13.12.1950
Efri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (2182)

121. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. heilbr.- og félmn. fyrir þær brtt., sem hún leggur til á því frv. frá ríkisstj., sem hér liggur fyrir, þó ég vilji bæta því við, að þær ganga skemur en ég gat búizt við. Hins vegar setti n. sig mjög vel inn í málið, og með till. sinum gekk hún gegn þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstjórn hefur markað með því að flytja þetta frv. N. var sammála um: í fyrsta lagi, að sjálfsagt væri, að sömu reglur giltu um uppbót á bótagreiðslur trygginganna og uppbætur á launagreiðslur í landinu; í öðru lagi var n. sammála um, að sú hækkun, sem um getur í frv. á tekjum trygginganna, skyldi lögð jafnt á alla aðila, en í frv. var lagt til, að sú hækkun kæmi eingöngu niður á einstaklingum og atvinnurekendum; í þriðja lagi var n. sammála um, að óhjákvæmilegt væri að ganga til móts við sjúkrasamlögin um framlag til trygginganna.

Þessar tillögur er rétt og skylt að meta. Þær miða í rétta átt, þó þær að mínu áliti séu ekki nóg.

Hv. frsm. vék að því, að tryggingal. hefði jafnan verið breytt með viðaukal. á hverju ári síðan þau voru sett 1946. Ég er einn af þeim, sem líta svo á, að ef tryggingalögin eiga að koma að gagni, þá verði að breyta þeim í samræmi við breyttar aðstæður, og hér á landi hafa verið sífelldar breytingar síðan 1946, og l. hefur hingað til verið breytt eftir því, svo hlutur tryggingaþeganna yrði ekki lakari en gert var ráð fyrir í tryggingal., þegar þau voru sett. Frá þessari stefnu er horfið í till. hæstv. ríkisstj.

Sá skoðanamunur, sem fram kom í n. milli mín og hv. 7. landsk. annars vegar og hv. meiri hl. hins vegar, er því ekki um principatriði, heldur hve langt skuli ganga. Hv. meiri hl. lítur svo á, að vegna þess hve árferði er nú bágborið og horfur tvísýnar, sé ekki hægt, með tilliti til fjárhags ríkisins, að bæta við bótagreiðslurnar. Ég er á öndverðri skoðun í þessu máli. Ég lít svo á, að einmitt vegna þess, hve árferði er nú slæmt og horfur tvísýnar, sé enn þá meiri nauðsyn að auka það öryggi, sem tryggingarnar skapa. Hv. meiri hl. lítur meir á erfiðleika ríkissjóðs en almennings og telur það forsvaranlegt að leggja á aðra aðila, sem kostnaðinn eiga að bera. Hann viðurkennir að vísu, að slíkt verði aðeins gert skamma stund, eitt ár, en telur þó gerlegt að gera það þetta eina ár. Ég lít aftur á móti svo á, að þetta megi teljast ógerlegt, ef litið er til þess, að einmitt þegar árferðið er lélegt og horfurnar slæmar, má gera ráð fyrir, að áætlanir stofnunarinnar að öðru leyti geti tæplega staðizt, vegna þess að þá koma innheimtuörðugleikar til greina, sem rýrir tekjur stofnunarinnar. Ég tel því, að hv. meiri hl. sé of bjartsýnn á það, hvað gerlegt sé að ganga langt í því að eyða sjóðum stofnunarinnar, vegna þess að búast má við, að þeir verði fyrir skakkaföllum vegna árferðisins. Þetta eru þau höfuðatriði, sem skoðanamunur er um, þó að við séum sammála um sjálf principatriðin, sem ég í upphafi máls míns nefndi. — Nú er að ljúka fjórða starfsári Tryggingastofnunarinnar. Þrjú fyrstu árin voru stofnuninni mjög hagstæð, og söfnuðust þá talsverðir sjóðir á þessum árum. Fjórða árið, sem nú er að líða, verður aftur á móti fyrirsjáanlegur nokkur halli á starfsemi trygginganna, þar sem stofnunin hefur greitt vísitöluuppbót og fasta uppbót á lífeyri, án þess að fá nokkra tekjuhækkun á móti þessum auknu útgjöldum.

Í frv. því, sem frsm. nefndi í upphafi málsins og afgr. var hér í hv. d. á síðasta vetri, var gert ráð fyrir því, að nokkuð væri aukið við bótagreiðslurnar, sumpart bætt inn nýjum flokkum, eins og mæðralaunum, og aukið við bætur á öðrum sviðum o.fl. Var þá gert ráð fyrir af mþn. þeirri, sem samdi þetta frv., að ekki þyrfti að auka tekjustofna trygginganna, þ.e. að hækka gjöldin til þeirra, vegna þessara breyt. út af fyrir sig, því að tekjustofnarnir hefðu fram að því reynzt það miklir, að unnt reyndist að mæta þessum auknu gjöldum, sem þá voru áætluð 2–21/2 millj. kr. á ári. Síðan þetta frv. var samþ., hafa stórkostlegar breyt. orðið í fjárhags- og atvinnumálum hér á landi. Það er þá fyrst og fremst það, að gengislækkunarl. hafa verið samþ., með þeim beinu afleiðingum, að dýrtíðin hefur vaxið svo, að vísitalan sýnir nú 22% hækkun frá því í marz s.l. ár. Það er líka augljóst mál, að ef tryggingarnar eiga að geta rækt sama hlutverk í þjóðfélaginu og þær gerðu áður, verður að mæta þessum stórfelldu breytingum í fjárhags- og atvinnumálunum með breyttri löggjöf fyrir tryggingarnar. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki gert það nema að mjög litlu leyti. N. hefur bætt þar mikið um, en þó er auðséð, að þótt tekjurnar séu hækkaðar um 8%, þá hrekkur það skammt, ef útgjöldin hækka um 22%. Það er skamma hríð hægt að lifa á sjóðum Tryggingastofnunarinnar með slíkum búskap.

Ég skal svo snúa mér að þeim brtt., sem ég flyt ásamt hv. 7. landsk. (FRV) á þskj. 358. — Fyrst er brtt. við 4. gr. frv., þess efnis, að þeim mönnum, sem nú njóta lífeyris úr opinberum sjóði eða ellilífeyris úr ríkissjóði, skuli ívilnað nokkuð frá því, sem nú er, á þann hátt, að bæta megi við lífeyri þeirra frá tryggingunum slíkri upphæð, að samanlagðar greiðslur frá ríkissjóði og Tryggingastofnuninni megi nema allt að 150% af lífeyrisupphæðinni. Ef t.d. maður hefur 400 kr. eftirlaun úr ríkissjóði, má bæta við þá upphæð 200 kr. frá Tryggingastofnuninni. — Þessi gr. var í frv. því, sem lá fyrir þinginu í fyrra, og var sett inn fyrir tilmæli frá þeim mönnum, sem lítilla eftirlauna njóta, og virtist hafa mikið fylgi hér í þinginu. Þessi gr. er því tekin hér aftur upp í brtt. mínar óbreytt, eins og þessi hv. d. samþ. gr. á s.l. vetri.

2. brtt. er við 5. gr., þ.e.a.s. hinar nýju grunnupphæðir til bóta, sem þar eru ákveðnar. Þó að gr. sé hér orðuð upp, er mismuninn að finna í a-lið, 1-2, b-lið, 1—2 og 5. lið, 1—2, þ.e. lífeyrir til öryrkja, gamalmenna og makabætur. Upphæðir þær, sem lagt er til í till. mínum, að teknar verði upp, eru 60 kr. hærri til hvers einstaklings en í frv. hæstv. ríkisstj. Samkv. frvgr. nemur hækkunin á hinum upphaflega grunnlífeyri Tryggingastofnunarinnar 13,3%, en eftir till. okkar á þskj. 358 verður þessi upphæð 15% hærri en í upphafi 1947. Till. er miðuð við það, að greidd sé sama uppbót á örorkulífeyri og greitt er af ríkissjóði sjálfum til þeirra, sem styrks njóta á 18. gr. fjárl. Ef gr. hæstv. ríkisstj. verður samþ. óbreytt, verður hækkun á grunnlífeyri þeirra, sem bóta njóta frá almannatryggingunum, ekki nema 13,3%, en hækkun til hinna, sem eftirlauna njóta, mun meiri, en það teljum við flm. ósanngjarnt, þar sem hinir fyrrnefndu eru sízt betur settir, og þess vegna leggjum við til, að þær upphæðir verði teknar upp, sem í till. greinir.

Þá er b-liður brtt. okkar við sömu gr. þess efnis, að heimildin til að greiða hækkun á lífeyri samkv. 47. gr. almannatryggingal., sem nú er 40%, verði hækkuð upp í 50% og heimildin sé víkkuð þannig, að hækkunina megi greiða ekki einasta, sé um sjúkleika að ræða, heldur einnig, ef um einstæðingsskap eða algert tekjuleysi er að ræða. Þessi gr. var einnig samþ. í þessari hv. d. í fyrra og er tekin hér upp óbreytt, eins og hún var afgr. héðan úr d.

3. brtt. okkar er við 10. gr. og er í tveimur liðum. Samkv. fyrri liðnum er lagt til að heimila að greiða dánarbætur til ekkna og ekkla, þó að þau séu komin á lífeyrisaldur, en samkv. l. nú eru dánarbætur aðeins greiddar þeim, sem eru á gjaldskyldualdri, 16–67 ára, og aðeins konum, ef menn þeirra deyja, en ekki manninum, ef konan fellur frá. Samkv. þessum till. okkar er ætlazt til, að greiddar séu allt að 1800 kr. dánarbætur til ekkla sem ekkna, þó að þau séu orðin 67 ára og af þeim sökum njóti lífeyris. Lífeyririnn er skorinn það við nögl, að það er eigi í mörgum tilfellum framfærslueyrir, þannig að eigi er sanngjarnt að fella niður dánarbæturnar í þessum tilfellum. — Þau útgjöld, sem stafa mundu af þessari gr., eru áætluð um 270 þús. kr. á ári.

Þá er lagt til í b-lið brtt., að tekin verði upp í sömu gr. sams konar ákvæði og í fyrra um mæðralaun, og heimilist Tryggingastofnuninni að greiða þeim einstæðum mæðrum, sem eiga fyrir tveimur eða fleiri börnum að sjá, nokkur mæðralaun, er fari hækkandi eftir því, hvað börnin eru mörg. — Ég skal ekki tefja tímann með því að ræða nauðsyn þessarar brtt., en ég vil taka fram, að hér er beinlínis vöntun í l., sem hlýtur að stangast við hinn upphaflega tilgang l. Ég veit, að hv. meiri hl. n. litur svo á, að af fjárhagsástæðum sé þetta ekki fært, en það er víst, að engir þeirra, sem á annað borð njóta Tryggingastofnunarinnar, eru jafnvanhaldnir og mæður með tvö eða fleiri börn, sem fá ekki neitt annað með þeim en þann lífeyri, sem l. ákveða. Flestar þeirra eru þannig settar, að það er ekki með nokkurri sanngirni hægt að ætlast til, að þær geti aflað sér vinnu á þann hátt, sem aðrar konur eiga kost á.

Þá flytjum við brtt. við 16. gr., 4. brtt., og er það aðeins til samræmis við aðrar brtt. við 5. gr. Ef þær brtt. verða felldar, þá mun ég taka aftur þessa brtt. við 16. gr., því að það er samband þar á milli.

5. brtt. er um það hámark, sem ákveðið er í frv. á framlagi ríkissjóðs og sveitarsjóðs til sjúkrasamlaga. Í frv. hæstv. ríkisstj. er lagt til, að hámarkið verði 60 kr. á ári, og verður ekki séð á frvgr., að til þess sé ætlazt, að á það komi vísitöluuppbót. Hv. n. hefur þarna gengið til móts við óskir sjúkrasamlaganna í þessum efnum og vill hækka þetta upp í 62 kr. auk vísitöluuppbótar, en það framlag af hálfu ríkissjóðs svarar til 17.80 kr. iðgjalds á mánuði. Nú er svo komið, að meira en helmingur - og á næsta ári verða sennilega nálægt því 5/9–6/9 partar allra sjúkrasamlagsmeðlima í landinu að greiða hærra iðgjald en þessu nemur, þar sem það kemur ekkert framlag á móti þeim hluta iðgjaldanna hjá þessum samlögum, sem er umfram kr. 17,80, en það þýðir um það bil 5/9–6/9 partar af öllum landsmönnum. Nú er þegar á þessu ári búið að hækka iðgjöld manna til sjúkrasamlaganna stórkostlega, í ýmsum tilfellum um nærri 60% og mjög víða, í flestum samlögum, um 33%. Iðgjaldið til sjúkrasamlagsins hér í Rvík fyrir giftan mann hefur á einu ári hækkað um 120 kr., í viðbót við það, sem fyrir var, og er nú 480 kr. á ári. Ég tel ógerning að ætlast til, að greidd séu hærri iðgjöld til sjúkrasamlaga af einstaklingum en hér er gert, ekki sízt með tilliti til þess, að í því frv., sem nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að takmarka megi frá því, sem nú er, lyfjagreiðslu af hálfu sjúkrasamlaga fyrir meðlimina, og þýðir það þá náttúrlega minni fríðindi eða hækkun útgjalda. Við höfum því lagt til í 5. brtt. okkar, að iðgjöldin séu hækkuð upp í 69 kr. í grunn, sem mundi svara til um það bil 79 kr. með vísitöluuppbót.

Í sambandi við hin mismunandi háu iðgjöld einstakra sjúkrasamlaga má ekki gleyma því, hvað sjúkrasamlögin hafa ólíka aðstöðu í þessum efnum. Það er yfirleitt svo, að sjúkrasamlög úti um sveitirnar hafa stórum lægri iðgjöld en sjúkrasamlagið hér í Rvík, sem fyrst og fremst stafar af því, að þar hafa menn héraðslækna, sem hafa föst laun úr ríkissjóði og auk þess oft ýmis fríðindi, t.d. bústað með aðgengilegum kjörum o.s.frv. Hinir, sem í kaupstöðum búa, og þá einkum hinum stærri kaupstöðum, hafa enga slíka lækna, sem þeir geti snúið sér til, heldur verða þeir að snúa sér til lækna, sem hafa allar sínar tekjur af sjúklingunum, sem leita til þeirra, og hafa sett sér gjaldskrá, sem þeir telja stéttinni hæfa og er margfalt hærri en það, sem héraðslæknar mega taka. Og þó að tekizt hafi með samningum við læknana að fá lægri greiðslur, eru þær samt stórum hærri, sem eðlilegt er að vissu marki, en þær greiðslur, sem héraðslæknar, sem hafa föst laun úr ríkissjóði og bætta aðstöðu í sambandi við húsnæði og annað, taka. Það er því ekki nema eðlilegt, að framlög til þeirra sjúkrasamlaga, sem eingöngu skipta við praktíserandi lækna, hljóti að verða miklu hærri en til hinna, sem ríkissjóður greiðir fyrir gegnum hin föstu laun embættislæknana.

6. brtt. er um það, að grunniðgjöldin verði ákveðin eins og þar segir. Er gert ráð fyrir, að iðgjöld og framlag ríkissjóðs verði hækkað sem svarar 3%, þ.e.a.s. um 10 kr. persónuiðgjaldið á ári í grunn, og framlag ríkissjóðs um hér um bil 600 þús. kr. á ári í grunn. Þessi till. er borin fram til þess, ásamt vísitöluuppbótinni, að mæta þeim útgjöldum, sem gert er ráð fyrir í till. okkar, því að okkur er ljóst, að á móti hækkuðum bótum þurfa að koma hækkaðar tekjur Tryggingastofnunarinnar.

Samkv. 7. brtt., við 25. gr., er gert ráð fyrir því, að greiddar séu uppbætur á bætur eftir sömu reglum og gilda um uppbætur á laun, og er þar enginn munur á till. okkar og meiri hl. n.

Ég hef nú gert stuttlega grein fyrir þessum brtt. okkar á þskj. 358. Meginmunurinn á þeim og brtt. hv. meiri hl. er sá, eins og ég drap á í upphafi, að við erum þeirrar skoðunar, að erfiðleikum þeim, sem fram undan eru, sé betur mætt með því að bæta við og auka tryggingarnar, þannig að þær geti stutt almenning í sambandi við þá erfiðleika, sem fram undan eru, og teljum við, að það sé hagstæðara bæði fyrir fólkið í landinu og ríkissjóð að taka á sig þau auknu gjöld, sem þessu eru samfara, með iðgjöldum og framlögum í þeim hlutföllum, sem nú eru ákveðin í l., en að hafa bæturnar lægri og hækka svo tekjuhliðina minna. Ég vil aðeins nefna sem eitt dæmi í þessu sambandi, að ég er ekki í neinum vafa um, að það verða ekki fá þau tilfellí, að einstæðum mæðrum með tvö eða fleiri börn á framfæri, sem hingað til hafa komizt af án annarrar hjálpar en þess barnalífeyris, sem greiddur er, þeim mun reynast .erfitt að komast af, eins og nú horfir um árferði. Hins vegar þykist ég þekkja það til, að ég þori að fullyrða, að með skynsamlegum ákvæðum mætti hjálpa fjöldamörgum af slíkum mæðrum til að komast af. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi, en sama eða svipað mætti segja um mörg önnur tilfelli.

N. öll flytur, þó að einn nm. hafi um það óbundið atkv., tili. um ákvæði til bráðabirgða, sem bætist aftan við lögin. Hv. frsm. gerði mjög skilmerkilega grein fyrir því, hver nauðsyn væri á að setja þetta ákvæði, sérstaklega með tilliti til þeirrar yfirlýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf hér við umr. í d. fyrr á þessu kvöldi. Ég vil taka undir orð frsm. í þessu efni.

Nú er tryggingasjóður sá sjóður, sem ætlað er að mæta ófyrirsjáanlegum sveiflum og skakkaföllum, en hann er nú talinn í reikningum um 17 milljónir króna. Gera má ráð fyrir, að tekjuhalli á yfirstandandi ári verði ekki minni en 2 millj.

kr., þar sem greidd hefur verið vísitöluuppbót á bæturnar án þess tekjur hafi komið á móti. Með þeirri hækkun, sem ráðgerð er á vísitöluálagningu, má gera ráð fyrir, að þessi halli verði á næsta ári um 4–5 millj. kr. Yrði þá tryggingasjóður í lok næsta árs kominn niður í 10 millj. kr., ef miðað er við vísitöluna 115 um bótagreiðslurnar. Verði hins vegar greiddar bætur eftir vísitölunni 122, þá eykst hallinn enn um 31/2 millj. kr., ef engar breytingar verða gerðar til að auka tekjur stofnunarinnar, og sjóðurinn verður þá kominn niður í 6–7 millj. kr. — Ef aðrar slíkar „ófyrirséðar“ sveiflur lenda með öllum sínum þunga á tryggingunum, þá verður stofnunin bráðlega ófær um að mæta þeim greiðslum. En með svo stórum sveiflum á verðlagi og atvinnuháttum, sem eru að gerast og sýnilegt er að muni gerast hér á landi, þá er nauðsynlegt, að tryggingasjóður geti rækt það hlutverk, sem honum er ætlað. Ef þetta verður samþ., þá er ríkissjóði heimilað að firra sig þeirri byrði, að slíkur halli lendi loks á honum einum, með því að hækka tryggingargjöldin hjá öllum aðilum jafnt, og þarf hann þá ekki að greiða af hallanum nema 1/3 hluta.

Hvenær ætti að nota þetta ákvæði, er ekki á mínu færi að segja, svo bindandi sé. En færi nú hallinn fram úr 4–5 millj. kr., þá tel ég að ástæða væri fyrir hendi til þess. Og hvort svo verður á næsta ári, má gera sér nokkra hugmynd um þegar á fyrri helmingi þess árs. — Það er þannig ekki einasta þýðingarmikið fyrir tryggingarnar, heldur engu síður fyrir ríkissjóð, að till. sem þessi verði samþ.

Ég skal svo ekki reyna á þolrif hæstv. forseta og hv. d. með því að lengja frekar mál mitt, en ég vil þó aðeins víkja lítið eitt að einu atriði enn.

Hér er alls staðar vísað á ákvæði gengisbreytingarlaganna um greiðslur á vísitöluuppbót, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú sýnir vísitala fyrir júní 1950 hækkun eða lækkun framfærslukostnaðar um 5% eða meira, frá því hækkun eða lækkun launa var síðast ákveðin, og skulu þá laun fyrir júlí 1951 hækkuð eða lækkuð samkvæmt þeirri breytingu á framfærslukostnaði, sem vísitalan sýnir, en frá 1. ágúst 1951 skulu laun ekki taka breytingum samkvæmt ákvæðum þessara laga.“ — Þrátt fyrir orðalag þessarar gr., þá er mér held ég, óhætt að segja, að n. hafi þann skilning, að vísitöluákvæði, sem öðlast gildi fyrr á árinu, gildi árið út, og ég veit heldur ekki betur en sá sé einnig skilningur hæstv. ríkisstjórnar. N. hefur þannig gert ráð fyrir því í meðferð þessa máls, að þessi skilningur sé látinn ráða.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri nema tilefni gefist í sambandi við grg. flm. fyrir brtt.