13.12.1950
Efri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (2181)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þegar lögin um almannatryggingar voru samin, var gengið út frá, að það þyrfti að endurskoða þau jafnvel á hverju ári fyrst um sinn, þangað til reynt væri. hvernig þjóðin mundi taka þeim.

Ýmsar kröfur komu fljótt fram um breytingar frá ýmsum stéttum. Reyndar var óhjákvæmilegt að endurskoða lögin árlega, breyta þeim og samþ. viðaukalög til að breyta því, sem nauðsynlegt þótti. Heildarendurskoðuninni var frestað til 1949, þá var skipuð milliþinganefnd til að athuga kröfur frá ýmsum stéttum á landinu og samrýma þær viðaukalögunum, og þetta var lagt til í frv., sem fram kom á síðasta þingi og var samþ. hér í Ed. Og skoðun manna var sú, að þetta næði samþykki í Nd., en á síðustu stundu lýsti forsrh. yfir, að málið næði ekki fram að ganga á því þingi og hann skyldi undirbúa málið fyrir þetta þing. Það hefur hann nú gert, og þetta frv. var flutt af heilbr.- og félmn. og er á þskj. 238. Ég var ekki viðstaddur hér í deildinni, er þetta var til umræðu fyrst, en það mun hafa verið svo, að framsaga af hálfu n. var ekki löng, en ráðh. skýrði málið ýtarlega. Mér þykir því rétt að gera grein fyrir frv. og brtt, 352, sem n. stendur saman að.

Nefndin hefur athugað frv. mjög vel og borið það saman við gildandi lög og frv. eins og það var samþ. hér á síðasta þingi. Hún hefur og kynnt sér till. frá ýmsum aðilum, sem ekki hafa náð samþykki hér á þingi, og eru niðurstöður n. í nál. hennar og brtt. Nefndin getur ekki fallizt á, að frv. á þskj. 238 verði samþ. óbreytt, og skal ég nú gera grein fyrir ástæðunum.

Við 1. kafla, 1.–4. gr., hefur nefndin ekkert að athuga og leggur til, að hann verði samþ. Þetta er tekið orðrétt upp úr frv. eins og það var hér í Ed. í fyrra. Þetta ákvæði hefur engin áhrif á fjárhagsafkomu stofnunarinnar, ef það verður samþ. eins og það liggur fyrir.

5. gr. frv. er breytt í það horf, að þar eru ákveðnar hinar nýju grunnuppbætur til samræmis við gengisbreytinguna. Um þessa till. er fullt samkomulag í nefndinni. En þó hafa nokkrir nm. ákveðið að flytja brtt., sem ég sé, að eru komnar fram í deildinni. En aðrir fylgja frv. að þessu leyti og vilja hafa þessar tölur óbreyttar, en þær eru þær sömu og í gildandi lögum, þegar reiknaðar hafa verið um uppbætur á grunnlaun.

Fulltrúar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna standa að því, að þetta verði samþ., en hins vegar álíta fulltrúar Sósfl. og Alþfl., að þessu þurfi að breyta. Ef greinin verður samþ. óbreytt, hefur það engar hækkanir í för með sér í sambandi við rekstrarkostnaðinn.

Í sambandi við 6. gr. er gerð nokkur breyting frá ákvæðum tryggingarlaganna um, að ekklar fái fullan barnalífeyri, í stað hálfs nú. Nefndin væntir þess, að þetta verði samþ.

Aðrar greinar, 7.–15., eru eins og þær eru í lögunum og engin breyting gerð við þær, en í sambandi við 10. gr. hefur ekki orðið samkomulag um hana í nefndinni. Það hafa komið fram alla tíð, síðan lögin voru samþ., kröfur frá mönnum um land allt þess efnis, að fæðingarstyrkir yrðu þeir sömu fyrir allar konur. Þetta er ekki í lögunum nú, en lagt er til, að þessu verði breytt. En í greininni segir, „að ógift móðir, sem verður fyrir vinnutjóni og tekjumissi vegna barnsburðar og leggur fram úrskurð á hendur barnsföður fyrir barnsfararkostnaði, skal eiga rétt á því, að Tryggingastofnunin greiði henni til viðbótar allt að 300 kr. á mán. í allt að 3 mán.“ o.s.frv. Þessi breyting er gerð hér á, vegna þess að því er haldið fram, að viðkomandi aðili geti ekki fengið greiðslu nema hún hafi fengið úrskurð á hendur barnsföðurnum á sama hátt og segir í 90. gr. — Kvenfélagasamböndin hafa ekki viljað við þetta una og hafa sent fulltrúa til nefndarinnar til að ræða þetta og vilja fella það niður, en meiri hl. hefur ekki viljað fallast á það. Meiri hl. lítur svo á, að rétt sé að hafa þetta ákvæði í greininni og að það séu ekki of þungar kröfur á hendur barnsmóður, að hún afli sér úrskurðar, enda nauðsynlegt, ef hún ætlar að tryggja meðlag með barninu, erfðarétt o.þ.l. Því leggur meiri hl. til, að þetta verði samþ. óbreytt.

Einnig er hér brtt. við 11. gr. frá minni hl. n., og verður gerð grein fyrir henni af flm.

Um aðrar greinar milli 7. og 15. gr. hefur ekki verið neinn ágreiningur í n., eins og þegar hefur verið lýst.

Um 16. gr. hefur einnig verið ágreiningur, þannig að einstakir nm. hafa viljað hækka bæturnar nokkuð, en þær eru settar fram hér eins og þær eru í lögunum.

Í sambandi við 21. gr. er samkomulag um hana nema 5. tölulið. Þar er sett fram, að hámark framlags ríkissjóðs skuli vera 60 kr. á ári og ekki ætlazt til, að á það sé greitt verðlagsvísitöluálag. Nú er það upplýst af ráðh., að það sé ákveðið að greiða verðlagsvísitölu 122% á næsta ári, og af þeirri ástæðu hefur hann farið fram á það við hv. Alþingi, að tollar og skattar verði hækkaðir. En þá er vitanlegt, að það spor hefur í för með sér, að þessi gjöld geta ekki staðið í stað nema þau fái hækkun. Sjúkrasamlögin hafa orðið að hækka meira en svo, að þau hafi fengið að fullu bætt 1/3 frá Tryggingastofnuninni, m.a. er það svo hér í Rvík, Hafnarfirði og víðar. — Ef reiknað er með álagningu 115 eins og gert er á fjárlagafrv., þá komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að grunnuppbótin yrði að hækka í 62 kr. að viðbættum 15%. En það er aðeins miðað við vísitölu 115. Hvert það sjúkrasamlag, sem hefði kr. 17,83 mánaðargjald eða lægra, fengi 1/3 frá ríkissjóði, en hin fengju ekkert fram yfir kr. 17,83. Nú er gert ráð fyrir, að er sjúkrasamlög hafa verið stofnuð um land allt, þá hafi þau 90 þús. meðlimi og þar af verði 55 þús. meðlimir með hærra meðlimagjald en 17,83 og fá þá sjúkrasamlög þessi ekki fullt 1/3 framlag. Ef framlög hinna verður 125 kr. á mann, fá þau samanlagt fullt 1/3, eða 40 kr. á mán. Nú má gera ráð fyrir, að öll sjúkrasamlög komi ekki inn á þessu ári, og verða því vanhöld hér, svo að ætla má, ef miðað er við 115, þá þyrfti miklu hærra framlag en tekið var upp í fjárlfrv., en í því er tekið 5,8 millj. til að mæta þessum gjöldum. Áætlaðar eru 5,3 millj., en mætti komast af með 5 millj. kr. Þá þyrfti að taka á fjárlögunum 200 þús. kr., og um þetta er samkomulag við ríkisstj. En þetta er aðallega gert til að mæta 115%, svo að ef hugsað er að greiða launin með 120%, þarf að bæta hér við.

3. töluliður þessarar greinar er tekinn nýr í frv. og hann er heimild til að takmarka sjúkrasamlagsgreiðslu á lyfjum, sem ekki eru lífsnauðsynleg. Ef þetta er notað, dregur það úr kostnaði sjúkrasamlaganna, en kemur beint á meðlimina, ef þeir kaupa slík lyf, en þetta er samkomulagsatriði.

4. liður er einnig nýr, en hann er um, að Tryggingastofnunin skuli greiða, þegar maður er 67 ára eða eldri og þarfnast sjúkrahússvistar umfram þær 5 vikur, sem sjúkrasamlagi hans ber að greiða, ríkisframfærslu lífeyri þann, er hlutaðeigandi á rétt til, ásamt álagi, sem úrskurðað er skv. 17. gr. Ég leyfi mér að vísa til grg. um þetta. En það kom til tals í n., að þetta ákvæði væri sett hér, en þó skyldi ekki greiða meira en 90% af lífeyrinum. En ekki þótti rétt að taka þetta upp, vegna þess að það getur ekki náð til þeirra, sem liggja vegna ellikramar, heldur allra, sem eru á ríkisframfæri, en n. hafði ekki nákvæmar skýrslur, hve miklu þetta mundi muna. Þetta ætti því að vera til athugunar, er lögin verða endurskoðuð á ný.

Eina brtt., sem nefndin gerir á þessari grein, er því að hækka framlagið úr 60 kr. í 62 og greiða síðan vísitöluálagningu, eins og ég hef tekið fram.

Næsta breyt., sem n. leggur til, er að orða um 24. gr. Í frv., eins og það er lagt fram af hæstv. ríkisstj., stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Iðgjöld og framlög til tryggingarsjóðs samkv. IV. kafla laganna, 2.–5., skulu frá 1. janúar 1951 til ársloka 1954 vera sem hér segir:“ Á þetta gat n. ekki fallizt og stendur einhuga um að breyta þessari mgr. Í frv. er lagt til, að framlög skuli fastbundin frá 4954 til ársloka 1954, án tillits til þess, hvernig verðlagið er í landinu. Það getur sjálfsagt enginn sagt um það í dag, hvernig verðlagið verður 1954, nema síður sé; það kann að verða hærra og getur líka hafa lækkað verulega. Við teljum því ógerning að setja þetta ákvæði þannig fast. Auk þess er það sýnilegt — og einkum eftir að það hefur verið viðurkennt af hæstv. fjmrh. —, að kaupgreiðslur eigi að miða við 122 stiga vísitölu, og er því síður ástæða til að hafa þessa gr. eins og hér er ákveðið. Að vísu er lagt til í frv., að þau gjöld, sem ég er hér að ræða um, verði greidd nokkuð hærri en nú er gert, m.a. eru kvæntum körlum á 1. verðlagssvæði greiddar kr. 450.00 á ári samkv. 107. gr. l., og á það skuli ekkert álag greitt, en nú er þessi greiðsla kr. 390,00, og eiga önnur gjöld samkv. þessari gr. að hækka hlutfallslega. N. álitur þetta ekki rétt og leggur til, að árgjöld hinna tryggðu verði fyrir kvænta karla kr. 390.00 á 1. verðlagssvæði og á 2. verðlagssvæði kr. 310.00, í stað kr. 450.00 og kr. 360.00, sem er í frv., fyrir ókvænta karla kr. 350.00 á 1. verðlagssvæði og á 2. verðlagssvæði kr. 280.00, í stað kr. 400.00 og kr. 320.00, sem er í frv., fyrir ógiftar konur kr. 260.00 á 1. verðlagssvæði og á 2. verðlagssvæði kr. 240.00, í stað kr. 300.00 og kr. 240.00 eins og lagt er til í frv. — Í frv. er ætlazt til þess, að iðgjöld atvinnurekenda samkv. 114. gr. l. verði á 1. verðlagssvæði kr. 4.80 á viku og á 2. verðlagssvæði kr. 3,60 á viku. N. leggur til, að þessar greiðslur verði á 1. verðlagssvæði kr. 4,65 á viku og kr. 3,50 á 2. verðlagssvæði í samræmi við það, sem nú er greitt í tryggingunum. — Samkv. frv. ríkisstj. er heildarframlag sveitarfélaga samkv. 114. gr. l. 10,8 millj. kr. og framlag ríkissjóðs samkv. 116. gr. l. kr. 17,4 millj. kr. Er þessu haldið óbreyttu í till. n.

N. gerir einnig talsverðar breyt. á 25. gr. frv. Síðari mgr. þessarar gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Grunnupphæðir bóta samkv. lögum þessum skulu hækka til samræmis við vísitölu framfærslukostnaðar eftir sömu reglum og laun, sbr. 6. gr. laga nr. 22 1950, um gengisskráningu o.fl., þó aldrei yfir 15%.“ Á. þetta getur n. ekki fallizt. Hún álítur einmitt, að þessi laun, sem hún leggur til að verði ákveðin í frv., verði greidd með venjulegu vísitöluálagi, eins og öðrum launþegum eru greidd á hverjum tíma, og vil ég vænta þess, að hæstv. ríkisstj. og hv. d. fallist á þessa till. N. getur ekki séð nokkur frambærileg rök fyrir því, að þetta fólk, sem fjöldamargt hefur ekkert annað til að lifa á en þennan styrk, verði að lúta því, að þeirra laun séu bundin við lægri vísitölu en laun almennt í landinu. N. er öll sammála um þetta afriði og væntir þess fastlega, að hv. Alþ. sýni þá sanngirni að fallast á till. hennar. Alþ. hefur á s.l. ári fallizt á, að rétt væri að bæta upp þessar greiðslur, eftir að það hafði ákveðið að greiða uppbót á laun fastráðins starfsfólks hjá því opinbera, og það er vitað, að þetta er einnig gert hjá starfsmönnum bæjarins og fólki almennt í landinu, og þess vegna þótti n. sjálfsagt, að þetta fólk yrði ekki sett út undan né heldur það, sem er á 18. gr. fjárl. Þess er því að vænta, að afstaða hv. Alþ. til þessa máls hafi ekki breytzt, og ég fyrir mitt leyti skil það svo, að þegar hæstv. ríkisstj. samdi þetta frv., muni hún hafa haft hliðsjón af því, að hún hafði ákveðið að halda vísitölunni svo niðri, að hún átti ekki að fara yfir þá tölu, sem miðað var við í frv. N. leggur því til, að við 25. gr. verði gerð sú breyt., að niðurlag síðari mgr. frá og með orðunum „sbr. 6. gr. laga“ og til enda gr. falli niður. Hún leggur einnig til, að við gr. bætist ný mgr., er svo orðist: „Iðgjöld samkv. 107. og 112. gr. og framlög samkv. 114. og 116. gr. laganna, sbr. 24. gr. þessara laga, skulu innheimt með álagi samkv. meðalvísitölu næsta árs á undan.“ Mér er nauðsynlegt að dvelja nokkuð við þetta atriði og skýra hæstv. ráðh. frá, hvernig þetta er til komið. Eins og frv. er borið fram af hæstv. ríkisstj., var til þess ætlazt, að einn aðilinn, sem til trygginganna greiðir, þ.e. hinir tryggðu, greiði nokkuð hærri iðgjöld, eða um 15% ofan á þær grunnupphæðir, sem ákveðið er, að haldist áfram í l., og einnig að iðgjöld atvinnurekenda hækki um sem svarar 3%, en hins vegar var ekki ætlazt til þess, að framlag frá sveitarfélögum eða ríkissjóði yrði greitt með neinu vísitöluálagi. Með þessu er raskað allverulega hlutföllunum á milli þeirra aðila, sem greiða framlög til trygginganna, frá því sem er í gildandi l. og ákveðið var frá upphafi milli þeirra aðila, sem áttu að bera þungann af tryggingunum. Með þessu móti væri byrðin tekin af ríkissjóði og sveitarfélögunum, en lögð á hina tryggðu. Á þessa röskun getur n. ekki fallizt. Út af fyrir sig kann það að vera réttlátt, að einhver slík breyt. verði gerð, en til þess þarf að fara fram miklu nákvæmari athugun á málinu en unnt var á þeim skamma tíma, sem n. hafði til umráða í þessu máli nú, og á það leggur n. þá heldur engan dóm, en það er sýnilegt, að ef þessi háttur yrði hafður á þessu nú, væri fjárhag trygginganna stefnt í alvarlega hættu. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að það er ákvæði um það í l., að ef svo og svo mikill hluti iðgjaldagreiðenda bregzt, verði sveitarsjóðirnir að greiða fyrir þá, ef þeir hafa ekki nægilegar tekjur til þess að greiða af þeim iðgjöld, og því þyngra mundi þetta falla á sveitarsjóðina sem iðgjaldagreiðslur hinna tryggðu eru hærri. Ef sveitarfélögin bregðast, kemur þetta allt yfir á ríkissjóð, og sýnist n. mjög varhugavert að fara inn á þessa braut. Hins vegar vil ég benda á, og það hafði ekki svo lítil áhrif á afstöðu n., að á Alþ. í fyrra var þetta mál mjög rætt vegna þess ágreinings, sem hafði komið upp milli þáv. ríkisstj. og tryggingaráðs, þar sem ríkisstj. eða þáv. fjmrh. leit svo á, að hann ætti beinlínis ákveðinn hluta tryggingasjóðs, sem hafði safnazt upp, vegna þess að hagur trygginganna varð betri en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta mál kom til úrskurðar Alþ. í fyrra, og hann varð sá, að tryggingasjóður ætti þennan hluta óskertan. Það getur því ekki komið til mála, að hið sama Alþ., sem hefur ákveðið þetta, fari nú að samþ. að leyfa ríkisstj. að taka að öðrum leiðum þetta fé úr tryggingasjóði fyrir sig eina. Það gæti hins vegar vel komið til mála, ef þörf væri á, að taka þetta fé úr tryggingasjóði fyrir alla þá aðila, sem hafa greitt í tryggingarnar, það er ríkissjóður, sveitarfélögin, atvinnurekendur og hinir tryggðu. Fyrir því eru þó einhver rök, að ef ekki væri hægt að standa undir tryggingunum, yrði að fara þá leið að sækja stærri fúlgur í ríkissjóð eða minnka bótagreiðslur, sem hvorugt væri æskilegt, en l. mæla svo fyrir, að reikna megi meðalvísitölu ársins á undan sem álag á tekjustofnana, og það er það, sem nokkur hluti n. hefur getað fellt sig við í þetta skipti og leggur því til, að þetta verði gert, þannig að í stað þess að reikna fullt álag, 115 eða 122 vísitölustig, þá verði á næsta ári lögð ofan á grunnupphæðir meðalvísitala ársins 1950, sem mun vera 8.33%, og að þetta verði lagt jafnt á alla aðila, ekki aðeins hina tryggðu, heldur einnig á sveitarfélögin og ríkissjóð, þannig að það komi hlutfallslega rétt niður á alla aðila.

Þetta eru till. heilbr.- og félmn. Að vísu kunna að koma fram brtt. frá einstökum nm., en samkomulag varð um það, að nokkrir nm. bæru fram þessar brtt., án þess að n. klofnaði á þessu stigi málsins.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að í áætlun var gert ráð fyrir, að rekstrarhalli mundi verða á tryggingunum með því framlagi, sem áætlað er, ef ekki fengist fullt vísitöluálag, allt að 91/2 millj. kr. Í frv. eins og það er lagt fyrir er gert ráð fyrir, að tekjurnar aukist um 2,7 millj. kr. samkv. 24. gr., ef gr. verður samþ. óbreytt. En verði till. n. samþ. óbreyttar við þessa gr., hækka tekjurnar um 4,2 millj. kr. og minnka þannig áætlaðan rekstrarhalla ofan í 5,3 millj. kr., en samt sem áður er í þessari áætlun gert ráð fyrir 600 þús. kr. hærri lífeyrisgreiðslum en áætlað er í frv., og lækkar rekstrarhallinn þá um þá upphæð, eða í 4,7 millj. kr., en það miðast eingöngu við, að allar bætur verði greiddar með vísitölu 115 á árinu. En þar sem ákveðið hefur verið, að á laun embættismanna og flestra annarra starfsmanna verði greidd 122 vísitölustig, er sjáanlegt, að ekki verður stætt á því að greiða ekki sama álag á þessar bætur, en þá þarf 500 þús. kr. fyrir hvert vísitölustig eða 31/2 millj. kr. í tekjur til þess að stofnunin geti mætt þeim útgjöldum. Þeir aðilar, sem fengust til að fylgja því með hæstv. ríkisstj., að ekki yrði greitt meira álag en 8,33% á allar grunnupphæðir, höfðu gert ráð fyrir því, að vísitalan yrði ekki hærri en 145 stig, eins og ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi einnig gert, þegar hann samdi frv., og við það var miðað frá hendi þeirra aðila í n., en ef hún hækkaði, yrðu meiri tekjur að koma á móti, því að fjárhag trygginganna væri stefnt í beinan voða, ef þær ættu að mæta þessum útgjöldum. Úr þessu er ekki hægt að bæta nema á þann hátt, sem ég gat um, að annaðhvort yrði að gera þyngri kröfur til iðgjaldagreiðenda og til sveitarfélaga um að greiða enn hærri framlög eða fara hina leiðina, sem er mjög erfið, að draga úr bótunum; þriðja leiðin er sú, eins og ákveðið er í l., að ef gjaldþol iðgjaldagreiðenda brestur, geta tryggingarnar krafizt rekstrarhallans af ríkissjóði einum, en það væri heldur ekki skemmtileg leið. Í sambandi við þetta leyfir n. sér að bera fram brtt. sem brb.-ákvæði á þskj. 352, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórninni er heimilt, að fengnum till. frá tryggingaráði, að ákveða jafna hundraðshlutahækkun á iðgjöld og framlög til tryggingasjóðs, ef kaupgjald í landinu verður greitt með hærri verðlagsvísitölu en 115 á árinu 1951 og sýnilegt er, að Tryggingastofnunin þurfi á því fé að halda til þess að greiða bætur með fullu vísitöluálagi án þess að skerða tryggingasjóðinn óeðlilega. Jafnframt heimilast ríkisstjórninni að greiða úr ríkissjóði þann hluta, sem honum ber að greiða vegna slíkrar hækkunar.“

Ég vil biðja hæstv. ráðh. og hv. þm. um að athuga vel þetta atriði, því að ef slík till. yrði felld, er sá möguleiki fyrir hendi, að tryggingasjóður fái svo þungt áfall á árinu, að það verði að grípa til þeirrar heimildar í l. að krefjast framlags úr ríkissjóði, og þá kæmi hann einn til að standa undir þeirri byrði. Að vísu mundi hann ekki gera það, fyrr en búið væri að eyða öllum sjóðnum, en þá þarf hann að greiða ábyrgð, eins og l. mæla fyrir um. Ef hins vegar samþ. yrði samkomulag milli ríkisstj. og tryggingaráðs um það, hvenær nauðsynlegt væri að nota slíka heimild og ríkisstj. hefði fullt vald í þessu máli til að nota heimildina ekki fyrr en stofnunin væri komin í voða, þá hefur hún þann möguleika að hækka framlög hinna tryggðu, atvinnurekenda samkv. 112. gr. og sveitarfélaga, og teldi ég það mjög illa farið, ef ekki yrði búið svo um þetta mál, að þessi ákvæði væru fyrir hendi, og ég hygg, að ríkisstj. gæti tæplega skapað sér slíka heimild í brbl., vegna þess að hér er um fjárútlát að ræða, en eins og ég tók fram, hefur hún fullt vald í þessu máli, þótt gr. yrði samþ.

Þá vil ég geta þess, að í sambandi við 30. gr. leggur n. til, að í stað orðanna „að mæta halla“ komi: að mæta ófyrirsjáanlegum halla, þannig að það komi skýrt fram, að tekjuafgangi stofnunarinnar skuli varið til að mæta ófyrirsjáanlegum halla, því að gert er ráð fyrir því, að halli eigi ekki að verða á rekstrinum nema því aðeins, að sérstök óhöpp komi fyrir.

Ég vil að lokum geta þess, að eftir því sem n. hefur fengið upplýsingar um, mun rekstrarhalli trygginganna á þessu ári verða um 2 millj. kr. Frá mínu sjónarmiði á Tryggingastofnunin alldigra sjóði, en hún rekur svo áhættusamt fyrirtæki, að slíkir sjóðir eru fljótir að fara, og það er miklu torveldara að vinna þá upp en eyða þeim. Ég vil benda á það, að stofnunin hefur í sambandi við sína sjóðstofna aðstoðað bæði sveitarfélög, einstaklinga að einhverju leyti, sem hafa ráðizt í stórvirki, og sjálfan ríkissjóð með stórkostlegum lánum til þess að koma fram framkvæmdum, sem vafasamt er að hefði verið mögulegt, ef fénu hefði ekki verið safnað á þennan hátt, en ríkissjóður hefur greitt þennan hluta með ríkistryggðum bréfum á undanförnum árum, m.a. á þessu ári, þegar hann greiddi hluta af sinni skuld með slíkum bréfum til þess að aðstoða rafmagnsveitur í landinu, og hefur sjálfsagt bætt þar úr miklum vandræðum. Ég tel eðlilegt, að það verði að nást fullt samkomulag um þetta mál heldur en að fara inn á þá braut að ausa svo sjóði stofnunarinnar, að hún bíði þess ekki bætur um lengri tíma. Ég tel þetta heppilegra, ef um það fengist samkomulag, heldur en rýra svo sjóðinn, að stofnuninni sé hætta búin.

Það kom fram í n. mjög eindregin ósk um að taka upp mæðralaun, eins og samkomulag var orðið um á síðasta þingi í þessari hv. deild. Þetta mundi auðvitað kosta talsvert fé, og meðan fjárhag ríkisins er þann veg farið og nú er, þótti fulltr. Sjálfstfl. í n. ekki rétt að leggja það til, en um það liggur fyrir till. frá meiri hl. n. Þetta var rætt við fulltrúa frá kvenfélagasambandinu, en því miður gat ég ekki skipt um skoðun á þessu máli, þrátt fyrir þeirra margvíslegu rök. Þar með er ekki sagt, að þetta mál sé dauðadæmt, þó það komist ekki inn á þessu ári. Það er óhætt að segja, að það á mikinn rétt á sér, svo mikinn, að vafi leikur á, hvort ekki ætti að endurskoða aðrar bætur, til þess að koma því inn, en til þess hefði þurft lengri tíma en n. hafði ráð á við afgreiðslu þessa frv. Af þessum ástæðum gat ég ekki veitt till. fylgi í þetta skipti, enda veit ég, að þeir, sem berjast fyrir þessu máli, muni ekki sleppa hendinni af því, enda engin ástæða til þess, því það hefur ekki mætt neinni andúð hér á Alþingi eins og bezt sést af afstöðu þessarar hv. deildar í fyrra, þó það, af ástæðum, sem ég þegar hef nefnt, sé ekki tekið með nú. Það er meginstefna fulltrúa Sjálfstfl. í n. og raunar allra þeirra, sem styðja hæstv. ríkisstj., að skila þessum málum þannig í hendur hæstv. stjórnar, að ríkissjóður þurfi ekki að hafa neina frekari byrði af þessum málum frá því, sem nú er skv. gildandi l. Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. vilji fallast á að hafa þann fyrirvara, sem fram kemur í brtt. á þskj. 352.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð lengri. Ég legg til, að frv. með þeirri breyt., sem fram kemur á þskj. 352, verði samþ. og að því samþ. verði því vísað til 3. umr., eins og ég legg einnig til, að framkomnar brtt. á hinum öðrum þskj. verði felldar.