20.10.1950
Efri deild: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

7. mál, skólastjóralaun og kennara við barnaskóla

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Hv. þm. Barð. segir, að meiri hl. fjhn. hafi í áliti sínu farið rangt með afstöðu hans, þar sem sagt er, að hann leggi til, að frv. verði fellt. Þegar fjhn. hélt fundi um þetta mál og ræddi það, kom ekki annað í ljós en að hv. þm. vildi fella frv., enda munar ákaflega litlu, þar sem hann leggur aðeins til, að það verði fellt á þann hátt, að því sé vísað frá með rökstuddri dagskrá. Ég vil því halda fram, að ekkert sé við það að athuga, þó að fjhn. hafi komizt svo að orði, að hv. þm. hafi viljað láta fella frv., miðað við umr. hér og nái. það, sem hann hefur skilað.

Þá hélt hann því fram, að þessi l. fengju ekki staðizt, þar sem þau ættu að verka aftur fyrir sig. Hæstv. forseti hefur nú gert fyrirspurn út af þessu atriði, svo að það er ekki ástæða til, að ég fari út í það. En hins vegar er það svo, að oft hafa verið sett l., sem hafa verkað aftur fyrir dagsetningu sína, og máltækið segir, að öll lög hafi tog. Bráðabirgðalögin hafa þau tog, að þau eru leiðrétting á ranglæti, sem var að myndast vegna ályktunar Alþingis.

Hv. þm. sagði, að þál. gæti ekki staðizt sem lög. Þess vegna er þessi lagasetning á ferðinni. Það er til þess, að þau ákvæði, sem framkvæma á, hafi vafalaust lagagildi.

Þá vildi hann mjög setja frv. í samband við endurskoðun launalaganna. Endurskoðun launalaganna mundi ekki bæta úr því, sem þetta frv. á að bæta. Ég er sammála honum um afstöðuna til launalaganna. En ég er ósammála honum um, að hinir lægst launuðu kennarar eigi að gjalda þess, þó að menn séu á móti uppbótum í heild. Ég lit svo á, að vafasamt sé að taka launalögin til endurskoðunar nú, sérstaklega frá því sjónarmiði, sem við hv. þm. Barð. höfum, því að ég álít, að skilningur fólksins sé ekki svo langt kominn enn, jafnvel ekki skilningur hv. þm., að líkur séu til, að heilbrigð launalög verði sett. Þess vegna virðist mér, að það sé betra að draga það, þangað til reynslan verður runnin mönnum betur í merg og blóð.

Ég álit því, að rétt sé að samþ. frv. eins og það liggur fyrir.