13.12.1950
Efri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

121. mál, almannatryggingar

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja að hæstv. forsrh. Ef áhugi hans fyrir breytingum á tryggingalöggjöfinni er sá sami og fyrir breytingum á jarðræktarlögunum, þarf ég ekki undan neinu að kvarta. Viðhorfið til tryggingalöggjafarinnar og jarðræktarlaganna er ekki alveg hið sama. Það, sem mig og hæstv. ráðh. greinir á, er, hvernig erfiðleikunum verði mætt.

Ég álít, að þeim sé betur mætt með því að auka tryggingarnar heldur en að gera það ekki. Það er óhjákvæmilegt, að eitthvað af því fólki, sem nýtur trygginga, á ekki annars kost en að fara fram á fátækraframlag. Á þetta hef ég bent áður í þessum umræðum. Ég játa, að vegna samstarfs míns við hæstv. ráðh. er mér kunnugt um hug hans til tryggingalaganna. Hann grunaði, að af Tryggingastofnuninni væri ekki eins mikill halli og látið væri af. Áætlunin er samt of varfærnisleg og þolir ekki miklar sveiflur. Því hefur verið haldið fram, að tryggingarnar væru eins konar baggi á sveitarfélögunum. Þau sveitarfélög, sem óska að hafa eftir afskipti ríkisstj., hafa lagt á útsvör, sem hafa fullkomlega nægt til að greiða kostnaðinn. Vanskilin stafa af því, að bæjarfélögin hafa notað féð til annars. Nefndin hefur borið fram till. út af því, að þeir bæir, sem erfiðast eiga með að standa í skilum með þessa greiðslu, hafa enga hækkun fengið frá gömlu tryggingalöggjöfinni.

Ég vík svo að brtt. á þskj. 371, sem 8. landsk. þm. gerði grein fyrir. Viðvíkjandi fyrstu breytingunni er ég sammála þm. Barð., að engin ástæða sé til að greina á milli giftra og ógiftra kvenna. Um breyt. á 10. gr. hefur orðið mikil deila, en um það hefur orðið samkomulag, er ég gekk inn á um tíma að fella þetta niður, enda tel ég, að sú óánægja að verulegu leyti sé á misskilningi byggð. Allur þorri þeirra kvenna, sem njóta fæðingarstyrks, hefur tekið hann, eftir að sængurlegunni er lokið. Sú breyting ein var gerð, er snertir ógiftar mæður, að Tryggingastofnunin fær endurkröfurétt á hendur barnsföðurnum. Í sambandi við þetta, er ágreiningur verður, leggja mæðurnar fram úrskurð á hendur barnsföður um, að honum beri að greiða meðlagið. Það, sem andstaðan byggist á, er í fyrsta lagi, að svo getur farið, að stúlkan fái ekki kröfu á hendur barnsföður, í öðru lagi getur dregizt að fá þennan úrskurð. Ég álít, að nokkuð sé til í þessu, en tel, að of mikið sé úr þessu gert. En til eru þau tilfelli, að mæður þurfi að fá styrkinn útborgaðan, jafnvel áður en þær ala barnið. Konan leggur þá fram vottorð frá lækni, að hún eigi von á barni innan sex vikna. Nú getur verið um fá tilfelli að ræða, en mér finnst rétt að bæta úr þessu. Ég legg fram skriflega brtt. við 10. gr.: Á eftir orðunum ,.fyrir barnsfararkostnaði“ bætist inn í greinina: eða hefur gert ráðstafanir til að afla sér slíks úrskurðar. — Ef svo stendur á, að stúlka getur ekki snúið sér til viðkomandi yfirvalds. þá mundi ég telja, að hún sneri sér til lögfræðilegs ráðunautar mæðrastyrksnefndar og fengi yfirlýsingu frá honum, og mundi hann ganga eftir, að úrskurður yrði kveðinn upp gagnvart barnsföður, og yrði þetta þá greitt frá Tryggingastofnuninni. Áhætta hjá Tryggingastofnuninni er sama og engin, aðeins í fáum tilfellum. Sé hins vegar sú leið farin að leggja á Tryggingastofnunina þá kvöð að greiða mæðralaun án þess að leita eftir úrskurði, þá hlyti afleiðingin að verða sú, að ekki væri gengið eftir réttu faðerni. Þetta er ekki aðeins vegna Tryggingastofnunarinnar, heldur líka vegna barnsins, því að réttur þess er bezt tryggður með því, að faðernið sé rétt. Þess vegna legg ég þessa till. fram til umr. Ég get svo látið máli mínu lokið, en ég vil taka það fram um 2. brtt. á þskj. 333, að það væri að sjálfsögðu æskilegt, að það væri hægt að greiða mæðralaun eins og þar er gert ráð fyrir, en ég tel, að það liggi meira á ýmsum öðrum lagfæringum á tryggingalöggjöfinni heldur en að ákveða mæðralaun til fullhraustra kvenna, sem ekki hafa nema fyrir einu barni að sjá.