18.12.1950
Neðri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Ísaf., að ekki er undarlegt, að verkalýðssamtökin segi stopp, þegar ein atvinnustétt er lögð í einelti á svo fruntalegan hátt sem hér er gert. Það hefur verið viðurkennd regla frá ómunatíð, að trygging manna fyrir kaupi væri sjóveð eða landveð. Hér eru sjómenn sviptir þessum forgangsrétti og kröfur þeirra jafnréttháar hvaða kröfum öðrum. Sá forgangsréttur, sem þeir eiga kröfu á, er í rauninni afnuminn, eða a.m.k. frestað um óákveðinn tíma, og er nú liðið á 3. ár síðan þessi samþykkt um sjóveðskröfurnar var gerð, þannig að skip með yfir tveggja ára gömul sjóveð eru í fullum gangi og gömlu sjóveðskröfurnar búnar að missa sinn forgangsrétt fyrir yngri kröfum, og sum skip eru þannig á vegi stödd, að engar líkur eru til, að sjómenn geti leyst þau undan yngri kröfunum, svo þeir geti gengið að þeim með sínar kröfur, þó þeir fengju leyfi til þess, svo full líkindi eru til, að sjómenn verði algerlega sviptir þessu kaupi, ofan á það, að þeim er meinað að varðveita sinn rétt.

Ég er viss um, að svona framferði er alveg einstætt fyrirbæri, og sjómenn hafa sýnt alveg sérstakt langlundargeð að þola þetta hátt á 3. ár, og ég er alveg viss um, að engin stétt önnur hefði gert það. Og þá skeður það, að það er eins og verið sé að hæða þá. Það er auglýst, að nú eigi að borga þeim, en þegar þeir koma til að sækja sitt kaup, þá er þeim sagt, að þetta sé misskilningur, — þið eigið enn þá að fá að bíða kannske 1–11/2 ár, — og þeir sitja slyppir uppi með fjölskyldur sínar í svelti yfir jólin.

Og svo er ekki einu sinni svo, að nokkur vilji taka þessar kröfur sem greiðslu. Tollyfirvöldin, sjálfur fulltrúi hins opinbera, vilja ekki líta við þeim, og sama er að segja um bæjarfélög, svo maður tali nú ekki um aðra aðila. Þeir segjast ekkert vita, hvenær þetta verði peningar. Þetta finnst mér eitthvert ljótasta bragð, sem Alþingi hefur leikið nokkra stétt hér á landi, enda má ekki lengur svo búið standa. Eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, er ekki ákveðið enn þá, hvernig þessar greiðslur fari fram, en hitt er ákveðið og óhjákvæmilegt, að þessar sjóveðskröfur verði greiddar. Það er nauðsynlegt, að þetta mál fái úrlausn strax, hitt er aðeins formsatriði, hvernig greiðslurnar fara fram. Það er kannske ekki nauðsynlegt, að fullnaðargreiðsla fari fram, heldur hitt, að eitthvað ákveðið verði greitt núna fyrir jólin.

Hv. þm. N-Þ. taldi þetta ekki koma því máli við, sem hér væri til umræðu. Hvaða máli kemur þetta þá eiginlega við, ef það kemur ekki við þessum skuldaskilum bátaútvegsins? Ég fæ ekki séð, hvernig menn geti horft framan í þessa stétt, eftir að búið er að svipta hana möguleikanum á að knýja fram kröfur sínar á kaupgreiðslu, ekki sízt eftir það háðulega gabb, sem hún hefur orðið fyrir nú fyrir skemmstu, ef enn þá einu sinni á að bregðast henni og smeygja fram af sér að taka ákvarðanir um þetta mál. Sómi þingsins liggur við, að þessar ákvarðanir séu teknar myndarlega og rösklega. Málið liggur mjög einfalt fyrir. Allar kröfurnar eru komnar fram og öll skip búin að sækja um aðstoðarlán. Það þarf ekki annað en hefja greiðslurnar. Ég treysti Alþingi til að afgreiða þetta mál þannig, að sómi sé að, og það er sannarlega ekki ofætlun af hv. þm., þó þeir fresti jólafríi sínu um einn sólarhring til þess að rétta hlut þessara manna, sem hafa beðið þess í hátt á 3. ár. Það hefur engin tregða komið fram um að afgr. þetta mál, þvert á móti eru allir hv. þm. sammála um, að nauðsynlegt sé að afgreiða það strax. Það er engin hætta á, að það fáist ekki afgr., þó þessi till. mín komi til umr., og ekki nema rétt og viðeigandi, að við frestum jólaleyfi um einn sólarhring, ef nauðsynlegt yrði til þess að ljúka afgreiðslu þess. Ég treysti því, að þetta mál hljóti þær undirtektir, sem það á skilið, hér í þessari hv. þingdeild, svo sjómenn fái einhverja úrlausn í uppbót á það gráa gabb, sem þeir hafa orðið fyrir.