20.10.1950
Efri deild: 6. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

7. mál, skólastjóralaun og kennara við barnaskóla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef tvisvar sinnum áður í sambandi við mál, sem svipað hefur staðið á um, beint þeirri spurningu til lögfræðinga d., hvort það sé hægt að leggja gjöld á menn eftir á fyrir liðna tímann. Ég hef spurt að þessu oftar en einu sinni, þegar samþ. voru bráðabirgðal. um skatt á benzín, sem átti að gilda frá ársbyrjun, en þó voru l. sett, er komið var langt fram á árið. Ég fékk ekkert svar. Ég spurði aftur í fyrra, en fékk þá ekki heldur neitt svar. Nú kemur í þriðja sinn frv., sem leggur gjöld, ekki á einstaklinga, heldur sveitarfélög, gagnvart launuðum mönnum, sem þau eru búin að hafa í sinni þjónustu, eru kannske farnir þaðan og komnir eitthvað allt annað. Nú á að skylda sveitarfélögin til að greiða þeim launauppbót fyrir löngu liðinn tíma. Er þetta hægt? Hvað er hægt að ganga langt í því fyrir þingið að samþ., að þessi eða hinn skuli nú fá uppbætur á laun sín fyrir svo og svo mörgum árum, kannske frá 1940 eða 1942? Ég vil enn spyrja lögfræðingana. Hér situr nú hæstv. dómsmrh., sem er talinn einn lærðasti lögfræðingur landsins. Hér situr annar lögfræðingur skammt frá mér. Er hægt að leggja svona gjöld á menn, hvort sem það eru einstaklingar eða bæjar- og sveitarfélög eins og hér? Ég hef aldrei getað skilið, að það væri hægt. Ég hef greitt atkv. á móti þessum l. Ég álít, að þetta sé ekki hægt og það sé ekki rétt að koma svona aftan að mönnum með gjöld eftir á.