18.12.1950
Neðri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Hv. þm. eru sammála um, að nauðsynlegt sé, að þetta mál fái afgreiðslu áður en þingi er frestað. Hins vegar er hitt fullvíst, að enda þótt brtt. mínar verði samþ., þá er engin hætta á, að málið verði ekki afgr. af þeim sökum.

Ég veit, að innan sjútvn. Ed. er til mikið fylgi fyrir þessum till., sennilega meiri hl. En það er svo með þetta mál, að það er eins og þingvilji megi ekki ráða þar um og lauma þurfi því gegnum þingið móti vilja þorra þm. Ég tel þessa afgreiðslu mjög óviðurkvæmilega og tel, að þingvilji eigi að ráða þar um, eins og um önnur mál, en ekki vilji einhverra utanþingsmanna. — Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka rök þau, sem ég flutti fyrir brtt. mínum, en ég vara hv. þm. við að afgreiða frv. eins og það nú liggur fyrir, því með því er gagni þess stefnt í mjög mikla tvísýnu. — Út af till. hv. þm. Siglf. vil ég geta þess, að auglýsing, sem birt var fyrir skömmu, hefur valdið mönnum miklum vonbrigðum. Það var ítrekað í útvarpi tvisvar sinnum, að nú skyldi greiða útvegsmönnum 1/3 af ríkisstyrknum úr hlutatryggingarsjóði, en skilyrði til þess, að þessi greiðsla færi fram, væri, að þetta væri látið ganga til greiðslu upp í hlutatryggingu sjómanna. Þegar menn koma svo í stórhópum til þess að taka hlutatrygginguna, þá fá menn það svar, að þetta eigi að ganga upp í þau lán, sem tekin voru í sumar til þess að greiða síldarsjómönnum, til þess að koma í veg fyrir, að þeir hættu í byrjun ágústs. Alþingi hefur meinað síldarsjómönnum einum allra sjómanna, og raunar einum allra launþega, að innheimta sitt kaup með málssókn, án þess að Alþingi geri nokkrar ráðstafanir til þess, að þeir geti innheimt kaup sitt á annan hátt. Það hefur verið svo, að sjómenn hafa ekki yfirleitt afhent þessar kröfur málaflutningsmönnum til innheimtu, í von um einhverja úrlausn á þessu nú um áramótin. En þegar sjómenn sjá, að engir tilburðir eru til, að þetta verði gert, er hætt við, að þeir fái málaflutningsmönnum þessar kröfur til innheimtu, og það mun hækka kröfurnar um 10–45 % a.m.k.

Nú mun það vera svo, að ekki er afráðið, hvort sjóveðskröfurnar greiðist gegnum skuldaskil bátaútvegsins eða hvort eigi að láta hlutatryggingarsjóð taka lán til greiðslu á kröfunum. — Það, sem stendur á, er, að ríkisstj. ákveði, hvort það er hlutatryggingasjóður, sem inna á þessa greiðslu af hendi, eða hvort þetta á að koma í gegnum skuldaskilin. Þetta virðist nú ekki skipta neinu meginmáli, þar sem það verður alltaf einn og sami aðilinn, sem útgjöldin skella á í bili. Ég sakna þess mjög, að hæstv. atvmrh. er ekki viðstaddur þessar umr., og þykir leitt að heyra, að hann sé veikur, en ég vildi spyrja hv. frsm., sem mun vera í stjórn sjóðsins, hvort ekki sé búið að taka neina ákvörðun um þetta mál. Það er mjög aðkallandi, að eitthvað sé gert í þessu máli vegna þeirra vandræða, sem menn eru í. Nú verður að reyna að láta hendur standa fram úr ermum og gera eitthvað í þessu máli fyrir jól.

Ég hef heyrt, að Alþýðusambandið muni ætla að stöðva þau skip, sem eru með sjóveðskröfur, og er það ekki ótrúlegt, jafnvel þótt fyrr hefði verið horfið að því ráði.