13.12.1950
Efri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

121. mál, almannatryggingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og hæstv. forsrh. sagði, er nauðsynlegt að ljúka þessum umr. í kvöld, til þess að geta afgr. frv. fyrir jól. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir undirtektir hans, sem voru mjög kærkomnar, og það hjálpar til að koma þessu máli fram fyrir áramót. Ég vil einnig þakka honum fyrir samvinnuna, síðan málið kom í n. Það féll í minn hlut árið 1946 að slást við hv. 4. þm. Reykv. hér í þinginu um þetta mál. Það hefur vanalega legið á mér, að ég væri afturhaldssamur í sambandi við þessa löggjöf, en það hefur alltaf vakað fyrir mér að fara ekki lengra en það, að ekki þyrfti að stíga til baka. Þess vegna er mín afstaða mörkuð í n. Ef þessi afstaða hefði ekki verið tekin, væri komið verr fyrir tryggingunum en nú er. Það er ekki rétt að taka inn fleiri breytingar, sem leiða af sér fleiri útgjöld í sambandi við málið. Við hv. 4. þm. Reykv. vil ég segja, að mér fannst lítið tilefni til, að hann færi að ávíta ríkisstj. fyrir þetta mál. Mér þykir of vænt um málið til þess, að ég reyni ekki að draga það út úr flokksdeilum. Ég vænti þess, að með hans djúpa skilningi á málinu finni hann annað tilefni til þess að skjóta að ríkisstj. Mér finnst ríkisstj. hafa sýnt mikinn skilning á málinu, og ég hef reynt að skilja þá ábyrgð, sem hvílir á forsrh. í sambandi við það. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði, að innheimtuörðugleikar ykjust, þegar illa áraði, vil ég segja, að ekki hefur verið kvartað undan öðrum en sveitarstjórnunum. Hinir tryggðu fá fullar uppbætur á vísitölu, en þá er engin ástæða til að gefa sveitarstjórnunum eftir. Það er engin ástæða til að kvíða því, að hér verði nein sérstök áföll. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða þessa brtt. frá hv. 4. þm. Reykv. Ég vil geta þess, að eðlilegt er, að ódýrara sé að lifa úti á landi, en þeir, sem þar búa, hafa þó stórkostlegan kostnað í sambandi við læknisvitjanir, og er það þó eitthvað annað en í Reykjavík. Ég vil mega vænta þess, að hæstv. forsrh. láti nota þessa heimild.

Í sambandi við brtt. frá hv. 8. þm. Reykv. er nauðsyn að segja nokkur orð. Ég vil minnast á það, að ef 7. gr. er felld niður, er verið að stöðva það ranglæti, sem nú ríkir. Hér eru gerð jöfn kjör giftra og ógiftra kvenna í landinu. Ég sé ekki ástæðu til, að gift kona fái hærra meðlag með börnum en ógift. Ég vil, að framlagið falli niður, er ógift kona giftist aftur. Hvers vegna á hún að halda sérstökum launum, þegar hún hefur gifzt aftur? Þetta er ekkert annað en hvítt mansal. Hér er verið að bjóða upp á konur, sem hafa tekjur frá ríkisstofnun sem heimanmund og meðlag með börnunum getur farið í allt að 70 þús. krónur. Ég fylgi því, að þetta ákvæði verði lagað nokkuð, en er á móti því, að þessi gr. verði lögð niður. — Í sambandi við 10. gr. vil ég segja, að ég tel rangt að fella hana niður. Þetta getur kostað stofnunina 300 þús. krónur, en ég tel rangt að gera það, og það minnsta, sem hægt er að krefjast, er, að mæður sýni skilríki fyrir því, hver sé faðir barnsins. — Ég legg til, að allar brtt., aðrar en nefndarinnar, verði felldar, vegna þess að ég tel heppilegast fyrir stofnunina sjálfa, að ekki sé farið lengra inn á bótaleiðina á þessu stigi málsins.