. bráðabirgðaákvæði, sem heimili ríkisstj. að taka allt að 6 millj. kr. lán innanlands til innlausnar sjóveðskröfum vegna vangoldins hluta sjómanna. Nú er það svo, að mjög skammt er til þess að fundum þingsins verði frestað, hins vegar er mjög mikil nauðsyn þess, að mál þetta fái afgreiðslu áður, svo æskilegt er, að málið verði ekki fyrir óþarfa töfum.

Hæstv. atvmrh. er ekki viðstaddur þessar umr., mér er tjáð, að hann sé veikur, og getur því ekki rætt þessar till. Hins vegar er mér kunnugt um, að hæstv. ráðh. hefur, eftir að þetta mál kom fyrst fram, tekið það til nýrrar athugunar, og mér er óhætt að segja, að hann hafi borið fram í Ed. þær breyt., sem hann taldi óhætt að flytja. Þess vegna vildi ég mælast til þess, að till. þessar verði ekki samþ., án þess að ég leggi dóm á þær að öðru leyti, því mjög er nauðsynlegt, að þetta mál fái nú að lokum afgreiðslu. Ég sé mér því ekki annað fært en að mælast til þess, að þessar till. verði ekki samþ., því hugsanlegt væri, að niðurstaðan af því yrði, að málið fengi þá ekki afgreiðslu fyrir nýár, sem væri til muna bagalegt. Hins vegar er till. um heimild til lántöku raunar sérstakt mál, sem vel mætti bera fram sérstaklega.