18.12.1950
Neðri deild: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

88. mál, aðstoð til útvegsmanna

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Út af því, sem hv. þm. Siglf. sagði hér áðan, vil ég segja þetta: Sjóveðin frá síldarvertíðinni 1948 voru innleyst með sérstökum ráðstöfunum, sem voru gerðar, og þess vegna hefur sú vernd, sem hér um ræðir, ekki náð til eldri síldarsjóveða en frá 1949. Þó geta verið til eldri sjóveð en frá 1949, bæði frá vetrarvertíð og síldarvertíð, en það, að slík sjóveð eru til, er ekki vegna þessarar verndar, heldur af því, að ekki var gerð gangskör að því að innheimta þau á sínum tíma, og þess vegna hefur sú greiðsla dregizt.

Út af hinni skriflegu brtt. hv. þm. Siglf. á þskj. 441, þar sem lagt er til, að ríkisstj. heimilist að taka 6 millj. kr. lán til að greiða sjóveðskröfur og skuli því hraðað svo, að unnt sé að greiða kröfurnar fyrir jól, vil ég segja þetta: Það er ekki nema tæp vika til jóla, og sannleikurinn er sá í þessu máli, að það liggja engar skýrslur fyrir um þessi sjóveð, hve mikil þau eru, og þess vegna veit ég ekki, hvers vegna hv. þm. tilnefnir þessa upphæð, 6 millj., frekar en einhverja aðra. Ef málið hefði verið afgr. á þann hátt, þá sýndist eðlilegra, að fyrst hefði verið borin fram á Alþ. till. um, að rannsókn færi fram í þessu máli, þannig að það lægju fyrir einhverjar skýrslur um það, hversu mikilli upphæð sjóveðskröfurnar næmu. Þá var eitthvað til að byggja á slíkar kröfur, en þann grundvöll vantar. — Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég hygg, að þær kröfulýsingar, sem hafa verið sendar skilanefnd, séu ekki þannig úr garði gerðar, að hægt sé að gera úr þeim skýrslur sem ábyggilegar séu, um sjóveð frá s.l. sumri. Það er svo, að í þessum kröfulýsingum er blandað saman ýmsum skuldum, og geta oft blandazt saman aðrar kröfur við sjóveðskröfur, þannig að erfitt sé að finna þær út af fyrir sig á mjög skömmum tíma, þannig að þessi gögn, sem till. á þskj. 441 hefði þurft að byggjast á, eru ekki fyrir hendi.