13.12.1950
Efri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (2183)

121. mál, almannatryggingar

Rannveig Þorsteinsdóttir:

Herra forseti. Ég flyt ér ásamt hv. 7. landsk. 3 brtt. á þskj. 371. Er hin fyrsta við 7. gr. — um að gr. falli niður. En þessi gr. er þannig til komin, að hún var sett inn í frv. í fyrra hér í hv. Ed. til samræmingar á greiðslum barnalífeyris til ekkna annars vegar og hins vegar til mæðra óskilgetinna barna og fráskilinna kvenna.

Eftir lögum er þessu nú svo háttað, að mæður, sem fá úrskurð yfirvalds um barnalífeyri, geta snúið sér til Tryggingastofnunarinnar og fengið hann greiddan þar. Réttur til þeirrar greiðslu gildir, þar til börnin eru 16 ára að aldri. En samkv. 23. gr. laganna á ekkja ekki rétt á þessum bótum nema í 3 ár eftir að hún giftist aftur, en mæður óskilgetinna barna og fráskilinna kvenna fá þær greiddar lengur. Þar sem þær eiga í hlut, er í flestum tilfellum aðeins um að ræða innheimtu á lífeyrinum af hálfu Tryggingastofnunarinnar, og gegnir þar öðru máli en um greiðslur til ekknanna. Því leggjum við til, að þessi grein um samræminguna falli niður, og er það í samræmi við framkomnar óskir kvennasamtakanna hér í bænum og raunar um land allt.

Þá flytjum við enn fremur þá brtt. við 10. gr., að hún verði felld niður. — Samkv. 34. gr. l. eins og þau eru nú, er um tvenns konar fæðingarstyrk að ræða. Hinn lægri styrkur er veittur mæðrum, sem ekki vinna utan síns heimilis og missa ekki beinlínis í við það fjárhagslega að fæða barn sitt. Hærri styrkurinn er veittur mæðrum, sem atvinnu stunda utan heimilis og þurfa á launum sínum að halda, og samkv. 40. gr. þessa frv. nemur sá mismunur 900 kr., eða 300 kr. í 3 mánuði. En sá misskilningur, sem ákvæði gr. byggjast á, er þessi, að þar er markalínan dregin á milli giftra og ógiftra mæðra, en í l. er hún sú, hvort mæðurnar stundi atvinnu utan heimilis eða ekki. Ég fullyrði, að þessi breyting er ekki til bóta fyrir neinn, en hins vegar mörgum til skaða, og byggi ég það á kunnugleika og reynslu af þessum málum. Því hefur verið haldið fram, að ákvæði 10. gr. væru a.m.k. eins góð og áður, en ég held, að það sé mikið tjón að ákvæðum hennar. Þar er gert ráð fyrir, að móðirin verði að leggja fram úrskurð um kröfu á hendur barnsföður. En sá úrskurður getur tafizt og þannig dregizt á langinn, að móðirin fái þessar tekjur á þeim tíma, sem henni er frekast þörf á styrk. Annað mál er svo það, að á sínum tíma þarf að sanna, hver barnsfaðirinn er, vegna annarra stærri greiðslna. — Um báðar þessar gr. gildir það, að það er samkv. óskum kvennasamtakanna að lagt er til, að þær séu felldar niður.

Þá er 3. brtt. okkar á þskj. 371 um það, að aftan við 11. gr. bætíst ný málsgr. þess efnis, að „hafi sjúkrasamlag eða sveitarstjórn í þjónustu sinni hjúkrunarkonu eða aðstoðarstúlkur til þess að veita hjúkrun eða aðstoð á heimilum í veikindum, er Tryggingastofnuninni heimilt að taka þátt í kostnaði við þau störf eftir samkomulagi við viðkomandi aðila“. — Þetta var tekið upp í fyrra, og að mínum dómi er það af athugaleysi, að þetta hefur verið fellt niður úr frv. ríkisstj. Hér er aðeins um heimild að ræða til Tryggingastofnunarinnar til að taka þátt í þessum kostnaði, og verður að teljast nauðsynlegt, að þessi heimild sé fyrir hendi, einkum í sambandi við frv., sem liggur nú fyrir Alþ. um hjálp í veikindaforföllum húsmæðra.

Ég vil svo að lokum geta þess, að ég hef haft fyrirvara um afstöðu mína til mæðralaganna. Ég tel, að nú, þegar svo illa árar, eigi sízt að klípa af mæðralaununum og mönnum beri að standa saman um þá löggjöf; og ég mun því greiða atkv. með þeim till., sem gerðar eru á þskj. 358.